Sauðburður að fara í gang Ærin Dökkbrá fylgist með fimmlembingunum sínum í fangi Úlfars Þórðarsonar, bónda og Kristínar Heimisdóttur.
Sauðburður að fara í gang Ærin Dökkbrá fylgist með fimmlembingunum sínum í fangi Úlfars Þórðarsonar, bónda og Kristínar Heimisdóttur. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Sprækir fimmlembingar komu í heiminn í fjárhúsinu á Syðri-Brekkum á Langanesi í síðustu viku, allt hrútar og alveg jafn stórir.

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Sprækir fimmlembingar komu í heiminn í fjárhúsinu á Syðri-Brekkum á Langanesi í síðustu viku, allt hrútar og alveg jafn stórir. Móðirin er hin frjósama Dökkbrá og hafði hún í nógu að snúast við að annast og fæða þessa fimm kröfuhörðu stráka, sem eru kröftugir og pattaralegir og þurfa sitt.

Úlfar Þórðarson bóndi á Syðri-Brekkum sagðist hafa búist við fjórlembingum frá Dökkbrá samkvæmt fósturtalningu en það er lengi von á einum.

„Lömbin eru vel á sig komin og frísk en það er heldur mikið fyrir ána að næra fimm lömb, hún verður fegin því að minnka hópinn,“ sagði Úlfar bóndi sem hyggst venja tvö af lömbunum undir aðra kind til fósturs.

Sauðburður er bara rétt að fara í gang á Syðri-Brekkum og hefur gengið vel en á bænum eru rúmlega 300 fjár. Vonandi verður komin betri tíð þegar kemur að því að hleypa lambfénu út en hér fyrir norðan hefur gengið á með slyddu, snjókomu og kalsaveðri og mikill snjór er á heiðum. Þótt úti ríki sannkallað lambahret er notalegt inni í hlýju fjárhúsinu þar sem ekki væsir um vel alið sauðféð og nægar birgðir til af góðu fóðri.