Í Hafnarhúsinu Meðan breytingar á húsinu verða skipulagðar verður rekin þar miðstöð skapandi greina.
Í Hafnarhúsinu Meðan breytingar á húsinu verða skipulagðar verður rekin þar miðstöð skapandi greina. — Morgunblaðið/Þorkell
Borgarráð hefur samþykkt að stofnað verði sjálfseignarfélag um útleigu á hluta Hafnarhússins, Tryggvagötu 17, sem leigurýmis til afmarkaðs tíma, fyrir vinnu- og lærdómsaðstöðu skapandi greina í miðborg Reykjavíkur.

Borgarráð hefur samþykkt að stofnað verði sjálfseignarfélag um útleigu á hluta Hafnarhússins, Tryggvagötu 17, sem leigurýmis til afmarkaðs tíma, fyrir vinnu- og lærdómsaðstöðu skapandi greina í miðborg Reykjavíkur. Samið verður við Harald Inga Þorleifsson fyrir hönd óstofnaðs sjálfseignarfélags um reksturinn.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Reykjavíkurborg gengið frá kaupum á þeim hluta byggingarinnar sem var í eigu Faxaflóahafna og verður afhending húsnæðisins í júní næstkomandi.

Í tilkynningu frá borginni segir að stefnt sé að því að endurbyggja og innrétta húsið á næstu árum þar sem gert er ráð fyrir listasafni Nínu Tryggvadóttir ásamt aðstöðu fyrir aðrar listgreinar. Á meðan er gert ráð fyrir að nýta húsnæðið til bráðabirgða fyrir fyrrnefnda vinnu- og lærdómsaðstöðu, þar sem mismunandi skapandi greinar svo sem listgreinar, hönnun, forritun og önnur nýsköpun komi saman.

Auglýst var eftir samstarfsaðila til að reka miðstöð fyrir skapandi greinar í húsinu og segir í tilkynningunni að Haraldur hafi fengið flest stig í mati á hæfni til að taka við rekstri sjálfseignarfélagsins. Auk hans sendu inn gögn SÍM, Hallur Helgason og King og Bong.

Rýmið til ráðstöfunar í húsinu verður að hámarki um 3.500 fermetrar og skoðað verður hvort einhver starfsemi á vegum Reykjavíkurborgar geti nýtt sér hluta hússins. Markmiðið er að efla sköpun í breiðum skilningi, binda saman sköpunarkraft einstaklinga og minni fyrirtækja í borginni, efla fræðslu og þekkingarmyndun fyrir skapandi fólk og ýta undir tengslamyndun í skapandi greinum.