Það er til marks um á hve háu stigi Manchester City og Liverpool hafa leikið á þessu tímabili og flestum undanförnum tímabilum þegar manni líður sem titilbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hafi lokið endanlega um síðustu helgi þegar...
Það er til marks um á hve háu stigi Manchester City og Liverpool hafa leikið á þessu tímabili og flestum undanförnum tímabilum þegar manni líður sem titilbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hafi lokið endanlega um síðustu helgi þegar Liverpool gerði jafntefli við Tottenham og Man. City vann stórsigur á Newcastle.

Man. City er nú með þriggja stiga forskot á toppnum þegar þremur umferðum er ólokið. Á blaði ætti því sannarlega allt að vera galopið ennþá. Tilfinningin er þó sú að Man. City muni ekki fatast flugið úr þessu.

Einhverjum þótti líklegt að leikmenn Man. City myndu láta vonbrigðin yfir því að vera slegnir úr leik af Real Madríd í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á sig fá en það var svo sannarlega ekki að sjá í 5:0-sigri á Newcastle á sunnudag.

Þvert á móti virðast þeir bláklæddu ætla að breyta vonbrigðunum í hvatningu til þess að vinna eina titilinn sem þeim stendur til boða á tímabilinu.

Ég átta mig á því að allt getur gerst í fótbolta eins og sást þegar Real Madríd vann ótrúlegan endurkomusigur á Man. City í Meistaradeildinni en liðin sem liðið á eftir að leika gegn í ensku úrvalsdeildinni búa ekki yfir töframönnum á við Karim Benzema, Vinícius Jr. og Rodrygo, sem geta breytt tapi í sigur á augabragði.

Ætli við fáum að sjá endurtekið efni frá árinu 2019? Þá var Liverpool í eltingaleik við Man. City sem stóð uppi sem Englandsmeistari. Á sama tíma komst Liverpool í úrslit Meistaradeildarinnar og vann hana. Það skyldi þó aldrei vera.