Örn Sigurðsson
Örn Sigurðsson
Eftir Örn Sigurðsson: "Ríkið afhenti Flugfélagi Akureyrar lóð Reykvíkinga í Vatnsmýri til leigufrírra afnota. Um fjandsamlega, ólögmæta og fordæmalausa landtöku var að ræða."

Áratugum saman hafa samgönguráðherrar sagt að ef herflugvöllurinn færi úr Vatnsmýri yrði Reykjavík of góð! Og áratugum saman hafa þeir líka sagt að herflugvöllurinn fari ekki úr Vatnsmýri fyrr en jafngóður eða betri staður finnist fyrir miðstöð innanlandsflugsins. Og áratugum saman hafa sérfræðingar fundið hvert ákjósanlega flugvallarstæðið öðru betra.

Ríkið tók sér vald yfir borgarskipulagi, þróun byggðar og veigamiklum þáttum í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með ólögmætri yfirtöku herflugvallar Breta í Vatnsmýri og lofthelginnar yfir öllu nesinu vestan Elliðaáa hinn 6. júlí 1946. Ríkið afhenti þá Flugfélagi Akureyrar lóð Reykvíkinga í Vatnsmýri til leigufrírra afnota. Um fjandsamlega, ólögmæta og fordæmalausa landtöku var að ræða.

Einn megintilgangur framboðs E-lista Reykjavík, besta borgin er að útskýra fyrir kjósendum í Reykjavík að samkvæmt lögum er vald þeirra yfir öllu landi undir herflugvellinum í Vatnsmýri og yfir öllu öðru skipulagi og landnotkun innan borgarmarkanna algert og óskorað þvert á það sem samgönguyfirvöld ríkisins og leiðitamir borgarfulltrúar og þingmenn landsmálalista hafa sagt í áratugi.

Vald ríkisins er bæði formlaust, siðlaust og óraunverulegt og á sér enga stoð, hvorki í lögum né öðru regluverki. Þetta er eingöngu áhrifavald í krafti misvægis atkvæða. Áhrifavald yfir kjörnum fulltrúum Reykvíkinga úr landsmálaflokkum. Allir þessir kjörnu fulltrúar eru ofurseldir valdboði samflokksmanna sinna af landsbyggðinni, sem ráða lögum og lofum á landsfundum. Þar er stefnan mótuð m.a. gagnvart höfuðborginni og herflugvellinum í Vatnsmýri.

Lögfræðiálit liggur fyrir um að líklega séu möguleikar Reykvíkinga löngu fyrndir á því að krefja ríkið um skaðabætur fyrir það ólýsanlega tjón, sem landránið hefur valdið þeim í sívaxandi mæli áratugum saman. Sama lögfræðilega mat tekur hins vegar af allan vafa um að það er ótvíræður réttur Reykvíkinga að hefja hvenær sem er töku lóðarleigu fyrir land sitt undir herflugvellinum í Vatnsmýri eins og af hverju öðru landi og lóðum í eign Reykjavíkurborgar.

Enn fremur er það skýlaus krafa kjósenda og útsvarsgreiðenda, sjálfra eigenda borgarinnar, að kjörnir borgarfulltrúar tryggi eðlilega rentu af eignum borgarbúa.

Líklega tók það Breta og Bandaríkjamenn varla nema 60 mínútur að finna staði fyrir sína herflugvelli, í Vatnsmýri 1941 og á Miðnesheiði 1943.

Samt hefur það tekið samgönguráðherrana meira en 60 ár að leita að góðu flugvallarstæði og enn sér ekki fyrir endann á þeirri leit. Nú er t.d. verið að kanna veður í Hvassahrauni þótt þar hafi verið kannað veður árum og áratugum saman og þótt þar séu fastar veðurstöðvar allt um kring. Og þótt Vatnsmýri, Hvassahraun og Miðnesheiði séu flugtæknilega séð á svipuðu eða sama veðursvæði. Og e.t.v. gæti herflugvöllurinn farið 2032, 2040 eða bara einhvern tíma? Og e.t.v. fer að gjósa á Reykjanesi. Og hvað verður þá um byggðina í Grindavík, Bláa lónið, Orkuveitu Suðurnesja, Reykjanesbrautina og öll vatnsbólin?

Og allan þennan tíma, í meira en 70 ár, hefur starfandi samgönguráðherra hverju sinni dregið lappirnar og um leið dregið kjörna fulltrúa Reykvíkinga af listum landsmálaflokkanna á asnaeyrunum til ómetanlegs tjóns fyrir íbúa Reykjavíkur og aðra landsmenn, sem líklega ættu að hugsa sinn gang. Sterkar vísbendingar eru nefnilega um það að landsbyggðarflóttinn á undangengnum áratugum hefði orðið verulega minni en ella án herflugvallar í Vatnsmýri.

Frambjóðendur landsmálaflokkanna til borgarstjórnar hinn 14. maí nk. halda uppteknum hætti. Herflugvöllurinn fari úr Vatnsmýri. Ekki spurning um hvort heldur hvenær, það þurfi bara fyrst að finna annan jafngóðan stað eða betri.

E-listinn Reykjavík, besta borgin vill rjúfa þetta þrátefli aulaskapar og valdbeitingar þegar í stað. Vítahringur innistæðulauss yfirgangs samgönguyfirvalda annars vegar og hins vegar botnlausrar og ósiðlegrar undirgefni kjörinna fulltrúa Reykvíkinga hefur leitt af sér ólýsanlegar hörmungar árum og áratugum saman. Allir þættir samfélags og mannlífs í Reykjavík eru undir og mælirinn er löngu fullur.

Þegar borgarar svíkja föðurlandið undir erlend yfirráð kallast það landráð eða föðurlandssvik. Í því ljósi er e.t.v. ekki óeðlilegt að bláeygir reykvískir kjósendur spyrji hvað megi þá kalla það þegar kjörnir fulltrúar Reykvíkinga svíkja borgina sína undir yfirráð ráðamanna Akureyringa og samherja þeirra á landsbyggðinni?

Viðvarandi undirlægjuháttur kjörinna fulltrúa Reykvíkinga af landsmálalistum áratugum saman er oft nefndur list hins mögulega. Hinir kjörnu hafa of lengi og of oft ástundað makk í skúmaskotum og í reykfylltum bakherbergjum. Þeir hafa látið ríkið og nágrannasveitarfélögin í Kraganum teyma sig á asnaeyrunum og tekið skaðlegar skipulagsákvarðanir á færibandi.

Höfundur er arkitekt, áhugamaður um borgarskipulagið, í 2. sæti á E-lista. arkorn0906@gmail.com