Á Boðnarmiði yrkir Magnús Geir Guðmundsson í tilefni mæðradagsins 8. maí 2022: Hana mömmu hjarta í, heilagasta geymi. Móðurástin mild og hlý er mögnuðust í heimi!

Á Boðnarmiði yrkir Magnús Geir Guðmundsson í tilefni mæðradagsins 8. maí 2022:

Hana mömmu hjarta í,

heilagasta geymi.

Móðurástin mild og hlý

er mögnuðust í heimi!

Ingólfur Ómar lumaði að mér einni hlýrri vísu á laugardag:

Svölun tæra sólin blíð

sálu færir minni.

Blómstur grær um grund og hlíð

gleðin hlær í sinni.

„Morgunn í maí“ eftir Brodda B. Bjarnason:

Sólin gefur gull í mund,

gróður jarðar nærir.

Fuglasöngur léttir lund,

lifna þankar kærir.

Og Maísól eftir Þórunni Hafstein:

Maísólin á sig minnir;

mundu að ég er til;

þótt ei mig ávallt skynjir

alltaf mun senda yl.

Helgi R. Einarsson er kominn heim frá Berlín, skrapp í sund og því varð þessi til:

Besservisserar

Það er best að þegja

ekki neitt

og yfirleitt

auk þess fussa og sveia.

Og síðan:

Á fundinum

Þeir fóru að þrefa

og þóttust loforð gefa

um skárri tíð.

Já, skemmtu lýð,

en, skammta svo úr hnefa.

Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Arnfinnsson limruna „Ljóðskáld“:

Valdi ei barnanna bestur

og breyskari' en nokkur prestur

stundar á fundum

hjá fjörugum sprundum

barasta ljóðalestur.

Jón Atli Játvarðarson skrifar: „Mosi og skófir leggjast á friðaða sanda í ráðuneytum.“

Maður kemur manns í stað,

mikið um þá spunnið.

Allt því miður aflagað,

út á tíma runnið.

Umhverfisþursarnir eldast nú senn,

eldingum flugu þeir skjótar.

Valdir í skörðin vistheimskir menn

vinstri grænir og þrjótar.

Þórarinn Eldjárn yrkir um leka:

Þetta er ósköp almenn speki

en þó rétt að flíka:

Víða þar sem verður leki

vill oft mygla líka.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is