Sveitarfélög Viðskiptaráð telur að hægt sé að spara töluvert fjármagn með því að kaupa meira af aðkeyptri þjónustu.
Sveitarfélög Viðskiptaráð telur að hægt sé að spara töluvert fjármagn með því að kaupa meira af aðkeyptri þjónustu. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Stöðugildum hjá sveitarfélögum hefur á síðastliðnum tveimur árum fjölgað um 1.900 en starfandi á öllum vinnumarkaðinum aðeins um 900. Fjölgun hjá sveitarfélögum nemur því um 8,5% á sama tíma og störfum fækkaði á almennum vinnumarkaði.

Baksvið

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Stöðugildum hjá sveitarfélögum hefur á síðastliðnum tveimur árum fjölgað um 1.900 en starfandi á öllum vinnumarkaðinum aðeins um 900. Fjölgun hjá sveitarfélögum nemur því um 8,5% á sama tíma og störfum fækkaði á almennum vinnumarkaði.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Viðskiptaráðs þar sem fjallað er heildstætt um sveitarstjórnarstigið og fjármál sveitarfélaga. Í samantektinni, sem birt er á vef Viðskiptaráðs, kemur fram að laun og launatengd gjöld eru stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri sveitarfélaganna og nema meira en helmingi allra útgjalda. Laun og launatengd gjöld námu þannig 240 milljörðum króna árið 2020 sem samsvarar um 59% af heildarútgjöldum sveitarfélaga það ár. Þá kemur fram að frá árinu 2015 hefur hlutfall launakostnaðar af heildarútgjöldum sveitarfélaga vaxið um sex prósentustig og segir Viðskiptaráð að því hærra sem vægi launakostnaðar er í útgjöldum því minna sé til skiptanna í önnur málefni.

„Miðað við rekstrarafkomu sveitarfélaga eru þau í spennitreyju,“ segir Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, í samtali við Morgunblaðið aðspurð nánar um þennan lið.

Sveitarfélög í spennitreyju

„Það virðist vera lögmál, alveg sama hvernig árar, og það er skrýtið að sjá að efnahagslegur uppgangur virðist hafa lítil áhrif á afkomu sveitarfélaganna. Launakostnaður þeirra hefur aukist mikið undanfarin ár og á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna fyrir ári kom fram að laun og tengd gjöld næmu 99% af útsvarstekjum sveitarfélaganna í fyrra, úr 87% árið 2018,“ segir hún. Í samantektinni kemur fram að þess séu dæmi að sveitarfélög hafi yfirboðið fyrirtæki á markaði, til dæmis hvað viðkemur tæknilegum störfum á borð við verkfræðistörf. Í könnun meðal aðildarfélaga Viðskiptaráðs svöruðu 39% fulltrúa fyrirtækja því til að starfsmaður hefði sagt starfi sínu lausu vegna starfs sem viðkomandi bauðst hjá hinu opinbera.

Hægt að draga úr kostnaði

Fram kemur að umsvif á sveitarstjórnarstiginu hafi aukist á liðnum árum. Það er þó mat Viðskiptaráðs að afkoma sveitarfélaganna hafi samt sem áður verið neikvæð um árabil og ljóst að rekstur þeirra sé ekki sjálfbær, heilt á litið. Hvort tveggja, tekjur og útgjöld, hefur farið vaxandi á kjörtímabilinu.

„Sveitarfélög eiga að tryggja að íbúar þeirra fái margvíslega þjónustu en það er ekkert sem segir að þau þurfi að sinna henni öll sjálf, með eigin starfsfólki,“ segir Svanhildur.

„Af hverju gera sveitarfélög ekki fleiri samninga um rekstur t.d. skóla og leikskóla, þótt þau eigi húsnæðið? Af hverju að ráða stöðugt fleiri sérfræðinga í stað þess að kaupa þjónustu hjá einkaaðilum eins og verkfræðistofum og upplýsingatæknifyrirtækjum, svo dæmi sé tekið, í stað þess að stofna sín eigin hugbúnaðarhús? Þetta myndi skapa meiri sveigjanleika í starfsemi sveitarfélaga, auka valfrelsi íbúa og gera vinnumarkaðinn fjölbreyttari fyrir fólk í ýmsum atvinnugreinum og af því að við vitum að einkageirinn leggur meiri áherslu á framleiðni en hið opinbera. Með því er hægt að draga verulega úr kostnaði.“

Hærri fasteignaskattar

Einnig kemur fram að fasteignaskattar hér á landi eru mun hærri en í þeim ríkjum sem við alla jafna berum okkur saman við.

„Þetta eru eignaskattar sem leggjast þungt á fólk og fyrirtæki, sem borga um sex sinnum hærra hlutfall af atvinnuhúsnæði en einstaklingar af íbúðarhúsnæði,“ segir Svanhildur.

Sveitarfélög
» Ísland er Norðurlandamethafi í hækkun á fasteignasköttum.
» Aðeins 20% sveitarfélaga innheimta ekki hámarksútsvar.
» Aðeins eitt sveitarfélag hefur lækkað útsvarsprósentu á kjörtímabilinu.
» Stöðugildum í höfuðborginni fjölgaði um 13,5% milli áranna 2019 og 2021, eða um næstum 1.000.
» Viðskiptaráð telur að fleiri sveitarfélög þurfi að sameinast.