Bjarni Pétur Magnússon
Bjarni Pétur Magnússon
Eftir Bjarna Pétur Magnússon: "Að telja hjásetu valdaframsal þegar vélað er um framtíð okkar í Evrópusamstarfi verður að teljast hæpin fullyrðing."

Í ágætri grein Hjartar J. Guðmundssonar í Morgunblaðinu 26.4. 2022, „Tveir ójafnir dómstólar“, um muninn á vægi EFTA-dómstólsins annars vegar og dómstóls Evrópusambandsins hins vegar, greinir hann frá því að fyrir liggi að EFTA-dómstóllinn og dómstóll Evrópusambandsins sitji engan veginn við sama borð þegar kemur að framkvæmd EES-samningsins. Þar halli verulega á vægi EFTA-dómstólsins. Þakkar hann því að ekki lá fyrir dómaframkvæmd af hálfu dómstóls Evrópusambandsins að EFTA-dómstóllinn dæmdi okkur í hag í Icesave-málinu. Þótt vel hafi farið í Icesave-málinu er það engin trygging fyrir því að EFTA-dómstóllinn dæmi okkur alltaf í hag umfram það sem kynni að vera ef við yrðum að hlíta niðurstöðu dómstóls Evrópusambandsins.

Mismunandi lagagrunnur

Lög Evrópuþjóða utan Bretlands hvíla á því sem á ensku kallast „code law“ þar sem sett lög (stjórnarskrá, almenn lög) ganga framar öðrum réttarheimildum. Svo þarf ekki að gilda þar sem á ensku er kallað „common law“ og því geta breskir dómstólar látið sett lög víkja fyrir almennum heimildum svo sem siðum og venjum. Að þessu leyti eigum við meira sameiginlegt með löndum Evrópusambandsins en Bretlandi. Úrganga Breta ætti því ef eitthvað að auðvelda dómaframkvæmd dómstóls Evrópudómstólsins.

Niðurlag greinarinnar endar höfundur á þessum orðum: „Hins vegar liggur að sama skapi fyrir að EES-aðildin mun áfram fela í sér sífellt meira framsal valds þótt enn vanti verulega upp á að það sé á pari við inngöngu í sambandið.“

Spurningin er: Hvenær verður framsal valds af okkar hálfu á pari við inngöngu í sambandið?

Hvað gerum við ef Noregur ákveður að ganga í sambandið? Þótt Norðmenn hafi hingað til fellt tillögu um það er vert að minnast þess hvernig það bar að þegar þeir ákváðu að ganga í NATO.

Valdaafsal

Að vera þjóð meðal þjóða felst í því að taka virkan þátt í því samstarfi þar sem vélað er um daglegt líf þjóðarinnar. Gangverk Evrópusambandsins er skilgreint með þrennum hætti; laga-, efnahags- og stjórnmálalega. Allir þessir þættir varða þátttöku okkar í EES-samstarfinu en við erum óvirkur aðili í laga- og stjórnmálahlutanum en virk aðeins að hluta til í efnahagsmálunum. Er það ekki valdaafsal að taka ekki þátt í að véla um hagsmuni okkar nema að litlu leyti?

Evrópusambandið var stofnað til þess að tryggja frið í Evrópu, aðildargulrótin er hagsmunir. Hver sú þjóð sem sækir um aðild á að hafa af því hag. Til að festa Evrópusambandið í sessi og tryggja framkvæmd þess er komið á löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi. Til að tryggja efnahagslega velferð varð að koma á margvíslegum félagslegum úrbótum. Þegar vélað er um málefni sambandsins koma aðilar allra þjóða að borðinu. Stríðið í Úkraínu er m.a. vegna þess að Rússlandsforseti telur sér stafa ógn af þeim réttindum, frelsi, öryggi og velferð sem þegnum Evrópusambandsins eru tryggð.

Að telja hjásetu valdaframsal þegar vélað er um framtíð okkar í Evrópusamstarfi verður að teljast hæpin fullyrðing.

Sem að framan greinir byggist lagagrundvöllur okkar sem og flestra þjóða Evrópusambandsins á sama grunni. Sigurður Líndal fjallar um það í bókinni um lög og lögfræði í kaflanum um grundvöll laga hve mikið erlendir fræðimenn hafa fjallað um hvað hlutur Íslands er mikill í grundvelli lagagerðarinnar. Hvers vegna ættu Íslendingar nú sem fyrr ekki að geta lagt sitt af mörkum við þróun löggjafar til gagns Evrópubúum?

Innrás Rússa í Úkraínu stafar ekki af ótta við árás NATO í Rússland eins og Pútín heldur fram; ástæðan er óttinn við gildin sem NATO og Evrópusambandið standa fyrir.

Valur Gunnarsson lýsir því vel í bók sinni Bjarmalönd hvert hugur ungmenna stefnir; ungmenna sem tala rússnesku og eru af rússneskum foreldrum sem fluttu til Eystrasaltsríkjanna eftir síðari heimsstyrjöld. Þau ætla ekki til Rússlands, hugur þeirra stefnir á að mennta sig og lifa í vestrænu ríki, ekki Rússlandi.

Þá er því haldið fram að sama gildi um marga Rússa. Í nýlegu viðtali í TV-4 í Frakklandi sem og BBC-þættinum „Hardtalk“ taldi Mikhail Khodorkovsky, sem er rússneskur auðjöfur, að Pútín hefði með innrásinni í Úkraínu grafið eigin gröf vegna þess að rússnesk alþýða kysi að njóta þeirra gilda sem Evrópusambandið býður þegnum sínum. Taldi hann Pútín geta gengið ansi langt þar til yfir lyki en hann gæti ekki staðið gegn þróuninni og myndi tapa að lokum.

Hvenær og hvernig sem þessi ógnaröld endar mun afleiðingin verða öflugra Evrópusamband, samstarf sem við Íslendingar eigum að taka fullan þátt í.

Höfundur er áhugamaður um stjórnmál. bjarnipmagnusson@gmail.com