Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Fimm sveitarfélög á landinu munu skarta nýjum nöfnum á næstunni. Sveitarfélögin hafa orðið til með sameiningum að undanförnu. Kosið var rafrænt um nafn á tveimur þeirra fyrr í mánuðinum og í tveimur tilfellum var kosið um nafn nú á laugardag.
Skagafjörður verður að öllum líkindum nafn hins nýja sveitarfélags sem varð til með sameiningu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps. Samhliða sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn gátu kjósendur í sveitarfélaginu kosið um nafn. Hægt var að velja á milli þriggja nafna en kosningin er kölluð leiðbeinandi fyrir nýja sveitarstjórn.
Þrjár mismunandi byggðir stóðu kjósendum til boða
Nafnið Skagafjörður fékk 1.110 atkvæði og niðurstaðan var afgerandi þótt einnig hafi margir verið hlynntir nafninu „Sveitarfélagið Skagafjörður“, sem fékk 852 atkvæði. Hegranesþing átti ekki upp á pallborðið hjá þeim sem mættu á kjörstað og fékk einungis 76 atkvæði. Jafn margir eða 76 skiluðu auðu.Önnur sameining varð nýlega í þessum landshluta sem áður tilheyrði Norðurlandskjördæmi vestra, þar sem íbúar á Blönduósi og í Húnavatnshreppi kusu einnig um nafn á sameinuðu sveitarfélagi.
Húnabyggð varð fyrir valinu en 443 greiddu atkvæði með nafninu. 144 kusu nafnið Blöndubyggð en Húnavatnsbyggð fékk 53 atkvæði.
Kosið hafði verið rafrænt
Tvö önnur nöfn liggja fyrir í nýjum sveitarfélögum. Íbúar í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit völdu nafnið Þingeyjarsveit fyrir sameinað sveitarfélag. Var það gert í rafrænni könnun en þrír aðrir valmöguleikar voru í boði: Goðaþing, Laxárþing og Suðurþing. Nýrri sveitarstjórn verður falið að taka ákvörðun.Langanesbyggð og Svalbarðshreppur sameinuðust og þar fór einnig fram rafræn könnun fyrr í mánuðinum. Flestir kusu nafnið Langanesbyggð en einnig var hægt að velja Langanes eða Norðausturbyggð. Stykkishólmsbær og Helgafellssveit sameinuðust en þar var ekki kosið um nýtt nafn samhliða sveitarstjórnarkosningunum. Ríkisútvarpið hefur haft eftir Hrafnhildi Hallvarðsdóttur, forseta bæjarstjórnar, að líklega verði farið í að safna hugmyndum í upphafi kjörtímabilsins sem er að fara í hönd.