[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Hannesdóttir fæddist 10. maí 1942 í Reykjavík og ólst upp í foreldrahúsum í miðbæ Reykjavíkur og bjó þar í 30 ár. Helga var í Miðbæjarskóla og naut þeirrar gæfu að hafa sama kennara allan grunnskólann.

Helga Hannesdóttir fæddist 10. maí 1942 í Reykjavík og ólst upp í foreldrahúsum í miðbæ Reykjavíkur og bjó þar í 30 ár.

Helga var í Miðbæjarskóla og naut þeirrar gæfu að hafa sama kennara allan grunnskólann. Síðan fór Helga í landspróf við Vonarstræti og í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1962 frá máladeild. „Það voru mikil forréttindaár að vera í MR en þar eignaðist ég ævilanga vináttu margra skólafélaga minna. Við höfum hist reglulega og alltaf jafn gaman að rifja upp gamlar minningar menntaskólaáranna og kynnast því hvernig æviferill okkar hefur þróast eftir útskrift úr MR.

Helga fór síðan í nám í læknadeild HÍ og lauk kandídatsprófi árið 1969. „Í útskriftarhópnum voru aðeins tvær konur þetta ár, Helga og Bergþóra Ragnarsdóttir sem síðar varð svæfingalæknir. Það eru breytt kynjahlutföll í dag innan læknadeildar þar sem konur eru nú í meirihluta við útskrift úr deildinni.“

Að því loknu hóf Helga sérnám í Rochester í New York-ríki. „Í fyrstu ætlaði ég í sérnám í barnalækningum en valdi síðan geðlækningar og sé ekki eftir því. Strong Memorial Hospital, University of Rochester varð fyrir valinu en þar hafa margir íslenskir læknar verið í sérnámi í læknisfræði og einnig í tónlistarnámi við Eastman School of Music sem tengist háskólanum. Spítalinn var þá talinn einn af 10 bestu háskólasjúkrahúsum í Bandaríkjunum enda sérnám þar mjög eftirsótt. Helga dvaldi í Rochester í fimm ár. Þau ár voru afar lærdómsrík, ógleymanleg en erfið.“

Þegar heim kom hóf Helga störf á geðdeild Landspítala. „Þá var í byggingu ný geðdeild Landspítala við Hringbraut sem mikill fengur var að fá og gjörbreytti nýja geðdeildin öllu viðhorfi til geðlækninga í landinu. Það voru talsverð viðbrigði að koma heim frá Bandaríkjunum og fara að vinna á Landspítala.“ Helga stundaði jafnframt geðlækningar á eigin stofu, Lækninga og sálfræðistofunni. „Mér þótti mikilvægt að geta stundað bæði skjólstæðinga á einkastofu og á sjúkrahúsi til þess að fleiri gætu nýtt sér þekkinguna og þjónustuna án þess að þurfa að vera inniliggjandi á sjúkrahúsi eða í tengslum við spítala.“

Helga hóf fljótlega störf á Barna- og unglingageðdeild eftir heimkomuna og starfaði þar samfellt í 18 ár. „Starfið þar var fjölskyldumiðað og í beinu framhaldi af því sérnámi sem ég var í á geðdeild Strong Memorial sjúkrahúss. Fjölskyldan var í fyrirrúmi og greining vandamálaáttuð og áhersla lögð á að fyrirbyggja og lækna samskiptavanda innan fjölskyldna með margvíslegu móti.“

Á þeim árum var Helgu falið að vera fulltrúi Íslands í samnorrænni nefnd sem Helga starfaði í um 20 ára skeið. „Markmið þessarar nefndar var að stofna regnhlífarsamtök heilbrigðisstétta innan Norðurlanda til að stuðla að aukinni velferð og bættri meðferð langveikra barna. Ísland varð fyrst Norðurlanda til að stofna Íslandsdeild samtakanna sem var þá nefnd: Norræna félagið um þarfir sjúkra barna. Íslandsdeildin hlaut síðar nafnið Umhyggja sem er vel þekkt meðal allra íslendinga í dag fyrir gríðarlega mikilvæg störf í þágu langveikra barna og fjölskyldna þeirra.“

Þá hóf Helga vinnu á sjúkrahúsinu Vogi, SÁÁ þar sem hún starfaði í tvö ár. „Á þeim tíma var talsverð aukning á áfengis- og fíkniefnavanda unglinga og æskilegt var að byggja upp ákveðna meðferð fyrir þá unglinga sem komu til innlagnar og fræða og upplýsa foreldra þeirra.

