[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Sigurður Ægisson sae@sae.is „Það hefur alltaf blundað í mér að smíða a.m.k. eitt af þessum skipum og ég ákvað að taka Hreggvið, vegna þess að hann var rúffskip og það eru svo fáir sem vita eitthvað um þá gerð skipa,“ segir Njörður S.

Viðtal

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

„Það hefur alltaf blundað í mér að smíða a.m.k. eitt af þessum skipum og ég ákvað að taka Hreggvið, vegna þess að hann var rúffskip og það eru svo fáir sem vita eitthvað um þá gerð skipa,“ segir Njörður S. Jóhannesson, þúsundþjalasmiður á Siglufirði, en hann lauk nýverið við gerð líkans af umræddu fleyi, sem var eitt af nokkrum sem lentu í miklu óveðri sem gekk yfir norðanvert landið 30. maí árið 1875.

Flest hákarlaskip Eyfirðinga og Siglfirðinga voru þá úti á miðum. Sum náðu landi við illan leik, önnur lögðu til drifs og fengu stór áföll og hrakninga mörg hver. Um borð í Hreggviði voru 11 manns og fórust þeir allir, í illviðrinu samtals á fjórða tug manna og létu sumir eftir sig mikla ómegð.

Njörður fæddist á Siglufirði árið 1945 og hefur búið þar alla tíð. Hann á ættir að rekja til mikilla skipasmiða í Fljótum í Skagafirði og er sjálfur völundur í höndum, eins og verk hans öll bera með sér. Með þessari líkanasmíði sinni af sögufrægum skipum úr Fljótum, Siglufirði, Ólafsfirði og Eyjafirði er hann að ská skipasögu utanverðs Tröllaskaga á annan og áhugaverðari hátt en gert hefur verið.

Hreggviður var smíðaður veturinn 1871–1872 og það gerði Jóhann Jónsson í Höfn á Siglufirði. Var skipið ætlað til hákarlaveiða. Það var súðbyrt, byrðingur úr furu en innviðir úr rekaviði. Átti það að geta borið 110 tunnur lifrar.

Mesta lengd Hreggviðs var 43 fet, mesta breidd 12 fet og 10 tommur og mesta dýpt 4 fet og 8 tommur. Njörður hefur smíðað öll skipalíkön sín þannig að fetið er tomman, þ.e. í hlutföllunum 1 á móti 12; þetta líkan er því 43 tommur á lengd og breidd og dýpt í samræmi við það.

Rúffskipin þurftu hraustmenni

„Við tölum um vetrarskip og vorskip, sem margir hafa heyrt getið um, en svo voru til rúffskip, sem menn sóttu á alveg eins og á þilskipum. Þau voru með kojur fram og aftur í og með sama seglabúnað, en þau voru opin. Það þurfti miklu kraftmeiri menn til að vera á rúffskipunum heldur en á þilskipunum, því aðbúnaðurinn var mörgum sinnum betri á hinum síðarnefndu þótt hann væri ekki góður,“ segir Njörður, þegar blaðamaður spyr um muninn á þessum fleytum öllum.

„Rúffskipin voru aðallega fyrir norðan,“ bætir hann við, „sárafá voru fyrir sunnan.“ Í hópi norðlenskra rúffskipa voru t.d. Brúni, Látra-Felix og Siglunes-Víkingur.

Eigendur Hreggviðs í fyrstu voru Snorri Pálsson, verslunarstjóri, sem kallaður hefur verið afi Siglufjarðar, Christen Havsteen verslunarmaður og Jóhann í Höfn.

Snorri Pálsson fékk Zóphonías Jónsson úr Svarfaðardal til að vera skipstjóri á Hreggviði, það var í kringum 20. maí 1873, þ.e. tveimur árum áður en skipið ferst.

Menn frá Árnesi á Ströndum á leið út í Gjögur fundu Hreggvið á hvolfi í Trékyllisvík. Var það hald manna, að honum hefði hvolft við Skallarif, fram af vestanverðum Skaga, og rekið þaðan vestur yfir Húnaflóa. Með sameiginlegu átaki tókst að koma skipinu upp í fjöru og þar kom í ljós að það var óbrotið. Send voru skilaboð til Siglufjarðar um að það væri fundið og menn þar fara á þilskipi norður á Strandir og draga það til heimahafnar. Þar var skipið sett á land og gert við það eins og þurfti. Þá var jafnframt sett í það þilfar, svo að eftir það taldist Hreggviður með þilskipum.

