Baksvið
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Fyrir kosningar bollaleggja allir áhugamenn um stjórnmál hvernig þær fari og rökstyðja það gjarnan með tilvísun til reynslu, skoðanakannana og eigin hyggjuvits. Eftir kosningar setjast þeir svo við að útskýra af hverju þær fóru öðruvísi en spáð hafði verið.
Þetta var raunin nú sem áður, en þar var eitt helsta leiðarstefið að Bankasýslumálið myndi tæta fylgi af Sjálfstæðisflokknum um allar trissur. Ekki er að efa að það hafði áhrif á kosningabaráttuna, en af mjög mismunandi árangri flokksins eftir sveitarfélögum er hæpið að halda því fram að það eitt hafi þjakað flokkinn á landsvísu.
Fylgi dvín á höfuðborgarsvæði
Í Reykjavík sagði Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, að málið hafi eilítið þvælst fyrir framboðinu. Þegar litið er á höfuðborgarsvæðið má hins vegar finna ýmsar veigameiri og staðbundnari skýringar þar sem sjálfstæðismönnum gekk verr en þeir vonuðust til.
Fyrst er til að taka að í þeim sveitarfélögum voru alls staðar nema í Hafnarfirði nýir oddvitar í framboði, sem fyrir vikið voru óþekktari stærðir. Við bætist að í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ drógu þeir, sem lutu í lægra haldi í prófkjörsbaráttu um efsta sætið, sig af framboðslista, sumir snerust öndverðir gegn framboðinu og einn tók að sér að leiða annað framboð.
Þá kom í Kópavogi fram nýtt þverpólitískt framboð, sem hafði sín áhrif, en í Garðabæ bauð Viðreisn fram í fyrsta sinn og uppskar sama fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn tapaði. Í Hafnarfirði minnkaði fylgi sjálfstæðismanna lítillega, sem e.t.v. varð meira áberandi vegna frækilegs árangurs Guðmundar Árna Stefánssonar í Samfylkingunni. Loks verður að geta Seltjarnarness, þar sem flokkurinn bætti við sig (minna þó en búast mátti við eftir að klofningsframboð 2018 dagaði uppi) og eins má spyrja hvort fylgisaukning í Reykjanesbæ, Fjarðabyggð, Dalvíkurbyggð, Árborg, Vogum, Ölfusi, Hrunamannahreppi og Hornafirði sé til tákns um stórpólitíska strauma.
En það er líka eftirtektarvert að alls staðar á höfuðborgarsvæðinu nema í Mosfellsbæ héldu meirihlutar Sjálfstæðisflokksins. Þar hafði harðvítugt prófkjör og eftirmál mikið að segja, en það skapaði um leið glufu fyrir Framsókn, glufu sem varð að gjá þegar Framsókn fékk öllum að óvörum 32,2% atkvæða og 4 fulltrúa, en í síðustu kosningum fékk hún 2,9% og engan fulltrúa.
Leiftursókn Framsóknar í öðrum sveitarfélögum náði ekki viðlíka hæðum, en varla leikur vafi á að hún hafði víða áhrif á gengi Sjálfstæðisflokksins og sótti fylgi í raðir fyrri kjósenda hans.
Fyrir því eru vafalaust mismunandi ástæður eftir sveitarfélögum og þó að Bankasýslumálið hafi spilað inn í hefur það tæplega eitt og sér dugað til.
Dágóð staða á landsvísu
Sé litið á gengi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu má sjá að þrátt fyrir að fylgið hafi víða dvínað frá 2018, ekki síst í fjölmennustu sveitarfélögunum, þá er það engin regla.
Af þeim flokkum sem eru á þingi býður Sjálfstæðisflokkurinn fram í langflestum sveitarfélögum og hann ber víða höfuð og herðar yfir aðra flokka og hefur verið mjög víða í meirihluta. Það ætti því ekki að koma á óvart að fylgið minnkaði einhversstaðar, en mætti á móti telja merkilegt hve víða meirihlutarnir halda.
Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram í 35 sveitarfélögum í landinu, en alls var kosið í listakosningu í 51 sveitarfélagi. Hann er sem fyrr langstærsti flokkurinn með langflesta sveitarstjórnarfulltrúa, alls 110 talsins, og er stærsti flokkurinn í 21 sveitarfélagi, víða langstærstur. Sé litið til fylgis hans getur flokkurinn einnig vel við unað, en meðalfylgið er 36,6% atkvæða, sem er u.þ.b. viðmiðunarfylgi flokksins fyrir bankahrun.
Vonbrigðin sjálfstæðismanna í Reykjavíkvoru hins vegar veruleg, því auðvitað var miðað við að halda a.m.k. kjörfylginu 2018. Það fór hins vegar niður í það sem var 2014. Eftir sem áður er hann stærstur flokka í borgarstjórn og er með fimmtungi meira fylgi en sá næststærsti, höfuðandstæðingurinn Samfylkingin. Það er á þeirri forsendu sem Hildur Björnsdóttir bendir á að fjórði hver borgarbúi treysti sér best til að leiða breytingar í borginni og lagði mikið upp úr verulegri fylgisaukningu í síðustu viku kosningabaráttunnar.
Á því geta menn haft sínar skoðanir, en eftir situr að sjálfstæðismönnum í borginni tókst (ásamt Framsókn) að fella meirihlutann í annað skiptið í röð, þar sem bæði Samfylkingin og Viðreisn töpuðu miklu fylgi. Svo rækilega raunar, að meirihlutinn féll niður í 41% atkvæða samanlagt.
Í því felst ekki sigur, en það gæti gerst í eftirleiknum, ef þetta fylgi dugar til að mynda meirihluta.