Tilraunaglaður Benni hress á tónleikum.
Tilraunaglaður Benni hress á tónleikum. — Ljósmynd/Brynjar Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Plötuútgáfa Mengis, Mengi Records, gaf út snemma árs aðra EP-plötu Benna Hemm Hemm & the Melting Diamond Band og ber hún hinn borðleggjandi titil Benni Hemm Hemm & the Melting Diamond Band II .

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Plötuútgáfa Mengis, Mengi Records, gaf út snemma árs aðra EP-plötu Benna Hemm Hemm & the Melting Diamond Band og ber hún hinn borðleggjandi titil Benni Hemm Hemm & the Melting Diamond Band II . Er platan gefin út á netinu og einnig á vínil og auk þess voru gerð tvö vídeóverk, hvort þeirra við tvö lög af plötunni. Vídeóverkin eru eftir þá Helga Örn Pétursson annars vegar og Egil Eyjólfsson hins vegar.

Glæpamenn

Tilraunagleði einkennir tónlistina á plötunni og má segja að hún sé bæði spuna- og óreiðukennd. Benni segir hana hluta af seríu sem hann gefi út með Mengi Records. „Þetta eru alveg Benna Hemm Hemm-plötur en þó á sérakrein, einhvern veginn. Þess vegna er þetta Melting Diamond dæmi,“ útskýrir hann.

Er það þá hljómsveit sem hann setti saman sjálfur? „Já og er kannski að mestum hluta bara ég í raunveruleikanum. Ég ætlaði að búa til einhvers konar gervikaraktera í hljómsveitinni sem væru glæpamenn, harðir karakterar og í það vísar bráðnandi demanturinn,“ segir Benni.

– Þetta er ólíkt öllu öðru sem ég hef heyrt með þér, ekki nema eitthvað hafi farið fram hjá mér. Hvernig myndirðu lýsa tónlistinni?

„Þetta er eiginlega svona spunaupptökuferli, spuni er rótin og síðan spila ég ofan á einhverja spunaupptöku og svo vindur þetta upp á sig í algjöru skipulagsleysi. Síðan fæ ég fólk til að koma í stúdíóið og taka upp,“ svarar Benni.

Þegar kemur að því að spila verkin á tónleikum þurfi hann að finna út úr því hvað sé í gangi og hvernig eigi að koma tónlistinni til skila. „Þetta er mjög steikt og fyndið ferli,“ segir Benni og að á fyrstu Melting Diamond Band-plötunni, Church/School , hafi opnast fyrir einhverjar flóðgáttir spuna hjá honum. Hann sé þegar tilbúinn með næstu plötu og hyggist gefa út fleiri reglulega.

Heyrir í kennaranum í stúdíói

Benni er tónmenntakennari í Hagaskóla og hafa nemendur fengið að leika sér þar í tónlist og skapa eigin verk. Benni er spurður að því hvort börnin hafi haft áhrif á hann sem tónlistarmann og svarar hann því til að jú, hann sé alltaf að ýta þeim áfram í sköpunarferlinu. „Af því það er rosa auðvelt að vita hvernig maður á að gera eitthvað, maður veit að maður á að fara í ræktina en það þýðir þó ekki að maður geri það. Þegar maður er að koma aftur og aftur með „basic“ ráðleggingar síast þær á endanum inn. Þegar ég er sjálfur kominn í stúdíó heyri ég í sjálfum mér að segja þeim að hætta að hugsa og fara að gera eitthvað bara,“ segir Benni kíminn.

Þeir sem vilja kynna sér þessa nýjustu afurð Benna Hemm Hemm geta gert það m.a. á Spotify og Bandcamp.