Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Eftir Gunnar Björnsson: "Óska mætti, að Alþingi og nýkjörnir sveitarstjórnarmenn gerðu sér grein fyrir því, hve brýnt þetta er."

Maður nokkur minntist þess að hafa, þegar hann var fjögurra eða fimm ára, setið við borð hjá langömmu sinni og ungri móðursystur. Var amman að kenna frænkunni að lesa. Að fornum sið benti gamla konan á bókstafina með bandprjóni. Drengurinn sat á móti nemandanum, fylgdist með kennslunni og varð með því móti fljúgandi læs. En æ síðan gilti hann einu, hvort heldur stafirnir sneru rétt við honum – eða voru á hvolfi.

Að lesa sér til gagns

Nú mun um þriðjungur drengja á Íslandi tæplega fær um að lesa sér til gagns að loknu grunnskólanámi. Það hlýtur að teljast bráðnauðsynlegt að ráða bót á þessu. Óska mætti, að Alþingi og nýkjörnir sveitarstjórnarmenn gerðu sér grein fyrir því, hve brýnt þetta er. Og þá má ekki halda fast um pyngjuna.

Vandkvæði í skólanum

Segir frá kennslukonu, sem ávallt hafði staðið sig með ágætum í starfi. En eitt haustið var henni falinn hringlandi vitlaus strákabekkur, sannkölluð víkingasveit. Drengirnir vildu ekkert læra, og virtust ekki heldur geta lært nokkurn skapaðan hlut. Var helst að sjá, að fæstir þeirra næðu húsdýragreind. Kennslukonan fylltist kvíða. Henni kom jafnvel í hug, að hún yrði rekin úr vinnunni.

Greindarvísitalan

Nú þurfti skólastjórinn til Akureyrar. Með dynjandi hjartslátt og þurr í munni laumaðist kennslukonan inn á skrifstofu hans. Í skjalaskáp var spjaldskrá, þar sem greindarvísitala hvers nemanda var skráð við nafn hans. Kennslukonunni til furðu var svo að sjá, að ekkert vantaði upp á andlegt atgervi hópsins. Flestir höfðu skorað langt yfir meðalgreind. Fjórðungur þeirra hafði mælst með greindarvísitöluna 120 og yfir, nokkrir höfðu náð 130 og rúmlega það. Stækasti ólátabelgurinn sýndi sig að vera ofurgreindur – með vísitöluna 145.

Tekið til varna

Þann, sem hér potar í lyklaborð lösnum burðum, brestur kennslufræðilega þekkingu til þess að greina af nokkru viti frá þeirri byltingu, sem nú varð í skólastofunni. En þyngri verkefni voru lögð fyrir, leitað vekjandi lesefnis, hertar kröfur til heimanáms, skyndiprófum fjölgað, samkeppni gefið undir fótinn, viðurkenningar veittar og ömmur, afar og foreldrar brýndir til þess að fylgjast grannt með skólagöngu hinna óendanlega dýrmætu afkomenda sinna og hvetja þá til dáða.

Skáparnir í íþróttahúsinu

Í ræðustólnum um vorið var skólastjórinn líkastur hamingjusömum unga á páskaeggi, þegar hann óskaði kennslukonunni til hamingju, skýrði frá afbragðsgóðum árangri hennar og framförum nemendanna. Og þegar búið var að drekka kaffið beiddi hann hana finna sig inn á kontór, enda forvitnaði hann að komast að því, hverjum göldrum hún hefði beitt við kennsluna á liðnum vetri. Hlaut hún þá að skýra honum frá því, hversu hún hefði laumast í skáp hans, séð hinar háu greindarvísitölur drengjanna og ákveðið að breyta um stefnu, herða tökin. „En, elskan mín góða,“ sagði þá skólastjórinn, „þetta eru ekki greindarvísitölur. Þetta eru númerin á skápunum þeirra í íþróttahúsinu!“

Var ekki einhvern tíma sagt, að árangur væri einn hundraðshluti hæfileikar og 99 hundraðshlutar vinna?

Höfundur er pastor emeritus.