Áfengi Flestir viðskiptavinir á einum degi, tæplega 44 þúsund, heimsóttu Vínbúðirnar 31. mars í fyrra, sem var miðvikudagurinn fyrir páskahelgina.
Áfengi Flestir viðskiptavinir á einum degi, tæplega 44 þúsund, heimsóttu Vínbúðirnar 31. mars í fyrra, sem var miðvikudagurinn fyrir páskahelgina. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Rekstur ÁTVR í fyrra einkenndist af faraldri kórónuveirunnar líkt og á árinu á undan. Þó minnkaði selt magn af áfengi í lítrum talið á síðasta ári frá árinu á undan eða um 1,6% en ÁTVR seldi áfengi fyrir tæpa 40 milljarða í fyrra og tóbak fyrir rúmlega ellefu milljarða að virðisaukaskatti meðtöldum. Í annað skipti í 100 ára sögu ÁTVR fór ársveltan yfir 50 milljarða en á árinu 2020 fór söluaukningin langt fram úr öllum áætlunum og heildarveltan í fyrsta skipti yfir 50 milljarða.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Rekstur ÁTVR í fyrra einkenndist af faraldri kórónuveirunnar líkt og á árinu á undan. Þó minnkaði selt magn af áfengi í lítrum talið á síðasta ári frá árinu á undan eða um 1,6% en ÁTVR seldi áfengi fyrir tæpa 40 milljarða í fyrra og tóbak fyrir rúmlega ellefu milljarða að virðisaukaskatti meðtöldum. Í annað skipti í 100 ára sögu ÁTVR fór ársveltan yfir 50 milljarða en á árinu 2020 fór söluaukningin langt fram úr öllum áætlunum og heildarveltan í fyrsta skipti yfir 50 milljarða.

Í fyrra var fjöldi viðskiptavina 5,5 milljónir og fækkaði þeim frá fyrra ári um 0,6%.

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, segir í formála nýútkominnar ársskýrslu ÁTVR að breyttar lífsvenjur á tímum faraldursins hafi haft í för með sér að verslun yfir netið varð almennari og að í faraldrinum hafi vefverslun endanlega fest sig í sessi sem viðurkenndur verslunarmáti.

Afhenda áfengi hverjum sem er

Ívar fjallar ítarlega um einkareknar vefverslanir með áfengi sem komu fram á sjónarsviðið og segir að þessar verslanir hafi fengið að starfa óáreittar „þrátt fyrir að flestir séu sammála um að fyrir þeim sé ekki heimild í lögum og rekstur þeirra stangist á við einkaleyfi ÁTVR. Vefverslanirnar afhenda áfengi hverjum sem er þrátt fyrir ákvæði laga um að ekki megi afhenda og selja áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Einnig eru þær opnar allan sólarhringinn þrátt fyrir ákvæði laga um lögbundinn opnunartíma áfengisverslana,“ segir í formálanum.

Fullyrðir hann að ef vefverslun einkaaðila með áfengi verði leyfð á Íslandi sé smásala áfengis innanlands í raun gefin frjáls og það leiði af sér afnám einkaleyfis ÁTVR. Í þessu máli sé engin millileið til. „Það er einfaldlega ekki hægt að vera með frjálsa samkeppni og einkasölu á sömu vöru á sama tíma. Slíkt fyrirkomulag brýtur bæði gegn íslenskum samkeppnislögum og Evrópurétti,“ segir Ívar. Ef einkaaðilum sé leyft að selja áfengi yfir netið sé sú sala í beinni samkeppni við einkasöluna, þá væri búið að opna fyrir markaðslögmálin með tilheyrandi samkeppni, verðstríði og söluhvötum í beinni andstöðu við meginatriði gildandi áfengisstefnu.

„Verði netverslun einkaaðila á áfengi leyfð mun aðgengi að áfengi gjörbreytast. Það verður alltaf innan seilingar á öllum tímum sólarhringsins alla daga ársins. Með innleiðingu einkahagsmuna í smásölu áfengis er verið að víkja af braut ábyrgrar áfengisstefnu sem fylgt hefur íslensku þjóðinni í heila öld. Áfengisstefnu sem skilað hefur þjóðinni heilbrigðum ungmennum, minni áfengisneyslu, betri lýðheilsu og almannaheill,“ segir m.a. í formála forstjóra ÁTVR.

Fram kemur í ársskýrslunni að hagnaður ÁTVR í fyrra var rúmir 1,6 milljarðar kr. (var 1,8 milljarðar 2020), og var greiddur 500 milljóna kr. arður í ríkissjóð. Alls voru tekjur ríkissjóðs af áfengis- og tóbaksgjöldum, virðisaukaskatti og arðgreiðslu tæpir 30 milljarðar í fyrra. Sala jókst í fyrra á sterku áfengi um 12% en salan dróst saman um 2,8% í léttvíni og 2,2% í bjór. Sala tóbaks skilaði 9.372 milljónum króna án virðisaukaskatts en hún minnkaði um 7,5% milli ára. Dróst sala tóbaks saman í öllum flokkum í fyrra, sala á neftóbaki var tæplega 35% minni í magni en árið á undan og sala á sígarettum minnkaði um tæp 7% á milli ára.

Starfsfólk í Vínbúðunum er þjálfað í að spyrja viðskiptavini um skilríki til að tryggja að viðskiptavinir hafi náð 20 ára aldri. Til að bæta eftirlitið er á hverju ári farið í hulduheimsóknir þar sem fólk á aldrinum 20-24 ára fer í búðirnar og skilar svo niðurstöðum um hvort það þurfti að framvísa skilríkjum. Árangurinn var nokkru lakari í fyrra og færri spurðir um skilríki en á árunum á undan eða 75% sem er töluvert undir markmiðinu sem er 90%. Á árinu 2019 var árangur hulduheimsóknanna 83% en fór niður í 78% á árinu 2020 og 75% 2021 eins og fyrr segir.

Í fyrra voru seldir 79.093 fjölnota pokar í vínbúðunum sem er 20,6% aukning frá árinu á undan.