Bandaríski tóbaksframleiðandinn Philip Morris International á nú í viðræðum um kaup á sænska tóbaksframleiðandanum Swedish Match. Samkvæmt frétt Wall Street Journal (WSJ) er talið að andvirði viðskiptanna sé um 15 milljarðar bandaríkjadala .

Bandaríski tóbaksframleiðandinn Philip Morris International á nú í viðræðum um kaup á sænska tóbaksframleiðandanum Swedish Match. Samkvæmt frétt Wall Street Journal (WSJ) er talið að andvirði viðskiptanna sé um 15 milljarðar bandaríkjadala . Swedish Match er verðmetið á um 12 milljarða dala en markaðsvirði Philip Morris er um 154 milljarðar dala.

Ein helsta framleiðsluvara Swedish Match eru sænsku munntóbakspokarnir , sem í daglegu tali eru kallaðir snús, en þá hefur félagið einnig verið umsvifamikið í framleiðslu á tóbakslausum nikótínvörum , þá helst nikótínpúðum undir vörumerkinu ZYN. Púðarnir hafa notið vinsælda í Bandaríkjunum og jókst innflutningur um rúm 50% á milli ára í fyrra.

Tilgangur kaupanna er sagður áhugi Philip Morris á níkótínvörum Swedish Match. Philip Morris hefur áður lýst því yfir að félagið vilji framleiða meira af tóbakslausum nikótínvörum, sem valda mun minni skaða en tóbaksvörur. Félagið stefnir að því að um helmingur tekna þess árið 2025 komi af sölu á tóbakslausum vörum, en samkvæmt uppgjöri síðasta árs komu um 30% tekna félagsins til af slíkum vörum.

Tóbaksframleiðendur hafa í auknum mæli horft til framleiðslu á tóbakslausum nikótínvörum á liðnum árum. Þannig hefur British-American Tobacco (BAT) framleitt og selt bæði rafsígarettur og nikótínpúða sem notið hafa mikilla vinsælda á Vesturlöndum.