Blaðamannafundur Flokkur fólksins kynnti stefnumál sín í gær.
Blaðamannafundur Flokkur fólksins kynnti stefnumál sín í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, segir flokkinn vilja byrja á að mæta þörfum fólksins í Reykjavík og sérstaklega þeirra sem þurfi séraðstoð og hafi sérþarfir. Þá þurfi að mæta þörfum barnanna.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, segir flokkinn vilja byrja á að mæta þörfum fólksins í Reykjavík og sérstaklega þeirra sem þurfi séraðstoð og hafi sérþarfir. Þá þurfi að mæta þörfum barnanna. „Síðan má fara að stilla upp og fegra og laga til og eitthvað slíkt.“

Hún segir ómælt fjármagn hafa farið í fjárfrek verkefni „sem hafa tekið milljarða og svo er ekkert eftir til að sinna fólkinu í borginni“. Þá sé alltof stór hópur sem geti ekki sagst einfaldlega vera í góðum málum og eiga nóg fyrir sig og sína.

Umhugað um biðlistana

Á blaðamannafundi í gær lagði flokkurinn áherslu á að útrýma biðlistum í borginni. Langir biðlistar væru eftir allri þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar, t.d. nauðsynlegri sálfræðiaðstoð fyrir börn, og síðan eru biðlistar vegna skorts á hjúkrunarrýmum.

„Mér er náttúrlega mjög umhugað um þessa biðlista sem ég er búin að vera að berjast og lemjast með mjög lengi, í mörg herrans ár, vegna þess að ég hef verið að hitta þetta fólk bæði sem sálfræðingur og líka sem borgarfulltrúi þannig að ég vil þessa biðlista burt. Það er til fjármagn og ég vil að þessu bruðli og sóun verði hætt, forgangsraðað upp á nýtt, spilin stokkuð upp á nýtt þannig að við byrjum á að þjónusta fólkið,“ segir Kolbrún í samtali við Morgunblaðið.

Þá segir hún að flokkurinn vilji að byggt verði sértækt húsnæði fyrir fatlaða og að þjónustukjarnar fyrir eldri borgara verði byggðir víðar um borgina. Auk þess vill flokkurinn að eldri borgurum sé hjálpað við að vera lengur heima ef þeir kjósa það. gunnhildursif@mbl.is