Sýning Auk 130 erinda er haldin vöru- og þjónustusýning í Hofi.
Sýning Auk 130 erinda er haldin vöru- og þjónustusýning í Hofi. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Samorkuþing, stærsta ráðstefna í orku- og veitugeiranum á Íslandi, hófst í Hofi á Akureyri í gærmorgun og lýkur í kvöld. Þar munu 130 fyrirlesarar flytja jafn mörg erindi um hin ýmsu viðfangsefni orku- og veitufyrirtækja.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Samorkuþing, stærsta ráðstefna í orku- og veitugeiranum á Íslandi, hófst í Hofi á Akureyri í gærmorgun og lýkur í kvöld. Þar munu 130 fyrirlesarar flytja jafn mörg erindi um hin ýmsu viðfangsefni orku- og veitufyrirtækja. Kynjahlutföll eru jöfn í hópi fyrirlesaranna, sem telst til tíðinda í þessum geira. Auk fyrirlestra og ávarpa er haldin vöru- og þjónustusýning á staðnum. Skráðir þátttakendur eru 500 og koma frá stóru orku- og veitufyrirtækjunum og einnig frá minni veitufyrirtækjum víða um land.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði í ávarpi sínu í Hofi að leið Íslendinga til að takast á við loftslagsmálin væri m.a. með grænni orku. Áskorunin væri augljóslega sú að til að leysa loftslagsmálin þyrfti meiri græna orku. Öll Norðurlöndin legðu áherslu á það og sama gilti hér á Íslandi. Einnig nefndi hann fyrirliggjandi verkefni eins og að ljúka við að afgreiða 3. áfanga rammaáætlunar, setja skýrari ramma um hvernig við nýtum vindorkuna í sátt og eins um flutningskerfi raforku og fleira.

„Við þurfum að vanda okkur og gera þetta í eins mikilli sátt við allt og alla og hægt er. En við megum ekki sofna á verðinum og missa af því tækifæri að verða sjálfbær og að viðhalda orkusjálfstæði okkar,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali við Morgunblaðið.

Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála rifjaði upp í ávarpi sínu gerð grænbókarinnar, skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum, og þakkaði öllum sem komu að því verki. Meginniðurstaða hennar væri að í gegnum loftslagsmarkmið Íslands þyrfti að móta betur orkuframleiðslu og -flutning sem eru grunnur að framfylgd orkuskipta.

Guðlaugur sagði nauðsynlegt að höggva á þá hnúta sem verið hefðu í meðferð rammaáætlana, eða að finna annað fyrirkomulag sem leiddi til bættrar málsmeðferðar um orkuframkvæmdir.