Ásgeir R. Helgason
Ásgeir R. Helgason
Eftir Ásgeir R. Helgason: "Þótt við getum orðið en ekki verið rík og alsæl, þá er mögulegt að verða og vera hamingjusamur."

Hamingjuleitin tekur á sig margar myndir. Sumir leita að henni í fjölskyldu- og vinatengslum, aðrir í áhættusömum ævintýrum, trúarbrögðum, ástinni og veraldlegum gæðum. Það hefur lengi verið ljóst að erting ákveðinna heilastöðva með rafskautum eða efnum framkallar upplifun af sælu. Upplifun sem er svo mögnuð að margir neytendur missa áhugann á að leita hamingjunnar á öðrum stöðum. Þeir telja sig hafa höndlað hina fullkomnu sælu. Uppgötvun vellíðunarstöðva í heilanum hefur ýtt undir vonir um möguleika á þróun efna sem örva þessar stöðvar án neikvæðra aukaverkana. Hugmyndin um „vellíðunarpillu“ án aukaverkana er skiljanleg, en þversögn. Því er nefnilega þannig farið að stöðugt sæluástand verður fljótlega viðmiðunarástand, hið hversdagslega ástand. Sæluáhrifin vara bara tímabundið.

Sæla

Þegar einhver upplifir æðstu mögulega sælu verður það viðmiðunarástandið. Vegna þess að ekki er til nein meiri sæla er þetta ástand óþolandi til lengdar. Þetta er þversögn sælunnar. Ef hversdagurinn er byggður á hinni fullkomnu sælu er ekki lengur mögulegt að upplifa þá jákvæðu breytingu sem er forsenda sæluupplifunar. Það er ekkert eftir. Eina leiðin til að upplifa aftur sælu er að fara í fráhvarf og hrapa niður sælustigann. Það er afskaplega óþægilegt. Nái viðkomandi að staldra við nógu lengi á neðstu þrepum sælustigans til að skapa nýtt hversdagsástand, á viðkomandi ef til vill ennþá möguleika á eðlilegu lífi?

Ríkidæmi

Þetta er ekki ósvipað því sem gerist þegar fólk reynir að verða ríkt. Sá sem á ekki neitt verður ríkur um hríð þegar hann eignast eina geit. En fljótlega er hann bara maður sem á eina geit og þráir að eignast tvær. Eignist hann tvær og þrjár og fjórar verður hann glaður. Á einhverjum tímapunkti hættir hann að vera fátækur, en hann verður aldrei ríkur. Ríkidæmi er nefnilega svipað alsælu að því leytinu til að það felst í breytingu frá einu þrepi yfir á annað. Það er því hægt að verða ríkur, en ekki að vera ríkur. Meðan þú getur eignast meira ertu aldrei ríkur.

Hamingja

Þótt sæla og ríkidæmi geti verið hluti af því að höndla hamingjuna tímabundið, þá er hamingjan allt annað og meira. Ólíkt sælu og ríkidæmi getur hamingja verið viðvarandi. Hamingjusamur einstaklingur upplifir innri ró og sátt við hlutskipti sitt. Að leita að hamingju í ríkidæmi, völdum og sælu getur í versta falli hindrað okkur í að höndla hamingjuna. Innhverf íhugun, núvitund, bæn og þakklæti eru leiðir margra til hamingju. Traust djúp vinátta virðist einnig stuðla að hamingju. Er mögulegt að fólk með krabbamein geti verið hamingjusamt? Já, rannsóknir sýna það. Þótt við getum orðið en ekki verið rík og alsæl, þá er mögulegt að verða og vera hamingjusamur.

Höfundur er dósent í sálfræði við HR og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu. asgeir@krabb.is