Strætó Útboð á akstri frá árinu 2010 hefur reynst byggðasamlaginu dýrt.
Strætó Útboð á akstri frá árinu 2010 hefur reynst byggðasamlaginu dýrt. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Strætó hefur ekki tekið ákvörðun um hvort dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Teits Jónassonar ehf. gegn Strætó bs., sem var kveðinn upp 2. maí síðastliðinn, verði áfrýjað. Strætó bs. var dæmt til að greiða Teiti Jónassyni ehf. rúmlega 205 milljónir króna með vöxtum auk þess að greiða 5,1 milljón í málskostnað. Áfrýjunarfrestur er fjórar vikur frá dómsuppkvaðningu. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að málið verði væntanlega lagt fyrir stjórnarfund í næstu viku.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Strætó hefur ekki tekið ákvörðun um hvort dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Teits Jónassonar ehf. gegn Strætó bs., sem var kveðinn upp 2. maí síðastliðinn, verði áfrýjað. Strætó bs. var dæmt til að greiða Teiti Jónassyni ehf. rúmlega 205 milljónir króna með vöxtum auk þess að greiða 5,1 milljón í málskostnað. Áfrýjunarfrestur er fjórar vikur frá dómsuppkvaðningu. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að málið verði væntanlega lagt fyrir stjórnarfund í næstu viku.

Strætó birti útboðslýsingu vegna verksins sem um ræðir í febrúar 2010. Þar kom fram að það næði til aksturs almenningsvagna á 13 leiðum á höfuðborgarsvæðinu. Sjö fyrirtækjum var boðið að taka þátt í útboðinu í samræmi við undangengið forval.

Strætó ákvað að taka tilboði Hagvagna hf. annars vegar og tilboði Kynnisferða ehf. hins vegar. Síðar kom í ljós að vagnar Hagvagna hf. uppfylltu ekki kröfur forvals- og útboðsgagna. Strætó afhenti fyrirtækinu vagna svo það gæti staðið við skuldbindingar sínar.

Teitur Jónasson ehf. höfðaði mál á hendur Strætó og varð niðurstaðan sú að brotið hefði verið gegn meginreglu við umrætt útboð. Viðurkenndur var réttur Teits Jónassonar ehf. til skaðabóta úr hendi Strætó vegna missis hagnaðar sem hann hefði notið ef tilboðinu hefði ekki verið hafnað. Dómur héraðsdóms nú sneri því að upphæð bótanna.

Sátu ekki allir við sama borð

Iceland Excursions Allrahanda ehf. (Allrahanda) fór einnig í mál gegn Strætó vegna sama útboðs.

Fram kom í frétt um dóm héraðsdóms í því máli í Morgunblaðinu 20. júní 2016 að dómurinn hefði talið ljóst af gögnum málsins að hefði verið farið að kröfum forvals- og útboðsgagna undanbragðalaust hefði þurft að vísa flestum og jafnvel öllum innanbæjarvögnum Hagvagna frá. Strætó bs. þótti því hafa brotið gegn meginreglunni um jafnræði bjóðenda sem og meginreglu um gagnsæi innkaupaferlisins og gagnsæi valforsendna. Þá sagði dómurinn að það að Strætó bs. skyldi skipta á strætisvögnum við Hagvagna hf. undirstrikaði að bjóðendur í útboðinu hefðu ekki setið við sama borð.

Stætó var gert að greiða Allrahanda 100 milljónir króna að álitum vegna missis hagnaðar á fjögurra ára samningstíma. Hæstiréttur staðfesti þann dóm.

Opinber útboð almennt kærð

Jóhannes, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að síðasta akstursútboð Strætó bs. hafi ekki verið kært, en flest hafi verið kærð.

„Ef þú horfir almennt á tölfræði útboða þá er næstum hvert einasta útboð hjá opinberum aðilum kært. Það virðist vera almenna reglan. Sum málanna vinnast og önnur tapast,“ segir Jóhannes.

Hann segir Strætó finna fyrir dómsniðurstöðu eins og þeirri sem kveðin var upp 2. maí, enda um mjög mikla peninga að ræða.

„Það kom okkur á óvart að við töpuðum málinu. Við vorum með ákveðin málsrök sem ekki náðu í gegn,“ segir Jóhannes.

Langur málarekstur

Strætó bs. bauð út akstur almenningsvagna 2010 í fjórum verkhlutum. Teitur Jónasson ehf. sendi tilboð og eins Allrahanda ehf. en fengu ekki. Bæði fyrirtækin fóru í mál. Dæmt var í máli Allrahanda 2016 í héraðsdómi og nú í máli Teits Jónassonar. Hvers vegna tók þetta svo langan tíma?

„Fyrirtækin fóru mismunandi leiðir. Teitur Jónasson höfðaði viðurkenningarmál á skaðabótaskyldu. Það fór fyrir Hæstarétt. Síðan höfðuðu þeir þetta skaðabótamál sem var dæmt í núna,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Þá frestaðist málið endurtekið vegna kórónuveirufaraldursins.