Vinnan á Sjúkrahúsinu Vogi var sérstaklega lærdómsrík og fróðleg og stuðlaði að mikilvægri rannsóknarvinnu hjá mér sem fljótlega var birt í Tímariti norrænna geðlækna.“

Áður hafði Helgu verið falið að vera fulltrúi Íslands í norrænni rannsóknarnefnd barna- og unglingageðlækna sem voru að gera samnorræna rannsókn á geðheilsu barna og unglinga. Þessi vinna leiddi til þess að Helga hóf doktorsnám í Turku í Finnlandi í barna og unglingageðlækningum. Helga lauk þaðan doktorsnámi árið 2002 eða fyrir 20 árum og doktorsritgerð Helgu fjallar um Geðheilsu barna og unglinga á Íslandi og var fyrsta doktorsritgerð í sérgreininni á Íslandi. „Það var vissulega áhugavert að stuðla að því að auka vísindalega þekkingu innan barna og unglingageðlækninga, háskóla HÍ og geðdeildar Landspítala sem síðar hefur leitt til aukinna rannsókna í sérgreininni og háskólaþekkingar. Niðurstöður doktorsritgerðarinnar sýndu fram á að íslensk börn höfðu þá bestu geðheilsu barna á Norðurlöndum.“

Síðan starfaði Helga á geðdeild Borgarspítalans í Fossvogi sem tengdist síðar geðdeild Landspítala við samruna spítalanna. Þar starfaði Helga sérstaklega við samráðskvaðningar fyrir geðdeildina síðustu árin þar til Helga hætti störfum á Landspítala árið 2012.

Helga hefur unnið að ýmsum rannsóknum í geðlæknisfræði og flutt erindi um niðurstöður þeirra víða erlendis og birt margar greinar í viðurkenndum fræðiritum. Helga hefur einnig gegnt ýmsum félagsstörfum t.d. verið tvisvar formaður í Félagi íslenskra barna- og unglingageðlækna, einnig kennt læknanemum til margra ára og kennt í Hjúkrunarskóla Íslands og Þroskaþjálfaskólanum. Helga hefur setið í ýmsum opinberum nefndum tengdum starfi hennar. Helga sat í Barnaverndarráði Íslands í 4 ár.

Helga er heiðursfélagi í Bandaríska barna- og unglingageðlæknafélaginu og í Félagi íslenskra barna- og unglingageðlækna og var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Turku fyrir doktorsritgerð hennar árið 2002.

„Ég hef alla tíð haft ánægju af útivist og skógrækt og dáð öræfi Íslands og hef ferðast víða um landið í frístundum. Stórfjölskyldan hefur annast trjágarð í Fossvogi sem foreldrar mínir ræktuðu og plöntuðu öllum trjánum í garðinum frá fræjum árið 1930 og er garðurinn nú með stærri og elstu trjágörðum á Reykjavíkursvæðinu. Síðustu árin hef ég verið í myndlistarnámi í Gerðubergi og hef haft mikla ánægju af því.“

Fjölskylda

Helga er gift Jóni G. Stefánssyni geðlækni, f. 10.1. 1939. Þau eru búsett í Reykjavík. Foreldrar Jóns voru Stefán Þorsteinn Sigurjónsson, f. 25.2. 1910, d. 16.1. 1991, skrifstofumaður hjá tollstjóraembætti í Reykjavík og Aðalbjörg Jónsdóttir, f. 28.7. 1912, d. 17.2. 2000, húsfreyja.

Börn Jóns og Helgu eru 1) Aðalbjörg , f. 12.8. 1966, dýralæknir á Akureyri, gift Ólafi Sveinssyni myndlistarmanni og kennara. Börn þeirra eru Karólína Rós, f. 1997, Sveinn Áki, f. 2000, og Baldvin Kári, f. 2002; 2) Hannes Valgarður, f. 1.6. 1969, viðskiptafræðingur, fráskilinn, búsettur í Våxjö í Svíþjóð. Börn hans eru Tinna Helga Margreta, f. 2003, Lilja Alice, f. 2007, og Beatrice Edda, f. 2009; 3) Stefán Hallur tannlæknir, f. 25.12. 1970, kvæntur Kristlaugu Stellu Ingvarsdóttur, hjúkrunarfræðingi og talmeinafræðingi. Börn þeirra eru Helga Hlín, f. 1997, Þórunn, f. 2000, og Jón Orri, f. 2002; 4) Valgerður Björg , f. 4.5. 1975, innanhússhönnuður, búsett í London, gift Chris Wieszczycki arkitekt og börn þeirra eru Max, f. 2003, og Nína, f. 2005.

Systkini Helgu voru Leifur Hannesson, f. 13.1. 1930, d. 14.5. 2001, verkfræðingur og eigandi Miðfells verktakafyrirtækis; Valgerður Hannesdóttir, f. 20.7. 1931, d. 1.4. 2004, húsfreyja í Reykjavík, og Lína Lilja Hannesdóttir, f. 14.8. 1935, d. 18.7. 2013, gjaldkeri hjá Hans Petersen í Reykjavík.

Foreldrar Helgu voru hjónin Hannes Valgarður Guðmundsson, f. 25.2. 1900, d. 27.5. 1959, húð- og kynsjúkdómalæknir í Reykjavík, og Valgerður Björg Björnsdóttir, f. 24.5. 1899, d. 27.1. 1974, húsfreyja í Reykjavík.