Oft þarf ekki mikla veltu til að hreyfa verulega við hlutabréfum.
Oft þarf ekki mikla veltu til að hreyfa verulega við hlutabréfum. — Morgunblaðið/Þórður
Töluverð lækkun varð á hlutabréfum í Kauphöllinni í gær, sem bætist ofan á þá lækkun sem varð á liðinni viku. OMXI10-úrvalsvísitalan lækkaði um 3,16% í gær og hefur nú lækkað um 7,3% á einni viku og 10,6% á einum mánuði.

Töluverð lækkun varð á hlutabréfum í Kauphöllinni í gær, sem bætist ofan á þá lækkun sem varð á liðinni viku. OMXI10-úrvalsvísitalan lækkaði um 3,16% í gær og hefur nú lækkað um 7,3% á einni viku og 10,6% á einum mánuði. Öll tíu félögin í úrvalsvísitölunni lækkuðu en Arion banki, sem lækkaði um 4,2%, og Icelandair, sem lækkaði um 4,1%, leiddu lækkanir dagsins. Icelandair hefur nú lækkað um 11,5% á einni viku. Þá lækkaði Eimskip um 3,9% í gær og hefur lækkað um 10% á einni viku.

Mest var velta með bréf í Íslandsbanka, eða um 2,7 milljarðar króna. Þá nam velta með bréf í Marel um 1,1 milljarði. Marel heldur áfram að lækka þótt lækkunin í gær hafi ekki verið nema 2,7%. Félagið hefur nú lækkað um 25,6% frá áramótum. Gengi Marel er nú 650 kr. á hvern hlut og hefur ekki verið lægra í tæp tvö ár, eða frá því í júní 2020. Hæst fór það í rúmar 970 kr. á hvern hlut í lok ágúst á síðasta ári. Önnur félög, sem ekki mynda úrvalsvísitöluna, hafa einnig lækkað nokkuð. Origo lækkaði um 4,8% og Skel um 4,7%.

Viðmælendur Morgunblaðsins af markaði kunna enga eina skýringu á þeim lækkunum sem orðið hafa á liðnum dögum. Flestir eru þó sammála um að rýna beri í veltutölur, og benda á að oft þurfi litlar upphæðir til að hreyfa við markaðnum. Þannig hafi aðeins þurft um 38 milljónir króna til að lækka gengi bréf í Origo um 4,8% í gær og 25 milljónir króna til að lækka Skel um 4,7%, svo tekin séu nýleg dæmi.