Brennidepill Andrés Magnússon andres@mbl.is Meirihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna er fallinn eftir að bæði Samfylking og Viðreisn töpuðu fylgi og samtals þremur borgarfulltrúum í borgarstjórnarkosningunum á laugardag.

Brennidepill

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Meirihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna er fallinn eftir að bæði Samfylking og Viðreisn töpuðu fylgi og samtals þremur borgarfulltrúum í borgarstjórnarkosningunum á laugardag. Vonir á vinstri vængnum um að unnt væri að framlengja líf hans brustu svo í gær þegar Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, tilkynnti að flokkur hennar myndi ekki taka þátt í meirihlutasamstarfi á nýja kjörtímabilinu.

Framsóknarmenn undir forystu nýliðans Einars Þorsteinssonar unnu kosningasigur í Reykjavíkurborg þegar þeir fengu 18,7% atkvæða og fjóra borgarfulltrúa. Fyrir áttu þeir engan fulltrúa, fengu aðeins 3,2% í borgarstjórnarkosningunum 2018, en Framsókn hefur aldrei notið annars eins stuðnings í höfuðborginni áður.

Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Hildar Björnsdóttur er enn stærsti flokkurinn í borginni með 24,5% fylgi, en það er samt mun minna fylgi en flokkurinn naut í kosningunum 2018, þegar hann fékk 30,8% atkvæða. Fyrir vikið tapaði hann tveimur borgarfulltrúum og hefur nú sex borgarfulltrúa.

Meirihlutinn tapar mönnum

Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar, sem leitt hefur fráfarandi meirihluta, tapaði þó hlutfallslega meira fylgi, fór úr 25,6% niður í 20,4% fylgi og tapaði einnig tveimur borgarfulltrúum og hefur nú fimm.

Sömuleiðis varð Viðreisn fyrir miklum skelli, tapaði meira en þriðjungi fylgis síns og fór úr 8,2% atkvæða 2018 niður í 5,2% og við það missti hún annan borgarfulltrúa sinna.

Hins vegar juku Píratar talsvert við sig fylgi, fengu nú 11,6% atkvæða en í kosningunum 2018 fengu þeir 7,7%, Fyrir vikið unnu þeir mann og hafa nú þrjá borgarfulltrúa.

Sá eini nýi borgarfulltrúi dugar hins vegar ekki til til þess að halda lífi í meirihlutanum eftir að Samfylkingin og Viðreisn misstu þrjá samtals. Í borgarstjórn sitja 23 borgarfulltrúar, svo meirihluti þarf að hafa að minnsta kosti 12 borgarfulltrúa að baki sér.

Vinstri græn undir forystu Lífar Magneudóttur töpuðu einnig fylgi, fóru úr 4,4% árið 2018 niður í 4,0% að þessu sinni og hélt hún naumlega velli sem borgarfulltrúi, en hyggst sem fyrr segir ekki eiga aðild að meirihlutasamstarfi.

Sósíalistar vinna á

Aftur á móti getur Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, fagnað góðum árangri, en hún fór úr 6,3% upp í 7,7%. Það kann að virðast hófleg fylgisaukning, en það munar um hana, því sósíalistar unnu þannig tvo fulltrúa.

Aftur á móti jókst fylgi Flokks fólksins lítið, fór úr 4,3% í 4,5% og Kolbrún Baldursdóttir er áfram eini fulltrúi flokksins í borgarstjórn. Að því leyti virðist sem stórsókn flokksins, sem vart varð í þingkosningunum liðið haust, sé á enda runnin.

Miðflokkurinn undir forystu nýs oddvita, Ómars Más Jónssonar, missti sinn eina fulltrúa, en flokkurinn náði aðeins 2,4% atkvæða í kosningunum en fékk 6,1% árið 2018.

Framboð E-lista, Reykjavíkur – bestu borgarinnar, og Y-lista Ábyrgrar framtíðar, náðu ekki teljandi árangri.

Kjörsókn var með dræmasta móti í Reykjavík, aðeins 61%, en einnig var óvenjumikið um auða seðla, 1.198 talsins, en 212 atkvæði voru ógild.

Kosningar í Reykjavík
» Meirihlutaflokkarnir misstu þrjá fulltrúa og unnu einn og fengu aðeins 41% atkvæða.
» Framsókn fór úr engum borgarfulltrúum í fjóra.
» Sjálfstæðisflokkur tapaði tveimur fulltrúum en er enn stærsti flokkurinn með sex borgarfulltrúa.