Svangar Þær hungrar í fjör, vinkonurnar.
Svangar Þær hungrar í fjör, vinkonurnar. — xxx
Mér finnst svo fjarska gaman þegar mér er komið á óvart, meira að segja við sjónvarpsgláp.

Mér finnst svo fjarska gaman þegar mér er komið á óvart, meira að segja við sjónvarpsgláp. Þar sem ég sat við skjáinn á sunnudagskvöld og naut þess sem boðið var upp á hjá RÚV, þá var ég í þann mund að fara að slökkva þegar kynnt var til leiks bresk þáttaröð, Í leit að ást , eða The Pursuit of Love . Ég ákvað af einskærri leti við að standa upp að horfa smá og athuga hvort þetta væri eitthvað fyrir mig. Þættir þessir gerast fyrir seinni heimsstyrjöld, en þar segir frá frænkum og bestu vinkonum, Lindu og Fanny, sem eru ástsjúkar og óþreyjufullar eftir fjöri í lífi sínu, sem þeim er nokkuð meinað um. Ég heillaðist frá fyrstu stundu, alveg leiftrandi skemmtilegt og sprúðlandi af lífsþorsta stúlknanna, kvikmyndataka unaðsleg og þær tvær, Lily James og Emily Beecham, í hópi minna uppáhaldsleikkvenna. Vert er að taka fram að hún Lily er hrútur (eins og ég) og hún fór létt með að leika þessa ærslafullu orkuríku ungu konu, en á vorin ærast hrútar af fögnuði, það er þeirra árstíð (vorið er jú núna hér). Ég mæli með áhorfi á þessa þriggja þátta röð fyrir alla þá sem vilja láta koma blóði sínu á hreyfingu, svo smitandi er ólgandi lífsgredda þeirra vinkvenna. Sjáum til hvernig fram vindur sögu, eitthvað var að þykkna upp.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir