Sigurður Pálmar Gíslason fæddist 18. apríl 1934. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 27. apríl 2022.

Foreldrar hans voru Sigurlaug Sigurðardóttir, f. 8.9. 1913, d. 26.9. 2007, og Gísli Jóhann Jónsson, f. 25.5. 1910, d. 8.4. 1941.

Sigurður ólst upp hjá móður sinni ásamt afa og ömmu, þeim Sigurði Sverrissyni og Sesselju Guðmundsdóttur, og bjuggu þau lengst af á Laugavegi 27b í Reykjavík.

Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1954 og var lögreglumaður í Reykjavík um skeið. Sigurður lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1959 og var kennari við Hlíðaskóla í Reykjavík. Þá starfaði hann einnig sem íþróttakennari í Reykholti í Borgarfirði í tvö ár.

Sigurður hóf seinna nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og lauk viðskiptafræðiprófi þaðan árið 1974. Hann starfaði til fjölda ára hjá Háskóla Íslands þar sem hann sá um styrktarsjóði Háskólans. Þá rak Sigurður sitt eigið fyrirtæki, Hagvís, frá árinu 1980.

Hann stundaði frjálsar íþróttir frá unga aldri og lék körfuknattleik með ÍR og var hluti af svokölluðu gullaldarliði félagsins.

Sigurður kvæntist Rósu Sigríði Lúðvíksdóttur, þau skildu árið 1958. Sonur þeirra var Ragnar, f. 18.1. 1956, d. 30.4. 2010. Dóttir hans er Cecilia Sigurdsson, búsett í Danmörku.

Sigurður kvæntist 26.8. 1961 Kristínu Eiríksdóttur, f. 6.1. 1938, bankaritara hjá Landsbanka Íslands.

Börn þeirra eru Helga Sigurlaug, f. 24.1. 1963, maki Björn Jónsson, f. 11.1. 1961, og Gunnar Kristinn, f. 27.4. 1971, maki Anna R. Valdimarsdóttir, f. 8.3. 1973.

Börn Helgu og Björns eru Jón Pálmar, Helgi Steinn og Kolbeinn.

Börn Gunnars og Önnu eru Nína Kristín og Hugi Freyr.

Barn Jóns Pálmars og Guðrúnar Hrannar Hilmarsdóttur er Hilmar Björn, f. 1.9. 2020.

Útför Sigurðar fer fram frá Garðakirkju, Álftanesi í Garðabæ í dag, 10. maí 2022, kl. 15.

Elsku pabbi okkar er farinn yfir í sumarlandið. Við kveðjum hann með söknuði en hugsum á sama tíma um allar góðu minningarnar með hlýjum hug. Pabbi var einstakur maður. Hann ólst upp í fátækt hjá móður sinni Sigurlaugu, sem við kölluðum alltaf ömmu Laugu, í bakhúsi á Laugaveginum ásamt ömmu sinni og afa og frændsystkinum. Þetta var ekkert sældarlíf en þó minntist pabbi þess alltaf með hlýhug þegar hann rifjaði upp æskuárin á Laugaveginum. Þar kynntist hann æskuvinum sínum, hóf íþróttaiðkun af kappi, upplifði stríðsárin með hermenn þrammandi upp og niður götuna og keypti sína fyrstu djassplötu 15 ára. Hans líf var viðburðaríkt en hann þurfti að hafa fyrir hlutunum eins og margt fólk á þessum árum. Hann stundaði frjálsar íþróttir með KR og körfubolta með ÍR og náði góðum árangri í báðum íþróttagreinum. Hann starfaði sem lögreglumaður, menntaði sig sem kennari og síðar viðskiptafræðingur og stofnaði sitt eigið fyrirtæki seinna meir. Við systkinin minnumst góðra tíma á Móaflöt hjá pabba og mömmu. Pabbi var traustur og góður pabbi af gamla skólanum, og vildi hafa hlutina í röð og reglu. Hann kenndi okkur að gefast ekki upp og vildi að við sinntum námi okkar og hafði alltaf óbilandi trú á því sem við vorum að gera. Hann var stoltur af sínum. Pabbi kenndi okkur að hlusta á djass enda ómaði djassinn ósjaldan í stofunni á föstudags- eða laugardagskvöldum. Hann hafði mikinn áhuga á myndlist og við lærðum að meta góð málverk eftir helstu meistarana hvort sem það voru Jóhann Briem, Kjarval, Hringur eða Rembrandt. Hann hvatti okkur til að hugsa vel um heilsuna og stunda hreyfingu, enda var hann sjálfur óþreytandi í líkamsrækt. Hann hljóp um götur Garðabæjar um 1980 löngu áður en fólk fór almennt að stunda hlaup og uppskar oft stór augu vegfarenda. Hann mætti daglega í sund og synti sinn kílómetra á dag alveg fram að 85 ára aldri. Við minnumst með hlýhug allra matarboðanna hjá pabba og mömmu, þar sem pabbi var iðulega búinn að kveikja upp í arninum, setja góðan djass á fóninn og kannski blanda drykk. Þá var gaman, spjallað fram eftir kvöldi um allt milli himins og jarðar og Sinatra, Ella og Louie og Count Basie ómuðu undir. Við erum þakklát fyrir utanlandsferðirnar með pabba og mömmu til Englands, Flórída, New York, Frakklands, Kanarí, Þýskalands og víðar. Pabbi fylgdist vel með barnabörnunum sínum fram á síðasta dag og hafði ánægju af því að sjá þau vaxa upp og dafna. Það var því yndislegt að hann gæti átt fallegan 88 ára afmælisdag með okkur systkinum, mömmu, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabarni einungis rúmri viku áður en hann kvaddi okkur. Þar spjallaði hann við okkur og fékk sér kökur og kaffi í tilefni dagsins og er þetta yndisleg minning fyrir okkur öll til að geyma.

Síðustu tvö ár dvaldi pabbi á Hrafnistu í Hafnarfirði. Við viljum þakka starfsfólki á Báruhrauni á Hrafnistu fyrir einstaka aðhlynningu, hlýhug og virðingu í hans garð.

Elsku pabbi, hvíl í friði. Minning þín lifir.

Helga og Gunnar.

Siggi tengdapabbi var holdgervingur „the selfmade man“, reif sig upp úr þeim aðstæðum sem hann fæddist í, vann og lærði og kom undir sig fótunum. Tók kennarapróf, lögregluskólapróf, íþróttakennarapróf og að lokum viðskiptafræðipróf frá HÍ. Hann ákvað ungur að sætta sig ekki við sitt hlutskipti og það er nákvæmlega það sem hann gerði. Hörkuduglegur, góður námsmaður, afreksmaður í íþróttum og glæsilegur lét hann ekki erfið skilyrði í æsku stoppa sig. Hann fór þetta kannski á hnefanum að ákveðnu leyti og ég fann það strax að hann var ekki maður sem flíkaði tilfinningum sínum. En hann elskaði engu að síður Dinnu sína mikið og var mjög stoltur af börnum og barnabörnum og það skein alltaf í gegn. Traustur sem klettur sem vissi ekkert betra en að fá fjölskylduna í mat á laugardagskveldi, spila djass og spjalla um lífið. Þar naut hann sín og lagði alúð við að allir hefðu nóg, laumaði vísum og málsháttum undir diskana sem voru svo lesnir upp eftir mat til þess að – á sinn hátt – deila áhuga sínum á kvæðum, ljóðum og annarri visku. Siggi var listunnandi, málaði myndir og orti ljóð þó svo að hann, rétt svona eins og með tilfinningarnar, væri ekki mikið að bera þetta á borð fyrir aðra. En hann skrifaði niður æskuminningar sínar sem hann deildi með okkur og þær minningar eru okkur mikill fjársjóður. Þær hafa einnig gefið okkur fjölskyldunni dýpri skilning á hver Siggi var og hvernig það var að alast upp í Reykjavík við sárafátækt á stríðsárunum, vera sendur í sveit hingað og þangað og oft látinn vinna mun meira en nokkurn tímann ætti að leggja á barn. Allt þetta setti sitt mark á Sigga og gerði að þeim manni sem hann var. Fyrir mér var hann fyrst og fremst tengdapabbi, pabbi Gunna míns og afi barnanna minna og fyrir það get ég aldrei nægilega þakkað. Takk fyrir allt og allt elsku Siggi.

Kveð þig að lokum með orðunum sem þú kvaddir svo oft með: „Hang loose and play it cool.“

Anna.

Tengdafaðir minn og góður vinur, Sigurður Pálmar Gíslason, er látinn eftir erfið veikindi, 88 ára gamall.

Siggi er gott dæmi um elstu kynslóð okkar Íslendinga, fólk sem þurfti að leggja mikið á sig til að sjá sér og sínum farborða og fór í gegnum lífið með dugnað og nægjusemi í blóðinu. Á langri ævi upplifði Siggi margt og gaman var að hlusta á hann segja sögur frá uppvexti sínum. Þetta voru frásagnir af baráttu barns í fátækt stríðsáranna í Reykjavík, en hann var alinn upp hjá einstæðri móður, í lítilli íbúð í bakhúsi við Laugaveg, þar sem einnig bjuggu amma hans og afi auk nokkurra frændsystkina. Saga unglingsins var barátta til mennta, en Siggi var góður námsmaður og komst hann inn í Menntaskólann í Reykjavík og áfram í Kennaraskólann, sem ekki var sjálfgefið á þessum tíma. Ungi maðurinn var íþróttamaður góður, fjölhæfur í frjálsum íþróttum og einn af frumkvöðlum körfuknattleiksíþróttarinnar á Íslandi. Hann var einn af fyrstu landsliðsmönnum Íslands í körfuknattleik og margfaldur íslandsmeistari. Í bókinni „Leikni framar líkamsburðum – Saga körfuknattleiks á Íslandi“ segir: „Körfuknattleiksdeild KR var stofnuð í október 1956. Helstu hvatamenn voru Pétur Rögnvaldsson og Sigurður P. Gíslason og var Pétur kjörinn fyrsti formaður stjórnar og Sigurður varaformaður.“ Íþróttir stundaði hann alla tíð og 85 ára gamall synti hann 1.000 metra skriðsund flesta daga.

