Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson
Eftir Hauk Viðar Alfreðsson: "Hvernig má það vera að söluþóknun til fasteignasala á hverja selda eign sé jöfn útgreiddum mánaðarlaunum forstjóra?"

Fasteignaverð hefur hækkað gífurlega á seinustu árum og er því skiljanlega mikið í umræðunni. Ég hef þó ekki séð neina umfjöllun um söluþóknanir fasteignasala sem einhverra hluta vegna hækka með fasteignaverði án þess að vinnuframlag fasteignasala aukist. Þannig kostar skyndilega mun meira að selja sama húsnæði árið 2022 heldur en það gerði 2019, hækkun sem er langt umfram verðbólgu og almenna launaþróun. Rýnum aðeins í tölurnar það sem af er ári:

• Meðal söluþóknun fasteignasala er um 2,2% í einkasölu en 2,7% í almennri sölu. Við það bætast föst gjöld sem seljendur og kaupendur þurfa að greiða fasteignasalanum, samtals að meðaltali 136.500kr. 1 ) 2 ) .

• Meðalkaupverð á eign í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu var 63,6 m.kr. og meðalstærð 97m 2 . Meðalkaupverð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu var 115,3 m.kr og meðalstærð tæpir 207m 2 3 ) .

Af þessu má ráða að meðalheildarsöluþóknun fasteignasala fyrir sölu á eign í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sé rúmlega 1,5 milljón krónur eða um 15.700 kr. á hvern seldan fermetra! Fyrir sölu á sérbýli er staðan lítið betri, meðalsöluþóknun er um 2,65 milljónir króna sem gera 12.800 kr. á fermetra. Jafnvel ef litið er á landið í heild er söluþóknunin tæplega 14.000 kr. á fermetra í fjölbýli og 10.000 kr. í sérbýli. Athugið að hér er miðað við eignir í einkasölu en ef salan væri almenn væru þessi verð umtalsvert hærri.

Hvernig má það vera að söluþóknun til fasteignasala á hverja selda eign sé jöfn útgreiddum mánaðarlaunum forstjóra? Að söluþóknunin sé slík að ef hægt væri að stunda viðskiptin án fasteignasala væru hægt að skipta um öll gólfefni í húsinu og jafnvel innréttingar fyrir sama verð. Raunar er söluþóknunin slík að fasteignasalinn tekur til sín um einn fjórða af útborgun fyrstu kaupenda 4 ) . Mánaða- eða árasparnaði bíttað fyrir nokkurra klukkustunda vinnu. Ef marka má fréttir seinustu mánaða þá er framboð eigna til sölu mjög takmarkað og því mætti ætla að fasteignasalar myndu keppast um viðskipti með lágum söluþóknunum. Hér virðist lögmál hins frjálsa markaðar þó ekki vera á neinni hraðferð að minnsta kosti.

1)Almennt eru söluþóknanir gefnar upp án VSK og þá eru meðaltölin um 1,75%, 2,2% og 110.000kr. Fyrir almenna umræðu liggur þó beinna við að nota upphæðir með VSK þar sem almenningur greiðir það verð.

2)Heimild: Allt fasteignasala, Ás fasteignasala, Borg, Consensa, Eignamiðlun, Eignaver fasteignasala, Fasteignasala Sævars Þórs, Gimli, Heimili, Landmark, Lind fasteignasala, Miklaborg fasteignasala, Nýtt heimili og RE/MAX.

3)Heimild: Þjóðskrá: https://verdsja.skra.is/#/kaupverd

4)Meðalfjölbýlisíbúð á höfuðborgarsvæðinu kostar rúmar 60 m.kr. Tíu prósent útborgun er þá um 6 m.kr. en greiðslur til fasteignasala um 1,5 m.kr.

Höfundur er doktorsnemi í hagfræði. haukurvidaralfredsson@gmail.com

Höf.: Hauk Viðar Alfreðsson