Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir Svein Óskar Sigurðsson: "Enginn mætti frá höfuðborginni á þennan fund en á fundinum voru þrír viðamiklir dagskrárliðir varðandi aðalskipulag Reykjavíkur."

Á síðasta kjörtímabili var einu stærsta verkefni Íslandssögunnar í samgöngumálum ýtt úr vör í kjölfar undirritunar samgöngusáttmála, 29. september 2019, og síðar stofnunar á opinberu fyrirtæki sem ber heitið Betri samgöngur ohf. í október ári síðar, 2020. Verkefnið hefur gengið undir heitinu Borgarlínan eða Þunga-Borgarlínan. Hvernig er svona stórt verkefni samþykkt til framkvæmda?

Á kjörtímabilinu sat ég í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins sem heyrir undir SSH (Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu). Þetta er mikilvægasta nefndin tengd skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Gott dæmi um afgreiðslu innan þessarar nefndar er að þegar sveitarfélög liggja að hvort öðru, sbr. Reykjavík og Mosfellsbær við Esjumela, ráðfæra sveitarfélög sig saman um slíka skurðpunkta ásamt því að halda sig almennt innan vaxtamarka svæðisskipulagsins fyrir höfuðborgarsvæðið sem lagt var upp með árið 2015.

Um nefndina gilda reglur. Þær reglur árétta að ekki á að afgreiða mál á fundi nefndarinnar mæti ekki a.m.k. einn af tveimur fulltrúum hvers sveitarfélags. Komið hefur fyrir að báðir fulltrúar Reykjavíkur voru fjarverandi og þurfti nefndin að stöðva með athugasemd meðferð mála því hvorugur fulltrúi höfuðborgarinnar var viðstaddur. Má þar m.a. geta fundar nefndarinnar nr. 94 þann 19. júní 2020 en þar fór fram kynning og mál til umsagnar vegna Borgarlínu.

Enginn mætti frá höfuðborginni á þennan fund en á fundinum voru þrír viðamiklir dagskrárliðir varðandi aðalskipulag Reykjavíkur. Var allt þetta kynnt og kallað eftir umsögn nefndarinnar, þ.m.t. Nýi-Skerjafjörður og sértæk búsetuúrræði í Reykjavík.

Hið sama kom upp á 98. fundi 15. janúar 2021 en þá mætti enn á ný enginn frá Reykjavíkurborg. Á þeim fundi var aðalskipulag Reykjavíkurborgar til umræðu og óskað umsagnar ásamt Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins frá 2020 til 2024. Gerði ég ítarlega athugasemd á 99. fundi nefndarinnar 5. mars 2021 þegar færi gafst að gera athugasemd við fyrri fundargerð frá 15. janúar.

Á 102. fundi 17. september 2021 tók svæðisskipulagsnefndin mál fyrir frá Umhverfisstofnun varðandi friðun á Blikastaðakró, strand- og hafsvæði við Leiruvog í Mosfellsbæ sem liggur milli Álfsness, Mosfellsbæjar og Geldingarness. Í bæjarstjórn Mosfellsbæjar gerði ég athugasemd þess efnis að líkur væru á að friðunin lægi yfir legu Sundabrautar. Núverandi oddviti Sjálfstæðismanna taldi þær athugasemdir mínar vera úr lausu lofti gripnar og einhverja fásinnu. Umhverfisstofnun taldi málið afar brýnt og gaf mjög stuttan frest svo þetta gæti hlotið samþykki fyrir kosningar til Alþingis 2021. Allt fyrir umbúðir umfram innihald.

Frestur Umhverfisstofnunar var til 10. ágúst 2021 eða 32 dögum fyrr en dagsetning á erindinu um sama efni frá Umhverfisstofnun barst svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins til rýningar, umsagnar og afgreiðslu. Á 102. fundi nefndarinnar bókuðu allir fulltrúar í nefndinni með þessu fyrirkomulagi nema fulltrúi Miðflokksins enda ferlið með miklum ólíkindum og ekki til sóma skipulagsnefnd af þessum toga og því síður Umhverfisstofnun sem fer offari og tekur ekki tillit til annarra stjórnsýslustiga.

Síðar kom glöggt í ljós að afmörkun friðunarinnar lá yfir legu Sundabrautar. Reikna má með því að það hafi verið leiðrétt svo tryggja megi að affriða þurfi ekki síðar stórt svæði svo ekki verði tafir á lagningu Sundabrautar. Rétt er að árétta að Sundabraut er langsamlega hagkvæmasta verkefnið í samgöngumálum á Íslandi í dag með ábata sem nemur frá 186 til 238 milljörðum fyrir samfélagið skv. greiningu sem unnin var fyrir Vegagerðina nýlega.

Hvað stendur eftir? Það er að stofnanir fara offari og ráðherrar misbeita valdi sínu af offorsi rétt fyrir kosningar. Sama má segja nú um fáeina sveitarstjórnarmenn, t.a.m. meirihlutann sem nú ríkir í Mosfellsbæ. Hvað með rétt íbúa lögum samkvæmt?

Í reglum um framangreinda svæðisskipulagsnefnd er getið um fagráð sem svæðisskipulagsstjóri getur kallað saman sér til ráðgjafar á milli funda í nefndinni. Upplýsingar liggja nú fyrir frá svæðisskipulagsstjóra höfuðborgarsvæðisins. Fagráðið hefur verið kallað saman en ekki hefur verið haldið utan um fundargerðir fagráðsins. Þær eru ekki til. Í fagráðinu sitja sérfræðingar og valinkunnir fagmenn sveitarfélaganna sem meta eiga verkefnin og tryggja gæðin.

Komandi kosningar ættu að fjalla einmitt um framangreint, þ.e. fagmennsku í raun og sann, gæði þjónustu og framferði kjörinna fulltrúa gagnvart því verkefni sem þeir taka sér fyrir hendur í umboði íbúanna, skattgreiðenda. Þetta umboð fara þeir með óslitið til fjögurra ára í senn.

Um þetta afkáralega ferli fékk Borgarlínan að þjóta án hnitasettra teikninga, faglegrar umfjöllunar, rekstraráætlunar og annarra áhættuþátta sem eru enn í dag ógreindir. Höfðu fjölmargir sveitastjórnarmenn samþykkt þetta heimavið með bundið fyrir bæði augun, án alls sem að framan greinir og með því bitið höfuðið af skömminni.

Höfundur er bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ og situr sem aðalmaður í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins.

Höf.: Svein Óskar Sigurðsson