Íbúðir Leigjendur greiða að jafnaði 45% ráðstöfunartekna sinna í leigu.
Íbúðir Leigjendur greiða að jafnaði 45% ráðstöfunartekna sinna í leigu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Þó dregið hafi úr hækkun leigu á meðan Covid-faraldurinn gekk yfir þá er hækkun leigu nú þegar hafin á ný og fyrirséð að hún verður kröftug þegar aukinnar eftirspurnar eftir leiguhúsnæði fer að gæta frá innfluttu vinnuafli og auknum fjölda...

„Þó dregið hafi úr hækkun leigu á meðan Covid-faraldurinn gekk yfir þá er hækkun leigu nú þegar hafin á ný og fyrirséð að hún verður kröftug þegar aukinnar eftirspurnar eftir leiguhúsnæði fer að gæta frá innfluttu vinnuafli og auknum fjölda ferðamanna,“ segir í nýútkomnum Kjarafréttum Eflingar. Þar kemur fram að aukin byrði vegna húsaleigu hafi tekið umtalsverðan hluta kjarabóta sem áttu að skila sér til lágtekjufólks í síðustu kjarasamningum.

Birt er greining á stöðunni á leigumarkaði í fréttabréfinu en rúmlega 20% heimila eru á leigumarkaði og eru leigjendur oftast lágtekjufólk og í meiri mæli ungt fólk. Bent er á að húsnæðiskostnaður leigjenda hafi hækkað langt umfram húsnæðiskostnað þeirra sem búa í eigin húsnæði frá 2006 til 2021. Leiga taki nú mun stærri hlut ráðstöfunartekna leigjenda en var á árunum fyrir hrun.

Að meðaltali taki íbúðaleiga um 45% ráðstöfunartekna og umtalsverður hluti leigjenda sé með óhóflega háa leigubyrði. „Talað hefur verið um að æskilegt sé að leiga fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum, en þegar meðaltalið fyrir leigjendahópinn allan er 45% og umtalsverðir hópar fara upp í 70% eða meira þá er ófremdarástand,“ segir þar. Á síðustu tíu árum hafi leiga á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 102%, langt umfram það sem sést hafi í Evrópu.