Hafsteinn Sigurbjörnsson
Hafsteinn Sigurbjörnsson
Eftir Hafstein Sigurbjörnsson: "Skoðun mín á stríðinu milli Rússa og Úkraínumanna."

Öll átök sem valda styrjöldum milli landa eru vegna mismunandi skoðana ráðandi afla í hvoru landi fyrir sig. Oftast er um hagsmunabaráttu að ræða í einhverri mynd.

Sú styrjöld sem nú er háð milli Rússlands og Úkraínu er að mínu mati af tiltölulega litlu tilefni, sem er þetta: Þegar það spurðist að forseti Úkraínu óskaði eftir inngöngu í NATO urðu rússnesk yfirvöld ókvæða við. Þau gátu ekki hugsað til þess að erlent hernaðarbandalag NATO kæmi með fótinn að landamærum sínum. Óskuðu því Rússar þess við stjórnvöld Úkraínu að þau lýstu yfir hlutleysi, þannig að engin breyting yrði á landamærum ríkjanna. Þessu hafnaði forseti Úkraínu illu heilli, sem orsakaði það að Rússar hófu innrás í land þeirra.

Í þessu tilfelli eru orsök og afleiðing stríðsins ekki síður forseta Úkraínu að kenna. Önnur lönd sem eiga landamæri að Rússlandi; Finnland, Eystrasaltslöndin og fleiri, hafa haft viðskipti við Rússa án þekktra erfiðleika.

Rússar hafa í nokkrum tilfellum verið okkur hliðstæðir. Þeir voru þeir fyrstu sem viðurkenndu útfærslu okkar í landhelgismálinu en engin af nágrannalöndum okkar, ekki einu sinni hinar Norðurlandaþjóðirnar, viðurkenndu rétt okkar.

Þegar við áttum í stríði við Breta í þorskastríðunum lokuðu Bretar á öll viðskipti við okkur og sendu herskip til að verja ólöglegar fiskveiðar sínar í lögsögu okkar.

Þá keyptu Rússar af okkur allan þann fisk sem Bretar settu bann á.

NATO gerði ekkert okkur til stuðnings í átökum við Breta, þótt í NATO-sáttmálanum standi að sé ráðist á eitthvert ríki sem í NATO er, þá sé það árás á bandalagið.

Pentagon í Bandaríkjunum er miðstöð hernaðarmála og er stjórnað af herforingjum og eigendum hergagnaframleiðslu í BNA. Þar er utanríkisstefna BNA mótuð, sem felst í því fyrst og fremst að koma á ófriði til að geta selt vopn, því vopnaframleiðsla er stór atvinnugrein í BNA.

Blaðapressan í BNA og aðrir fjölmiðlar, sjónvarps- og útvarpsstöðvar eru svo til öll í eigu auðjöfra og þar er stundaður áróður til að heilaþvo almenning. Það er þekkt úr sögu Mið- og Suður-Ameríku hvernig BNA hafa komið fram við þau. Morðið á Alliende forseta Síle t.d. er staðfesting þess.

Þegar auður einhverra hópa eða þjóðar er bundinn við framleiðslu á vopnum er ekki traustvekjandi að eiga við þá samskipti.

Atlantshafsbandalaginu (NATO) er stjórnað af BNA og utanríkisstefnu BNA er stjórnað af Pentagon og Pentagon er stjórnað af auðjöfrum og vopnaframleiðendum svo það er ekkert undarlegt þótt NATO ausi nú vopnum frá BNA til Úkraínu.

Höfundur er eldri borgari. hafsteinnsig@internet.is