Hann var síðast gerður út vorið 1887. Eftir þá vertíð var hann settur á land á Gránu-oddanum við Akureyri og þar var hann rifinn tveimur árum síðar.

Missti 25 í hafið

Ekki er vitað hverjir eigendur Hreggviðs urðu eftir óveðrið mikla 1875, en þó er talið að Snorri hafi selt sinn hlut Jóni Þorvaldssyni frá Dalabæ, bónda á Hamri í Fljótum, sem varð formaður á honum til loka. Snorri hætti nefnilega hákarlaútgerð eftir þetta mikla áfall, gjörsamlega bugaður, því umræddan dag í maí höfðu alls 25 menn drukknað af útvegi hans.

Auk mannanna af Hreggviði höfðu farist með þilskipinu Draupni 11 menn og þrjá menn tók út af Skildi; bæði skipin höfðu verið í eigu hans að einhverju leyti, Draupnir hafði t.d. verið smíðaður á Siglufirði veturinn 1868–1869 og var þá talinn glæsilegasta skipið á Norðurlandi, 21,23 lestir að stærð. Eigendur Draupnis voru í fyrstu, Snorri, Christen Havsteen og áðurnefndur Jóhann Jónsson í Höfn, sem smíðaði skipið, líkt og Hreggvið síðar.

Draupnir var fyrsta og eina plankabyggðaskipið sem Jóhann í Höfn smíðaði. Síðar seldi Jóhann sinn hluta Steini Jónssyni skipstjóra í Vík í Héðinsfirði. Skjöld höfðu þeir Snorri og Christen Havsteen keypt vestan af Kúvíkum haustið 1868 og látið byggja upp um veturinn. Auk þess fórst í sama óveðri Hafrenn-ingur frá Hellu á Árskógsströnd, en þar var stýrimaður Jón bróðir Snorra. Aðrir skipverjar munu hafa verið af Árskógsströnd og úr Svarfaðardal, sveitungar og vinir Snorra.

Tvö líkön eftir

„Þetta er bölvað púl,“ segir Njörður, þegar hann er spurður um hvort þetta sé ekki lýjandi, þessi mikla nákvæmnisvinna; hann byrjaði t.d. á Hreggviði viku af september í fyrra og lauk verkinu um síðustu mánaðamót. Naglarnir í skipinu eru um 3000 talsins, bæði úr kopar og eir. Sjálfur bjó hann til mót af seglunum, sem eru tvö, stórsegl og aftursegl, tvírifuð, en eiginkona hans, Björg Einarsdóttir, saumaði þau síðan.

En engan bilbug er þó á Nirði að finna. Næsta módelverkefni sem hann hyggst taka sér fyrir hendur, og sem reyndar verður það næstsíðasta, er Svarfdælingur, sem var vorskip með eyfirska laginu og eitt hið allra glæsilegasta sem smíðað hafði verið. Það var alla tíð gert út frá Siglunesi. Eigandi og formaður var Snorri Flóventsson, fæddur um 1798, bóndi á Böggvisstöðum í Svarfaðardal. Hann hvarf í hafi með því skipi og áhöfn sinni allri, 10 mönnum, vorið 1842.

„Síðasta skipið sem mig langar að glíma við er svo konungsskip, sem fórst í óveðri við Stafnes á Reykjanesskaga 1685. Þá fórust alls sjö skip með 67 mönnum. Formaður var Rafn Helgason, sem var fæddur og uppalinn á Mói í Fljótum. Ég hef heimildir fyrir því að síðustu vertíðina sem hann er fyrir sunnan hafi hann látið setja á skipið bænaborð, bæði að framan og að aftan, altari og nýjan koll. Það er í fyrsta skipti, að ég best veit, sem bænaborð er sett á árabát. Þetta var neglt með trénöglum,“ segir Njörður.

Til sölu á krónu

En líkanið af Hreggviði verður til sýnis í Olís-búðinni á Siglufirði til að byrja með, en Njörður vill koma því á framfæri að það sé falt fyrir eina krónu ef eitthvert safn myndi vilja hafa það til sýnis og gera skil sögu þess og þeirra sem fórust með því.