[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Serbneski körfuboltamaðurinn Nikola Jokic hjá Denver Nuggets er leikmaður ársins í bandarísku NBA-deildinni annað árið í röð.

*Serbneski körfuboltamaðurinn Nikola Jokic hjá Denver Nuggets er leikmaður ársins í bandarísku NBA-deildinni annað árið í röð. Þetta hefur ekki verið gefið formlega út en ESPN skýrir frá þessu í dag og segir að deildin muni tilkynna um útnefninguna á næstu dögum. Jokic er með enn betri tölfræði en á síðasta tímabili en hann skoraði 27,1 stig að meðaltali í leik fyrir Denver í vetur og tók 13,8 fráköst að meðaltali. Þá átti hann 7,9 stoðsendingar að meðaltali. Þá varð Jokic fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til að skora 2.000 stig, taka 1.000 fráköst og eiga 500 stoðsendingar á sama tímabilinu. Denver fór lengra en reiknað var með, náði sjötta sæti í Vesturdeildinni og fór beint í úrslitakeppnina þar sem liðið tapaði að lokum 4:1 fyrir Golden State Warriors í fyrstu umferðinni.

*Körfuboltamaðurinn reyndi Collin Pryor hefur samið við ÍR-inga um að leika áfram með þeim á næsta tímabili, sem verður hans þriðja með liðinu. Hann er bandarískur að uppruna en hefur leikið hér á landi í átta ár, er orðinn íslenskur ríkisborgari fyrir nokkru og á fjóra landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.. Collin lék áður með Stjörnunni, Fjölni og FSu.

*Handknattleiksmaðurinn Ísak Rafnsson hefur komist að samkomulagi við ÍBV um að leika með liðinu næstu þrjú tímabil. Ísak kemur frá uppeldisfélagi sínu FH, þar sem hann hefur leikið allan sinn feril fyrir utan tímabilið 2018/2019 þegar hann lék með Schwaz í Austurríki. Hann hefur verið einn sterkasti varnarmaður deildarinnar undanfarin ár.

*Handknattleiksþjálfarinn sigursæli Bengt Johansson er látinn, 79 ára að aldri, eftir erfið veikindi en hann glímdi við parkinsonsjúkdóminn frá 2018. Bengan, eins og hann var kallaður í Svíþjóð, stýrði karlalandsliði Svía á besta tíma þess í sögunni, í sextán ár frá 1988 til 2004. Á þeim tíma varð liðið fjórum sinnum Evrópumeistari og tvisvar heimsmeistari, ásamt því að fá þrisvar silfurverðlaun á Ólympíuleikum. Sjálfur lék Bengan með sænska landsliðinu á árunum 1964 til 1972.

*Landslið Argentínu og Brasilíu í fótbolta þurfa að mætast aftur í Brasilíu í undankeppni HM karla í fótbolta. Liðin áttu að mætast 5. september á síðasta ári en leikurinn var aðeins sex mínútna gamall þegar hann var stöðvaður af brasilískum lögregluþjónum sem vildu vísa fjórum leikmönnum Argentínu úr landi þar sem þeir uppfylltu ekki reglur vegna kórónuveirunnar í landinu. FIFA hefur ekki gefið út hvenær leikurinn verður spilaður en báðar þjóðir hafa þegar tryggt sér sæti á lokamóti HM í Katar.

* Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur keppir á sínu fyrsta móti erlendis í tæp tvö ár þegar hún tekur þátt í Jabra Ladies Open-mótinu í Evian í Frakklandi 19. til 21. maí en það er liður í Evrópumótaröðinni. Ólafía og eiginmaður hennar Thomas Bojanowski eignuðust sitt fyrsta barn síðasta sumar. Ólafía sagði við golf.is í gær að það væri ekkert grín að byrja á Evian-vellinum eftir svona langt hlé því hann væri virkilega erfiður og krefjandi keppnisvöllur. Guðrún Brá Björgvinsdóttir keppir einnig á mótinu en hún hefur verið með á flestöllum mótum í mótaröðinni það sem af er þessu ári.

* Guðni Valur Guðnason kringlukastari úr ÍR hafnaði í öðru sæti á alþjóðlegu móti í Örbyhus í Svíþjóð í gær. Guðni kastaði kringlunni 62,84 metra og aðeins Simon Pettersson, silfurverðlaunahafinn á síðustu Ólympíuleikum, gerði betur en hann kastaði 63,86 metra. Þriðji varð Sven Martin Skagestad frá Noregi með rúma 60 metra. Þessir þrír mætast allir á Selfoss Classic, alþjóðlega mótinu á Selfossvelli, 28. maí.

* Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir úr ÍR varð um helgina svæðismeistari háskóla í sleggjukasti í Richmond í Virginíu þegar hún sigraði í greininni með 59,55 metra kasti. Það er næstlengsta kast hennar á ferlinum. Guðrún fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur nýliða á mótinu. Guðrún, sem er tvítug, er á fyrsta ári í Virginia Commonwelth-háskólanum og náði þar sínum besta árangri í aprílmánuði þegar hún kastaði 60,14 metra, sem er skólamet. Hún er þriðji besti sleggjukastari Íslands í kvennaflokki frá upphafi en aðeins Elísabet Rut Rúnarsdóttir , 64,39 metrar, og Vigdís Jónsdóttir , 63,44 metrar, hafa náð betri árangri í greininni.

* Gunnar Gunnarsson var í gær ráðinn þjálfari kvennaliðs Gróttu í handknattleik til næstu þriggja ára en honum var sagt upp sem þjálfara kvennaliðs Hauka í fyrrakvöld. Gunnar þjálfaði áður kvennalið Gróttu á árunum 1998 til 2002, með góðum árangri, og hann tekur nú við því af Kára Garðarssyni .