Dómsmálaráðuneytið leggur Slysavarnafélaginu Landsbjörg til 115 milljóna króna styrk til eflingar á sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík.
Fram kemur á heimasíðu ráðuneytisins, að styrknum verði skipt þannig að 76,5 milljónum króna sé veitt til kaupa á björgunarbát á Flateyri og 38,5 milljónum veitt í kaup á björgunarbát á Húsavík. Þetta sé gert með hliðsjón af fenginni reynslu og þarfagreiningu á staðsetningu björgunarskipa og -báta. Markmiðið sé efling á sjóbjörgunargetu á miðunum við landið en einnig að tryggja öryggi íbúa á Flateyri við þær aðstæður sem geta skapast vegna ofanflóðahættu.
Ráðuneytið segir að í snjóflóðunum á Flateyri í ársbyrjun 2020 hafi engar leiðir verið færar til sjúkra- eða aðfangaflutninga nema sjóleiðina inn Önundarfjörð. Með því að hafa björgunarbát á Flateyri verði hægt að sigla með sjúklinga eða aðföng inn og út Önundarfjörð.
Bátarnir verða af gerðinni Rafnar 1100 PRO SAR og eru framleiddir af samnefndu íslensku fyrirtæki. Björgunarbátarnir verða eign Slysavarnafélagsins Landsbjargar en félagið gerir samninga um afnot björgunarbátanna við björgunarsveitirnar Sæbjörg á Flateyri og Garðar á Húsavík. Landsbjörg skuldbindur sig til þess að tryggja staðsetningu björgunarbátsins á Flateyri í a.m.k. 15 ár eða þar til fullnægjandi snjóflóðavörnum hefur verið komið fyrir og samgöngur til og frá Flateyri teljast viðunandi samanborið við aðra staði á Vestfjörðum.