Siggi var meðvitaður um mikilvægi menntunnar og bætti við sig þekkingu alla ævi. Hann tók kennarapróf og síðar íþróttakennarapróf, fór í Lögregluskólann og útskrifaðist sem lögreglumaður. Töluvert síðar nam hann viðskiptafræði og útskrifaðist frá Háskóla Íslands með cand. oecon.-gráðu, þá orðinn fertugur. Stuttu fyrir starfslok sótti hann sumarnámskeið við þekktan amerískan háskóla. Hann las heimsbókmenntir og málaði myndir sér til ánægju.

Siggi starfaði sem kennari, íþróttakennari og lögreglumaður á sínum yngri árum en síðar var hann lengi starfsmaður Háskóla Íslands þar sem hann hélt utan um sjóði Háskólans. Samhliða starfi rak hann heildverslunina Hagvís ehf. í mörg ár

Tengdafaðir minn var heimakær fjölskyldumaður og ákaflega stoltur af börnum sínum og barnabörnum. Hann giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Eiríksdóttur, 1961 og saman stofnuðu þau sitt fyrsta heimili á Austurbrún í Reykjavík. Síðar byggðu þau sér æviheimili á Móaflöt 55 í Garðabæ. Þegar þau fluttu í Garðabæinn var lítið um gróður og ræktuðu þau verðlaunagarð sem notið hefur umhyggju og grænna fingra Dinnu. Siggi naut sín best heima á Móaflöt og þangað hefur alltaf verið gott að koma. Þegar boðið var til veislu var verkaskiptingin klár; Dinna sá um matinn en Siggi um tónlist og drykki en hann var mikill tónlistarunnandi og sannkallaður „djassgeggjari“. Mér er minnisstætt einn góðviðrisdag þegar fjölskyldan var saman á Móaflöt, Siggi leit í kringum sig og sagði: „Hér er allt sem ég þarf.“

Margs er að minnast frá langri samferð og hans verður sárt saknað.

Björn Jónsson.

Elsku afi Siggi.

Ég dansaði á tánum þínum og þú tókst mig í kleinu.

Þú hnyklaðir vöðvana framan í vini mína og spurðir hvort afar þeirra væru í jafn góðu formi.

Sagan um manninn sem breyttist breyttist með tímanum en kækirnir þínir og brosið ekki.

Seinna ræddum við ótrúleg mannvirki reist í Róm fyrir langalöngu fyrir framan arineldinn.

Guð geymi þig elsku afi.

Þitt afabarn,

Jón Pálmar Björnsson.

Kæri afi. Ég kynntist þér alltof seint í lífinu en er svo þakklát fyrir að við náðum að kynnast og fyrir allar þær ánægjulegu stundir sem við áttum saman. Þú varst ótrúlega flottur og duglegur afi og fórst létt með að synda 1.000 metra þrátt fyrir aldur, sem ég er mjög stolt af að segja öðrum. Ég vona að þú hafir það friðsælt þar sem þú ert og passir upp á okkur. Ég sendi þér ást og umhyggju frá Danmörku og segi góða ferð.

Þitt barnabarn,

Cecilia.

Þegar við í dag kveðjum Sigurð Gíslason mág minn leitar hugurinn aftur í tímann.

Mér er minnisstætt þegar Dinna systir mín kom heim í Gróðrarstöð fyrst með Sigga, hvað mér fannst hann myndarlegur og hve þau voru falleg og glæsileg saman.

Það fór ekki mikið fyrir Sigga en fljótlega áttaði ég mig á hversu fjölhæfur hann var. Hann var listrænn og mjög smekklegur og hafði áhuga á bókmenntum og tónlist.

Þegar Dinna og Siggi voru í Reykholti heimsótti ég þau með strákunum mínum, þá kynntist ég íþróttamanninum Sigurði. Hann fór í alvöru handbolta með krökkunum í íþróttasalnum, lét þau hlaupa og synda. Þeir voru mjög hrifnir og ánægðir og muna þessa daga enn.

Ég sendi elsku systur minni, Helgu og Gunna og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur, það er gott að eiga góðar minningar.

