Tveir áratugir liðnir og fátt breyst til batnaðar, nema síður sé, í bandalagi um stöðnun

Skuldakrísan mikla í Evrópusambandinu árið 2011 er í fersku minni, enda varð mörgum ekki svefnsamt þar um langa hríð. Hver „neyðarfundurinn“ eftir annan með „æðstu mönnum ESB“ var boðaður og stóð iðulega fram á miðja nótt. Litlu leiðtogarnir voru tímunum saman við fundarborðið, en kanslari Þýskalands og forseti Frakklands sátu á lokuðum fundum annars staðar.

Rétt eins og þá hefur tryggingaálag á skuldabréf sumra þjóða ESB nú hækkað í stökkum. En önnur breyting, sem örlaði ekki á þá, er að verðbólgan hefur þotið upp í nærri 8% í evrulöndum og Bandaríkjunum. Vextir hafa ekki elt verðbólguna eða skotist upp fyrir hana, sem oft er talin þrautalækningin. Þeir eru enn í kringum núllið í Evrópu og fikra sig upp vestra. Ríkisstjórn Bidens lýsti því strax yfir, er verðbólgan skrúfaði sig upp, að þetta væri aðeins stundarfyrirbæri sem óþarft væri að beita vaxtalegu aðhaldi. Powell seðlabankastjóri tók undir það. En nú eru að renna tvær grímur á báða, því að ekkert lát er á. Og bent er á að sá hluti af stjórnarstefnu forsetans og þingsins að láta prenta dollarafjöll og láta dreifa úr þeim í „verðug verkefni“ er allur eftir. Því þótt búið sé að samþykkja gjörninginn er framkvæmdin komin skammt á veg. Þegar ofurprentun peninga og dreifing verður komin á fulla ferð mun það fljótt ýta undir enn óhagfelldari verðbólguþróun. Það gæti leitt til þess að forsetinn yrði að gefa Powell seðlabankastjóra bendingu um að reyna að draga úr áhrifum „góðverksins“, peningaprentunarinnar, með því að hækka vexti svo að um munaði. Óljóst er hvort hægri höndin vestra viti hvað sú vinstri er að gera, en það er einmitt hún sem hefur slegið mest um sig eftir að Biden datt inn í Hvíta húsið.

Sagt er að „dúfur“ fari nú fyrir seðlabanka evrunnar og haldi vöxtum enn við núllið og gefi lítt eftir við peningaprentun, þótt orðað sé að slíku verði að linna sem fyrst. Stundum var því haldið til haga að stórríki ESB hafi verið fjögur, Þýskaland, Frakkland, Bretland og Ítalía, vagga sambandsins og Rómarsáttmálans. En um leið var hvíslað að helstu áhrifalönd ESB væru, þegar á reyndi, bara eitt, Þýskaland. Frakkar töldu slíkt tal mikla ögrun við sína virðingu en það er talið mikilvægt verkefni að halda utan um hana. En raunsæismenn benda á að margt sé breytt. Bretar hafi loks sloppið við illan leik úr ESB eftir að þjóðin gaf fyrirmæli um það. Ekki vantaði að þeir þar í landi, sem selt höfðu sál sína og hollustu til Brussel, gerðu ekki allt sem þeir máttu, og það sem þeir máttu alls ekki, til að eyðileggja ákvörðun þjóðarinnar. En svikahrappar urðu undir, þótt litlu hafi munað. Enda gerðu „stóru samstarfsþjóðirnar“ allt til að eyðileggja ákvörðun sjálfstæðrar þjóðar. Litlu ríkin, sem eftir sitja, horfðu sem þrumu lostin á ósköpin, og gerðu sér nú grein fyrir því, að þau fá engu ráðið um slík örlög sín, fyrst sáralitlu munaði að vilji bresku þjóðarinnar gengi eftir.

En af fyrrnefndum fjórum „stórþjóðum“ hefur Ítalía óþægilega stöðu. Hún hefur í tvígang þurft að sæta þeirri auðmýkingu að fá sendan forsætisráðherra frá Brussel í pósti sem svo hefur farið fyrir stjórn tæknikrata, eins og það er kallað. Fyrstur var sendur Mario Monti, einn af kommisserum í Brussel árið 2011, er skuldakreppan skall á. Hann sat í tvö ár. Átta árum síðar sendi Brussel Mario Draghi til að vera forsætisráðherra í Róm, en hann hafði verið seðlabankastjóri evrunnar frá 2011 til 2019. Hann mun ekki geta setið lengur en fram á mitt næsta ár, því að þá verður orðið óhjákvæmilegt að halda kosningar. Því eins og A.E. Pritchard bendir á, í athyglisverðri grein í The Telegraph, þá „hefur Brussel ekki enn fundið leið til að losa sig alfarið við kosningar á Ítalíu“.

Eins og staðan er nú virðist augljóst að þrír flokkar hægra megin við miðju munu sameiginlega verða sigurvegarar næstu kosninga á Ítalíu. Flokkurinn Bræður Ítalíu, undir forystu Meloni, verður stærstur með 22% atkvæða, Norðurbandalagið, sem Matteo Salvini stýrir, er með 15% atkvæða og flokkur Berlusconis er með 11% atkvæða. Kosningakerfi landsins tryggir þessum flokkum traustan meirihluta verði þetta úrslitin. Það er svo einkar skemmtilegt afbrigði að Gerogia Meloni, sem er formaður Bræðra Ítalíu, er reyndar myndarleg og röggsöm kona! Allir leiðtogarnir þrír hafa illan bifur á ESB. En eins og vindar blása nú til fjárhagslegra efna á Ítalíu er ekki líklegt að þeir telji að nú sé besti tíminn til að sleppa úr evrunni, og hvað þá að losna algjörlega úr ESB-fangavistinni eins og þeir vilja helst.