Gyða Huld Björnsdóttir fæddist á Sauðárkróki 13. apríl 1937. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lundi, Hellu, 27. apríl 2022. Foreldrar hennar voru Björn Guðmundsson frá Reykjarhóli í Seyluhreppi, f. 28. maí 1911, d. 20. júní 1979, og Ingibjörg Þorvaldsdóttir Hillers frá Sauðárkróki, f. 14. maí 1918, d. 7. maí 2005.

Systkini Gyðu eru: samfeðra Bryndís, f. 1945, sammæðra Ómar Hillers, f. 1942, Úlla Hillers, f. 1947, Úlfar Hillers, f. 1953, og Karl Hillers, f. 1954

Árið 1957 kynntist Gyða eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóni Ágústssyni, húsasmíðameistara á Selfossi, f. 7. júlí 1936, þau gengu í hjónaband 28. mars 1959. Þau bjuggu mestallan sinn búskap í Réttarholtinu á Selfossi. Börn þeirra eru: 1) Björn Hansen, f. 1956, sem Jón gekk í föðurstað, kvæntur Eddu Haraldsdóttur, f. 1958, börn þeirra eru: Margrét Huld, f. 1978, og Haraldur Rafn, f. 1981. 2) Ingibjörg, f. 1960, gift Ragnari Aðalsteinssyni, f. 1960, dætur þeirra eru: Ragnheiður Gyða, f. 1988, og Katrín Rós, f. 1989. 3) Sigrún, f. 1969. 4) Ágúst Þór, f. 1973, kvæntur Huldu Stefánsdóttur, f. 1977, synir þeirra eru: Stefán Þór Sigtýr, f. 2001, og Ágúst Jón, f. 2007. 5) Örvar Þór, f. 1975. Langömmubörnin eru alls fimm.

Útför Gyðu fór fram í Selfosskirkju 6. maí 2022 í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Komið er að kveðjustund og ótal minningar koma upp í hugann.

Þú varst einstök kona og hugsaðir alltaf svo vel um okkur fjölskylduna þína. Alltaf var hægt að leita til þín ef eitthvað var. Þú varst mikil hannyrðakona og nutum við öll góðs af því, allar fallegu peysurnar sem þú prjónaðir á strákana með hinum ýmsu fígúrum sem voru í uppáhaldi í hvert skipti. Vettlingapörin sem skiptu tugum, já vettlingarnir hennar ömmu voru alltaf bestir. Allt sem þú prjónaðir og gafst frá þér lagðir þú svo mikla alúð og metnað í, hver lykkja var úthugsuð. Ekki varstu síðri þegar kom að bakstri. Oftar en ekki töfraðir þú fram veisluborð þegar við kíktum við og var alltaf vinsælast að fá pönnukökurnar hennar ömmu Gyðu, nú eða grjónagrautinn sem var alltaf bestur hjá þér. Þú varst oft hrókur alls fagnaðar, hlustaðir mikið á tónlist og söngst með strákunum okkar, þá var sko mikið fjör. Óhætt er að segja að þú hafir haft góðan húmor og sagðir oft svo skemmtilegar sögur sem við gátum hlegið að endalaust, líka í annað skiptið. Þú varst líka hrein og bein og sagðir alltaf það sem þú meintir.

Söknuður okkar er mikill en eftir standa minningar um yndislega konu sem við munum varðveita í hjörtum okkar.

Kærar þakkir fyrir samfylgdina og allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman, elsku mamma, tengdamamma og amma. Guð geymi þig og varðveiti.

Þín,

Ágúst (Gústi), Hulda, Stefán Þór Sigtýr og Ágúst Jón.

Mig langar að minnast móður minnar, hennar Gyðu Huldar. Það er af mörgu að taka þegar hugurinn reikar yfir árin. Það sem ég vissi alltaf fyrir víst var að ef ég þurfti á hjálp að halda þá var mamma alltaf til staðar fyrir mig, tilbúin að leiðbeina mér og gefa mér góð ráð. Nú er bara að reyna að fara yfir allt það sem stendur upp úr. Þar sem lífið hefur boðið mér upp á tækifæri í öðrum löndum verð ég að segja að það stendur upp úr þegar mamma og pabbi komu að heimsækja mig þegar ég bjó í Bandaríkjunum árið 1993 til 1994. Það var margt brallað í þeirri heimsókn og komum við víða við. Meðal annars fórum við til New York yfir helgi og mikið skoðað þar í borg. Ég man eitt kvöldið þegar við komum heim að mamma sagði að núna gæti hún slakað á því að við værum komin á öruggan stað og það væri dyravörður að passa okkur, svo hló hún við. Svo voru það allar ferðirnar sem hún og pabbi komu til mín á meðan ég bjó á Húsavík. Það var alltaf gott að koma suður í heimsókn þau ár sem ég bjó fyrir norðan. Oft fórum við mamma bara tvær til Reykjavíkur til að gera okkur glaðan dag og lifa þær ferðir vel í minningunni. Svo má nú ekki gleyma öllum sundferðunum hérna á Selfossi og ferðunum út í Hveragerði til að njóta sundaðstöðunnar á heilsuhælinu. Þetta er bara brot af öllum þeim góðu minningum sem við áttum saman sem munu lifa með mér um ókomna tíð.

Þessir síðustu mánuðir hafa verið mér erfiðir þar sem ég er langt í burtu búandi í Kanada. En með allri tækninni sem við höfum í dag gat ég verið auðveldlega í sambandi heim og talað reglulega við mömmu í mynd, það gerði fjarlægðina á milli okkar ekki eins mikla. Núna síðustu mánuðina eru þessi samtöl mér mjög dýrmæt.

Elsku mamma, hvíldu í friði og minning þín lifir í mínu hjarta.

Þín

Sigrún.

Nú kveðjum við Gyðu móðursystur okkar en hún var einstök kona. Við munum vel eftir því alveg frá því við vorum börn að hún mundi alla hluti og skrifaði mikið hjá sér hvenær hvað gerðist og ef mömmu vantaði upplýsingar um liðna atburði þá var Gyða með svörin fyrir hana. Við fórum mörg sumur í heimsókn til Gyðu, Jóns og krakkanna. Það var alltaf mikil tilhlökkun að fara á Selfoss þótt ferðalagið hafi verið langt frá Akureyri. Þar áttum við góðar stundir og ljúfar minningar enda Gyða einstaklega gestrisin og bauð upp á kræsingar og veislumat á hverjum degi. Þótt Gyða væri ákveðin kona þá var alltaf stutt í húmorinn og hláturinn hennar smitandi. Það var alla tíð hægt að treysta á Gyðu og allt pottþétt í kringum hana. Hún var umhyggjusöm og hringdi alltaf á afmælisdaginn okkar og sýndi mikinn áhuga á því sem var að gerast í okkar lífi. Gyða var ein af þeim konum sem við litum upp til og það var yndislegt að sjá og heyra hvað sambandið milli hennar og Ragnheiðar ömmu okkar, stjúpmóður hennar, var einstakt.

Gráttu ekki

yfir góðum

liðnum tíma.

Njóttu þess heldur

að ylja þér við minningarnar,

gleðjast yfir þeim

og þakka fyrir þær

með tár í augum,

en hlýju í hjarta

og brosi á vör.

Því brosið

færir birtu bjarta,

og minningarnar

geyma fegurð og yl

þakklætis í hjarta.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Hvíl í friði elsku Gyða.

Ragnheiður og Þórdís.

Nú höfum við fylgt Gyðu Huld síðasta spölinn og mig langar að minnast hennar með örfáum orðum.

Ég kynntist Gyðu þegar Hulda systir mín fór að vera með Ágústi syni hennar. Ég og fjölskyldan mín vorum eftir það tíðir gestir hjá þeim á Selfossi og í hvert sinn sem við vorum þar heimsóttum við eða hittum Gyðu og Jón sem tóku ávallt vel á móti okkur með glæsilegum veitingum og skemmtilegum samræðum.

Gyða hafði einstaka hæfileika í höndunum og allt sem datt af prjónunum hjá henni voru gullfalleg listaverk þar sem hver lykkja var úthugsuð og prjónuð af alúð. Gyða var örlát á handverk sitt og við fjölskyldan nutum svo sannarlega góðs af hæfileikum hennar. Þegar við hjónin giftum okkur færði hún okkur glæsilegustu prjónasokka sem ég hef séð með skemmtilegri ræðu og dansaði svo með okkur fram á nótt. Þegar við eignuðumst strákana okkar þá sá Gyða, sem ég kallaði aukaömmu þeirra, til þess að þeir eignuðust einstakt handverk; prjónasett, peysur og sokka. Þá þótti mér sérstaklega vænt um það þegar við bjuggum erlendis að þá hélt Gyða í þá hefð að senda okkur fjölskyldunni jólakort, þéttskrifuð með helstu fréttum ársins.

Því miður höfðum við fjölskyldan ekki getað hitt Gyðu nýlega en við varðveitum góðar minningar um elskulega, skemmtilega, duglega og góða konu í hjörtum okkar.

Kærar þakkir fyrir samfylgdina frú Gyða, megi guð geyma þig og varðveita.

Elsku Jón, Gústi, Hulda, Stefán Þór, Sigtýr, Ágúst Jón, Björn, Ingibjörg, Sigrún, Örvar og fjölskyldur, megi minningar um ástkæra eiginkonu, móður og ömmu ylja og lifa í hjörtum ykkar um ókomin ár.

Rannveig Stefánsdóttir og fjölskylda.