Oddviti Líf Magneudóttir leiðir lista VG í Reykjavík. Hún telur að hún yrði frábær borgarstjóri ef það býðst.
Oddviti Líf Magneudóttir leiðir lista VG í Reykjavík. Hún telur að hún yrði frábær borgarstjóri ef það býðst. — Morgunblaðið/Ágúst Óliver
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Karítas Ríkharðsdóttir karitas@mbl.is Áhersla á náttúruverndar- og loftslagsmál aðgreinir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð fyrst og fremst frá öðrum meirihlutaflokkum í Reykjavíkurborg að mati Lífar Magneudóttur, oddvita framboðsins.

Dagmál

Karítas Ríkharðsdóttir

karitas@mbl.is

Áhersla á náttúruverndar- og loftslagsmál aðgreinir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð fyrst og fremst frá öðrum meirihlutaflokkum í Reykjavíkurborg að mati Lífar Magneudóttur, oddvita framboðsins. Líf er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum.

„Við Vinstri-græn erum svolítið þannig að við komum fram með eitthvað, fyrst flokka, sem verður svo meginstraumsstefna. Þannig að við þurfum oft að finna upp hjólið. En svo er ótal margt sem við erum ein með. Til dæmis niðurfelling gjalda í menntakerfinu,“ segir Líf enn frekar um aðgreiningu Vinstri-grænna og annarra flokka í meirihlutasamstarfinu en ítrekar að Vinstri-græn séu eini flokkurinn sem talar um náttúruverndarmál í þessari kosningabaráttu.

Vinstri-græn boða gjaldfrjálsa leikskóla í borginni ásamt gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Það var einnig eitt helsta áherslumál flokksins fyrir síðustu kosningar en hefur ekki komið til framkvæmda á kjörtímabilinu. Spurð að því hvernig Vinstri-græn ætla að tryggja framgang sinna áherslna inn í meirihlutasamstarf segir Líf að gjaldfrjálsir leikskólar hafi verið áherslumál flokksins frá því fyrir hrun en þá hafi ekki verið hljómgrunnur fyrir slíkri breytingu.

„Árið 2014 fórum við fram með þetta og vorum meira að segja búin að reikna út hvernig við ætluðum að gera þetta. Okkur tókst að lækka álögur og okkur tókst það líka árið 2018. Þannig að við erum að stíga þessi skerf,“ segir Líf.

Líf segir leikskólagjöld í Reykjavík lægst á landinu og að gjaldið nemi um sjö prósentum af raunvirði þess að hafa barn í leikskóla. „Við erum að stíga í áttina að þessu en að lokum viljum við Vinstri-græn afnema með öllu gjaldtöku í menntakerfinu.“ Líf segir að síðast þegar samið var um meirihlutasamstarf hafi leikskólagjöld verið flókið viðfangsefni þar sem Viðreisn hafi ekki verið hlynnt því að lækka leikskólagjöld. „En núna er Viðreisn farin að tala um sex tíma gjaldfrjálsa fyrir fimm ára börn.“

Líf segir að allir flokkar vilji brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskólavistar barna. „Þetta er svo ótrúlega margþætt.“ Líf segir að launastefna fyrir starfsfólk í leikskólum sé stór þáttur í fjölgun leikskólaplássa. Þá er viðunandi húsnæði fyrir starfsemina einnig áskorun. „Við erum með plön, þau eru að ganga eftir og við getum tekið inn 12 mánaða börn í haust,“ segir Líf.

Spurð hvort 12 mánaða börn muni fá pláss í eigin hverfum segir Líf að það sé ekki tryggt en það sé verkefnið fram undan. Gert sé ráð fyrir ungu börnunum í ungbarnadeildum og færanlegum einingum sem einnig hafa verið kallaðar ævintýraborgir. „Leikskólinn var ekki hannaður fyrir ung börn, þannig að við þurfum að fara í miklar breytingar sem þegar eru komnar af stað til þess að búa til leiksvæði fyrir ung börn og vistarverur sem henta þeirra þroska.

Spáir fleiri myglumálum

Við höfum fengið ýmislegt í fangið, heldur betur,“ segir Líf þegar heilnæmi skólahúsnæðis er nefnt. Hún segir stöðuna á skólahúsnæði borgarinnar ekki góða og spáir því að fleiri tilfelli muni koma upp þar sem mygluvandamál stríða reykvískum börnum. Hún segir að mikill lærdómur hafi verið tekinn út úr málefnum Fossvogsskóla og harmar hversu hægt afgreiðsla ýmissa mála tengdra honum gekk. Verkferlar sem hafi þá verið mótaðir eða skerpt á hafi virkað vel þegar ámóta mál kom upp í Hagaskóla.

Líf segir að sér þyki eðlilegt að kanna möguleika á áframhaldandi samstarfi haldi meirihlutinn. Líf vill verða borgarstjóri í Reykjavík og telur að hún yrði frábær í hlutverkinu.