Hátt verð á fiskmörkuðum hefur glatt strandveiðisjómenn í upphafi vertíðar. Margir voru á sjó í gær, skip og bátar af ýmsum stærðum og gerðum. Alls reyndust þau vera 681 samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Hátt verð á fiskmörkuðum hefur glatt strandveiðisjómenn í upphafi vertíðar. Margir voru á sjó í gær, skip og bátar af ýmsum stærðum og gerðum. Alls reyndust þau vera 681 samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Að meðaltali fengust 380 krónur fyrir kílóið af óslægðum þorski fyrstu fjóra daga strandveiða en 249 krónur á sama tíma í fyrra og 229 krónur í upphafi vertíðar 2020. Strandveiðibátar máttu byrja róðra 2. maí, en tíðarfar var víða erfitt í síðustu viku og dagsaflinn að meðaltali minni en í fyrra.

Í lok vikunnar höfðu 513 fengið tilskilin leyfi, en 383 landað afla. Aðeins fleiri eru komnir með leyfi núna heldur en í fyrra, en aðeins færri hafa landað afla. Langflestir hafa til þessa róið á A-svæði frá Arnarstapa til Súðavíkur eða rúmur helmingur.

135 hafa landað grásleppu

Aflahæsti báturinn á grásleppuvertíðinni er Fönix BA, sem var kominn með 59,5 tonn um helgina. Meðaltalið er hins vegar 21,6 tonn á bát, en var 37,3 tonn í fyrra. 135 bátar hafa landað afla á grásleppuvertíðinni, nokkru færri en í fyrra. Margir þeirra hafa lokið vertíð, sem mátti hefjast 20. mars og standa í 25 daga samfellt frá því að net voru lögð.

Alls hafa 677 tonn af grásleppu verið seld á fiskmörkuðum, 29% minna en í fyrra. Verðið er hins 25% hærra í ár eða 169 krónur á kíló að meðaltali, en var 135 krónur í fyrra. aij@mbl.is