Hallfríður Hólmgrímsdóttir.
Hallfríður Hólmgrímsdóttir.
„Við fórum aldrei í neina kosningabaráttu. Við fórum meira í það að kynna okkur hvað það væri sem bæjarbúar vildu og tókum þetta samtal út um allan bæ.

„Við fórum aldrei í neina kosningabaráttu. Við fórum meira í það að kynna okkur hvað það væri sem bæjarbúar vildu og tókum þetta samtal út um allan bæ.“

Þetta segir Hallfríður Hólmgrímsdóttir, oddviti Miðflokksins í Grindavíkurbæ, í samtali við Morgunblaðið þegar hún er spurð hvað skýri kosningasigur þeirra.

Flokkurinn fékk 32,4% greiddra atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa og felldi þannig meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Í síðustu kosningum árið 2018 hlaut flokkurinn 13,6% atkvæða.

Hallfríður segir flokkinn hafa starfað vel í meirihluta, þrátt fyrir að hafa einungis haft einn bæjarfulltrúa. Hún telur frammistöðu þeirra þar hafa stuðlað að þessum kosningasigri. Nefnir hún sérstaklega að flokkurinn hafi barist fyrir málefnum eldri borgara og einnig gegn því að laun bæjarfulltrúa yrðu hækkuð.

Ræða við Framsókn

Í samtali við Morgunblaðið segir Hallfríður að viðræður við Framsóknarflokkinn séu hafnar, þær séu þó ekki komnar langt á veg.

Hún segir að rökréttast hafi verið að heyra í þeim þar sem flokkurinn hafi bætt við sig fylgi, en flokkurinn fór 13,8% í 20,2%. Þrátt fyrir þá fylgisaukningu bætir flokkurinn ekki við sig fulltrúa.

Hallfríður vonast til að flokkurinn nái að mynda meirihluta sem fyrst. „Við þurfum auðvitað að fara hratt og örugglega í þessa vinnu. Hér skelfur jörð þannig að við vitum ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég held að okkur sé ekki stætt á því að vera draga þetta mikið.“

Spurð hvort það sé ekki óþægilegt fyrir flokkinn að fara í samstarf með Framsóknarflokknum þar sem Miðflokkurinn sé klofningsframboð frá honum og mikil átök hafi átt sér stað á sínum tíma segir Hallfríður að henni finnist allir eiga að geta unnið með öllum. ingathora@mbl.is