[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Sam Raimi. Handrit: Michael Waldron og Jade Halley Bartlett. Aðalleikarar: Benedict Cumberbatch, Elizabeth Olsen, Rachel McAdams, Benedict Wong og Xochitl Gomez. Bandaríkin, 2022. 126 mín.

Áfram rúllar Marvel-færibandið og nú er það önnur kvikmyndin um Doctor Strange, skurðlækninn Stephen Strange sem varð að öflugum seiðkarli í fyrstu myndinni frá árinu 2016 sem var bráðskemmtileg. Því miður er framhaldsmyndin, Doctor Strange in the Multiverse of Madness , eða Strange læknir í fjölheimi brjálseminnar , ekki eins skemmtileg og á köflum svo undarleg að maður veit varla hvað er að gerast.

Strange (Skrítinn myndi hann heita á íslensku) fer að þessu sinni á bólakaf í hinn svokallaða fjölheim Marvel, multiverse eins og hann heitir á ensku, sem er svo sem engin Marvel-uppfinning heldur fornar vangaveltur mannsins um hvað sé handan hins sýnilega heims og hvort mögulega séu heimarnir margir, jafnvel óteljandi og því mögulegt eða næsta öruggt að einhver þeirra sé alveg eins og sá sem við þekkjum.

Myndin hefst á því að Strange er á flótta í einhvers konar furðuheimi með táningsstúlku, engu líkara en þau svífi um í geimnum. Þau reyna að ná til bókar einnar en tekst ekki og vaknar Strange þá upp við vondan draum. Bókstaflega. Hann heldur að þetta hafi bara verið martröð en annað kemur fljótlega í ljós þegar hann kemur sömu stúlku, Americu Chavez að nafni, til bjargar á götum New York þar sem hún er ofsótt af risavöxnu og eineygðu kolkrabbaskrímsli. Einhvers konar galdrar eru þar á ferð og í ljós kemur að Wanda (ein af ofurkonum Marvel sem er allt að því ósigrandi í fjölkynngi sinni) er ábyrg. Wanda verður fyrir vikið illmenni myndarinnar og af ákveðnum ástæðum þarf hún á kröftum Americu að halda. Gengur myndin svo meira og minna öll út á að koma í veg fyrir að Wanda nái Americu og er víða komið við á því ferðalagi, í ólíkum heimum þar sem finna má aðrar útgáfur af Strange og fleiri persónum Marvel. Virðist framleiðendum hafa verið mikið í mun að tengja þetta nýlega þema um fjölheiminn við fyrri myndir og sjónvarpsþætti Marvel, sem flestar ofurhetjur og fyrir þá sem ekki þekkja til þeirra fræða gæti myndin reynst heldur illskiljanleg.

Raimi með vont handrit

Hinn annars ágæti leikstjóri Sam Raimi var fenginn til að leikstýra að þessu sinni og gerir svo sem ágætlega miðað við það sem hann hefur úr að moða, heldur óspennandi og húmorslausri sögu þar sem tölvuteikningar skipa stærra hlutverk en raunverulegt fólk og umhverfi. Raimi hefur náð góðum árangri með fyrri ofurhetjumyndum sínum um Köngulóarmanninn, einkum þó fyrstu tveimur og er einnig þekktur fyrir ágætar hrollvekjur sínar, m.a. The Evil Dead og Drag Me to Hell . Ákveðinn hluti Doctor Strange in the Multiverse of Madness vísar skemmtilega til þeirrar fortíðar, hrollvekjumyndanna, en sem fyrr segir virðist handritið hafa reynst leikstjóranum fjötur um fót.

Stærsti galli myndarinnar er fléttan, söguþráðurinn. Að gera Wöndu að þeirri vondu er, til að byrja með, heldur óspennandi og einnig sú skýring að illska hennar sé drifin áfram af eldheitri móðurást. Ekki bætir úr skák að lausnin undir lokin er fulleinföld og þá búið að stefna öllum fjölheiminum í hættu, hvorki meira né minna, með manni og mús. Betur hefði farið á safaríkara plotti og nýju illmenni. Ágæt tilbreyting þó að illmennið er kona þar sem mikill skortur hefur verið á kvenkyns þrjótum í ofurhetjusögum.

Ætla mætti að þessi Marvel-fjölheimur byði upp á endalausa möguleika og hugmyndir en þær eru þó heldur þunnar og löng tölvuteiknuð bardagaatriði, þar sem fólk er að skjóta rauðum eldkúlum út úr lófunum á sér eða búa til stóra eldhringi, reyna á þolinmæðina. Í svona kjánalegum sagnaheimi er líka algjör nauðsyn að slá á létta strengi og því miður er lítið um gamanmál í þessari mynd. Hugurinn fór að reika hjá ofanrituðum í mesta tölvuteiknihasarnum og þýðingin á Stephen Strange, Stefáni skrítna, þróaðist yfir í hugarleikfimi um hann Stebba sem stóð á ströndu og var að troða strý. Strý var ekki troðið nema Stebbi træði strý, eintreður Stebbi strý, tvítreður Stebbi strý... á meðan tilkynnti Cumberbatch að hann þyrfti að finna aðra útgáfu af sjálfum sér í öðrum heimi sem þyrfti að finna aðra útgáfu af sjálfum sér í öðrum heimi sem þyrfti að...

Ekki er við leikarana að sakast að gagnrýnandi barðist stundum við að halda athygli, þeir standa sig ágætlega, sérstaklega Olsen, og eiga hrós skilið fyrir að halda andliti í mesta kjánaskapnum. Myndinni til tekna er hún litrík og gleður oft augað, til dæmis uppvakningsútgáfan af Strange með viðhangandi djöflum sem sjá má í stiklunni. En þegar öllu er á botninn hvolft er þetta nýjasta útspil Marvel vonbrigði þótt hörðustu aðdáendur fái eflaust sitthvað fyrir sinn snúð.

Helgi Snær Sigurðsson