Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson
Eftir Kristján Guðmundsson: "Athyglisverður sjónvarpsþáttur um breytingar á veðurfari jarðar í mörg hundruð þúsund ár."

Margir spekingar eru háværir um hlýnun jarðar af mannavöldum og er ramakvein þeirra orðið leiðinlegt í ljósi þeirra upplýsinga sem finnast í frásögnum virtra vísindamanna.

Ef íslenska sjónvarpið er fyrir Íslendinga sem upplýsingamiðill er farið fram á það við stjórnendur þar að sýndur verði sjónvarpsþáttur sem bar nafnið Veðurfarsbreytingar á liðnum öldum (þulur Ómar Ragnarsson) og sýndur var í sjónvarpi árið 1998-2000.

Sjónvarpsþáttur þessi sýnir mjög athyglisverðar rannsóknir á veðri á jörðinni í mörg hundruð þúsund ár og þeim sveiflum er orðið hafa í hitastigi samkvæmt mælingum á borkjarna úr Grænlandsjökli. Samkvæmt þessum borkjarnarannsóknum hefur hitastig á jörðinni sveiflast um meira en 10 gráður frá tíma til tíma án tilkomu mannsins.

Í þætti þessum er gerð grein fyrir stöðu rannsókna á breytingum á veðurfari á jörðinni og hugmyndum um hugsanlegar orsakir þeirra. Sveiflur þær sem orðið hafa á veðurfari á jörðinni á síðustu milljónum ára hafa ekki getað orðið vegna aðgerða mannsins og því erfitt að sjá að maðurinn sé orðinn stjórnandi veðurs á jörðinni.

Sjónvarpsþáttur þessi er mjög athyglisverður með viðtölum við fjölda vísindamanna sem allir telja að fara þurfi varlega í fullyrðingar um áhrif mannsins og gjörða hans á veðurfarið. Fram kemur í viðtölum við vísindamennina að miklar veðurfarssveiflur geta orðið á nokkrum áratugum og hafi orðið án aðstoðar mannsins í gegnum hundruð þúsunda ára.

Það verður því að teljast hættulegt það ramakvein sem komið hefur frá sjálfskipuðum spekingum um að maðurinn sé orsakavaldur að hlýnun jarðar þegar engar sannanir liggja fyrir um hættulegar gjörðir mannsins. Er þetta ramakvein spekinganna farið að hafa áhrif á börn er óttast framtíð sína vegna ósannra frásagna spekinganna.

Ef sjónvarpið fæst til að sýna þennan þátt frá árunum 1998-2000 ætti það að vera skylduverkefni í skólum að börn horfi á hann ef það minnkaði ótta þeirra gagnvart þeirri „hamfarahlýnun“ sem spekingarnir hafa blásið upp.

Þessi orð eiga ekki að minnka varnaðarorð er varðar bætta umgengni mannsins á jörðinni en subbugangur mannsins með dreifingu á rusli er óviðunandi. Er full ástæða til að hvetja til betri umgengni.

Höfundur er fv. skipstjóri.

Höf.: Kristján Guðmundsson