Akureyri Ásdís Guðmundsdóttir sækir á mark Vals og Lovísa Thompson og Mariam Eradze koma litlum vörnum við í KA-heimilinu í gærkvöldi.
Akureyri Ásdís Guðmundsdóttir sækir á mark Vals og Lovísa Thompson og Mariam Eradze koma litlum vörnum við í KA-heimilinu í gærkvöldi. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Handboltinn Einar Sigtryggsson Guðmundur Tómas Sigfússon Jóhann Ingi Hafþórsson Deildarmeistarar Fram eru aðeins einum sigri frá sæti í lokaúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir góða ferð til Vestmannaeyja í gærkvöldi.

Handboltinn

Einar Sigtryggsson

Guðmundur Tómas Sigfússon

Jóhann Ingi Hafþórsson

Deildarmeistarar Fram eru aðeins einum sigri frá sæti í lokaúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir góða ferð til Vestmannaeyja í gærkvöldi. Fram vann þá 20:18-sigur á ÍBV og fer í úrslit með sigri í þriðja leiknum á heimavelli næstkomandi fimmtudag.

Karen Knútsdóttir var í miklu stuði hjá Fram og skoraði helming marka liðsins, tíu stykki. Sunna Jónsdóttir gerði sjö mörk fyrir ÍBV en þau dugðu ekki til. Fram vann tíu marka sigur í fyrsta leik og lék ÍBV betur í gær, en þegar upp var staðið var sóknarleikurinn einfaldlega ekki nægilega góður.

ÍBV verður að fá miklu meira frá Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur sem er aðeins með samtals tvö mörk í einvíginu til þessa. Þá verður liðið einnig að nýta vítin sín betur en Hafdís Renötudóttir í marki Fram varði tvö slík og 14 skot alls.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna vörðust bæði lið mjög vel og Stefán Arnarson, þjálfari Fram, segir slíkt geta gerst í úrslitakeppninni. „Þetta gerist oft í úrslitakeppninni, liðin þekkjast svo gríðarlega vel svo oft verður lítið skorað,“ sagði Stefán við Morgunblaðið eftir leik og bætti við að einvígið væri langt frá því að vera búið, þrátt fyrir að Fram sé í kjörstöðu.

Eins og sportbíll í fúapytti

Íslandsmeistarar KA/Þórs jöfnuðu einvígi sitt við Val í 1:1 með 26:23-heimasigri. KA/Þór gerði gríðarlega vel í að halda sterkustu leikmönnum Vals niðri. Lovísa Thompson skoraði aðeins eitt mark og átti sitt fyrsta skot skömmu fyrir leikslok. Einar Sigtryggsson, sem skrifaði fyrir leikinn á mbl.is, líkti frammistöðu Lovísu við sportbíl í fúapytti. Mariam Eradze skoraði sömuleiðis aðeins eitt mark og gat Valur helst þakkað vítanýtingu Þóreyjar Önnu Ásgeirsdóttur og einum og einum þrumufleyg hjá Theu Imani Sturludóttur að tapið var ekki stærra.

Hjá KA/Þór fór Aldís Ásta Heimisdóttir, senuþjófurinn úr einvíginu gegn Haukum, á kostum og Martha Hermannsdóttir, sem verður fertug á næsta ári, skoraði sex.

Kosningar og Eurovision

Hin 39 ára gamla Martha Hermannsdóttir ætlar sér sigur á útivelli í næsta leik og 3:1-sigur í einvíginu. „Við erum að fara að taka þetta. Við ætlum bara að klára þetta hér á laugardaginn. Þá eru kosningar og svo Eurovision,“ sagði hún við Morgunblaðið.

Martha viðurkennir að aldurinn sé aðeins byrjaður að segja til sín. „Ég finn alveg fyrir því að ég er að verða 39 ára, sko. Ég tek frí frá æfingum á milli leikja og fer bara í sund,“ sagði Martha.