Vinir Yasmin Ísold hefur lengi haft gaman af því að skrifa sögur en þessa dagana fer mikill tími í íþróttir.
Vinir Yasmin Ísold hefur lengi haft gaman af því að skrifa sögur en þessa dagana fer mikill tími í íþróttir. — Morgunblaðið/Eggert
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Yasmin Ísold Rósa Rodrigues, 11 ára nemandi í Kársnesskóla, bar sigur úr býtum í örsögukeppni Vatnsdropans sem haldin var í Bókasafni Kópavogs á Barnamenningarhátíð nýverið.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Yasmin Ísold Rósa Rodrigues, 11 ára nemandi í Kársnesskóla, bar sigur úr býtum í örsögukeppni Vatnsdropans sem haldin var í Bókasafni Kópavogs á Barnamenningarhátíð nýverið.

Yasmin er sem von er ánægð með árangurinn og segir það hafa verið mjög skemmtilegt að taka þátt í keppninni.

„Sagan fjallar um strák sem vildi vera stelpa en mátti það ekki. Hann byrjaði þá að mótmæla. Systkini hans voru alltaf að hlæja að honum af því að hann vildi vera í kjól og með sítt hár. En það var afi hans sem hann treysti. Svo fékk hann að verða stelpa í endann og þegar hún dó eftir sextíu ár þá var hún orðin mjög fræg hjá transfólki,“ segir höfundurinn ungi.

„Ég á vin sem er trans. Hún fæddist sem stelpa en er rosalega mikið með strákum og búin að klippa hárið á sér og svoleiðis.“ Það veitti henni innblástur.

Yasmin var dugleg að skrifa þegar hún var yngri. „Ég hef aðeins minni tíma núna, en ég er stundum að skrifa.“ Hún leggur bæði stund á fimleika og fótbolta svo hún hefur í nógu að snúast en segist þó ætla að halda áfram að skrifa.

Í verðlaun hlýtur Yasmin ferð fyrir tvo til Óðinsvéa í Danmörku þar sem hún fær að heimsækja safn H.C. Andersens. Hún er sem von er farin að hlakka til ferðarinnar.

Vatnsdropinn er alþjóðlegt barnamenningarverkefni sem Kópavogur er stofnandi að og er í samvinnu við H.C. Andersen-safnið í Danmörku, Múmín-safnið í Tampere í Finnlandi og Undraland Ilon Wikland í Haapsalu í Eistlandi.