Blessað veri grasið

sem grær kringum húsin

bóndans og les mér

ljóð hans,

þrá og sigur

hins þögula manns.

Blessað veri grasið

sem grær yfir leiðin,

felur hina dánu

friði og von.

Blessað veri grasið

sem blíðkar reiði sandsins,

grasið sem græðir jarðar mein.

Blessað veri grasið,

blessað vor landsins.

(Snorri Hjartarson)

Margrét Helga Eiríksdóttir.

Það er komið vor, sólin fer hækkandi, ilmur úr jörðu og söngur smáfuglanna í fallega garðinum að Móaflöt fyllir loftið. Þá lýkur æviskeiði mágs míns og góðs vinar, Sigurðar Pálmars. Ég var lítill snáði þegar Dinna systir og Siggi, fjallmyndarlegur maður, rugluðu saman reitum sínum. Hann var þá lögreglumaður og þótti mér mikið til koma þegar ég fékk eitt sinn að sitja aftan á lögregluhjóli niður Smáragötu, það er ógleymanleg stund. Síðar var ég svo heppinn að fá hann fyrir kennara en þá hafði Siggi snúið sér að kennslu. Hann var afskaplega fær kennari, hæfilega strangur. Ólátabelgir komust ekki upp með neitt múður hjá honum. Nemendur minnast hans ævinlega með hlýju.Það er svo margs að minnast á langri ævi, ekki verður allt tíundað hér. Dinna og Siggi voru afskaplega samhent. Hvergi leið Sigga betur en með fjölskyldunni á yndislegu heimili þeirra hjóna og í fallega garðinum sem prýðir Móaflöt. Þetta var honum kærast. Hann skilur eftir sig margar fagrar og dýrmætar minningar sem munu verða ástvinum hans til blessunar um ókomna tíð. Kveðjustundin er alltaf sár þegar lagt er upp í ferðina miklu yfir landamæri lífs og dauða. Sigurði Pálmari fylgja góðar fyrirbænir og þakklæti vina. Öll eigum við þessa ferð fyrir höndum og þá ber okkur til sama lands. Þar munum við hittast að nýju og gleðjast við þá endurfundi.

Til hinstu hvílu heldur þú nú senn

á helgum kertum loginn brennur enn

en söknuðurin læðist hægt og hljótt

í hljóðri bæn, við bjóðum góða nótt.

(HZ)

Að lokum þökkum við fallega samfylgd og vottum ástvinum dýpstu samúð, guð geymi ykkur öll.

Helgi og Freyja

Góður vinur, Sigurður P. Gíslason, er fallinn frá. Okkar fyrstu kynni við þau hjónin Sigga og Dinnu voru þegar Helga dóttir þeirra og sonur okkar Björn rugluðu saman reytum. Fljótlega tókst með okkur hjónum góður vinskapur og árið 1985 fæddist elsti sonur Helgu og Bjössa, Jón Pálmar. Seinna bættust þeir Helgi Steinn og Kolbeinn við í drengjahópinn og hafa þeir ávallt verið nánir afa sínum og missir þeirra því mikill. Við hjónin eigum margar skemmtilegar minningar um Sigga og brúðkaup Helgu og Bjössa kemur fyrst fram í hugann. Það var glatt á hjalla á heimili þeirra hjóna á Móaflöt þann daginn í júlí árið 1986 þar sem hinn fallegi garður þeirra hjóna skartaði sínu fegursta á fögrum sólskinsdegi.

Seinna ferðuðumst við mikið saman og fórum með þeim hjónum tvisvar í siglingar á skemmtiferðaskipum. Fyrri ferðin um Eystrasalt og sú síðari frá Kaupmannahöfn til Ítalíu. Þau voru einstaklega skemmtilegir ferðafélagar og það var alltaf glatt á hjalla þegar við hittumst í drykk fyrir kvöldmatinn. Siggi valdi alltaf að fá Jack Daniels og þar var oft mikið hlegið. Sigurður var mikill sundgarpur og við hittumst alltaf reglulega í Sundlaug Kópavogs. Hann hugsaði alltaf vel um heilsuna, synti mikið og alltaf á sömu brautinni svo það var auðvelt að finna Sigurð til að spjalla. Langafastrákurinn okkar hann Hilmar Björn kom svo í heiminn eftir að Sigurður veiktist en hann gladdist alltaf þegar hann kom í heimsókn. Í gegnum tíðina hafa þau verið ófá matarboðin hjá Helgu og Bjössa þar sem við höfum verið saman. Alltaf mikið spjallað og ekki fannst okkur verra hvað við vorum sammála í pólitíkinni.

Sigurðar verður sárt saknað. Blessuð sé minning hans. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Dinnu og fjölskyldunnar allrar.

Þorgerður og Jón.