Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir
Eftir Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur: "Ríkisstjórnin hefur talað um að velta öllum steinum við til að upplýsa um ferlið við bankasöluna."

Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa brugðist við gagnrýni á bankasöluna með svörum um að „framkvæmdahliðin“ hafi klikkað. Bankasalan var samkvæmt þessu góð alveg þar til hún byrjaði. Bankasalan snýst um pólitík, lög og siðferði. Sú ákvörðun að fara í lokað útboð var pólitísk. Það var jafnframt pólitísk ákvörðun að gera engar kröfur til kaupenda aðrar en þær að þeir teldust fagfjárfestar.

Pólitík, lög og siðferði

Rökin voru að það þjónaði almannahagsmunum að fá inn fagfjárfesta. Þeir fjárfestu til lengri tíma og óvissa væri um hvernig verð á bréfum myndi þróast vikurnar eftir sölu. Listi yfir kaupendur segir aðra sögu. Við þekkjum líka að þeir sem seldu keyptu sumir sjálfir og á afslætti. Gagnrýnt hefur verið að faðir fjármálaráðherra var í hópi rúmlega 200 kaupenda. Sú ákvörðun hans setti fjármálaráðherra í þá stöðu að hafa samþykkt kaup fyrir hönd ríkisins þar sem faðir hans var meðal tilboðsgjafa. Fjármálaráðherra er jafnframt í þeirri stöðu að hafa undirritað samning þar sem faðir hans var meðal kaupenda. Spurður á opnum fundi fjárlaganefndar um mögulegt vanhæfi sitt sagði fjármálaráðherra að hann hefði aldrei hugleitt hæfi sitt í þessu máli. Hann hefði ekki þurft þess. Fjármálaráðherra hefur talað eins og hann sé ábyrgðarlaus á 52,5 milljarða króna sölu vegna „armslengdarreglu“. Lögin eru hins vegar skýr um að það er ráðherra sem tekur ákvarðanir. Það er reyndar líka skýrt af svörum Bankasýslunnar á fundi fjárlaganefndar eftir söluna. Fulltrúar fjármálaráðuneytis hefðu verið í þéttum samskiptum við Bankasýsluna frá því ákvörðun um útboð var tekin í janúar og fram á söludag 22. mars. Armslengdin var því ekki meiri en svo.

Áþreifanleg reiði

Reiðin í samfélaginu er áþreifanleg. Þess vegna er skiljanlegt að Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, tali nú um að bankasalan valdi henni miklum vonbrigðum. Augljóslega hafi eitthvað verið að í sölunni. Hún hefur sagt að það skipti miklu í málum af þessum toga að um þau ríki traust. Það er einmitt kjarni máls. Traust er t.d. rauður þráður í lagasetningu um fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins. Það er þess vegna með ólíkindum að ríkisstjórnin hafi ekkert tillit tekið til þess að almenningur verður að geta treyst ferli við sölu á tugmilljarða ríkiseign. Þar eru heilbrigð samkeppni, jafnræði aðila, gagnsæi og hagkvæmni mikilvægustu þættirnir.

Óeining innan ríkisstjórnar?

Ráðherranefnd um efnahagsmál ræddi aðferðafræði sölunnar á fundum sínum. Þar sitja forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. Þegar viðskiptaráðherra tjáði sig opinberlega fyrst eftir söluna var á henni að skilja að óeining hefði verið innan ríkisstjórnar. Þar sagði hún: „Ég var ekki hlynnt þeirri aðferðafræði sem varð ofan á við söluna á bréfum í Íslandsbanka. Vildi almennt útboð en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta. Þessum sjónarmiðum mínum kom ég skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins.“ Önnur leið hafi verið valin og því miður fátt sem kæmi á óvart í þessu máli og hver útkoman varð. Hún taldi jafnframt að ekki væri hægt að skella skuldinni alfarið á stjórnendur Bankasýslunnar og miður að málið væri einfaldað þannig. Ábyrgðin hlyti að vera stjórnmálamanna sem tóku ákvörðun í málinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, tjáði sig í kjölfarið og sagði að ábyrgðin væri alfarið Bankasýslunnar. Síðar hefur viðskiptaráðherra bætt við að öll ráðherranefndin hafi haft efasemdir hvað varðar söluaðferð.

Spurningar til forsætisráðherra

Ríkisstjórnin hefur talað um að velta öllum steinum við í þessu máli. Það verður þá að gilda um stóru steinana líka. Ég lagði nýlega fram skriflega fyrirspurn á Alþingi til forsætisráðherra með ósk um skrifleg svör. Þau ættu að berast á allra næstu dögum skv. þingskapalögum. Það hefur mikla þýðingu að fá skýr svör um pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Með hvaða rökum hafnaði forsætisráðherra sjónarmiðum viðskiptaráðherra um að hún væri mótfallin þeirri aðferð að selja bréf til valins hóps fjárfesta? Með hvaða rökum féllst forsætisráðherra á þá aðferð sem fjármálaráðherra lagði til? Hefur forsætisráðherra skoðun á því hvort fjármálaráðherra hefði átt að víkja sæti við meðferð þessa máls á einhverju stigi vegna sjónarmiða um vanhæfi? Hvers vegna var látið hjá líða að fara að skilyrðum laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum? Þar kemur fram að gæta skuli að því að skilyrði sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn, þeir njóti jafnræðis og að efla skuli virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði. Gott verð á nefnilega ekki að þurfa að þýða að vönduð vinnubrögð og almannahagsmunir víki. Hagsmunaárekstrarnir sem við blasa draga auðvitað úr trausti til pólitískra ákvarðana ríkisstjórnarinnar sem voru teknar í aðdraganda sölu. Og fyrir vikið er auðvitað traust ríkisstjórnarflokkanna þriggja laskað.

Ef velta á öllum steinum við í þessu máli þá má ekki líta alveg fram hjá stóru steinunum.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.

Höf.: Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur