Umdeild Hluti íslenskra verka á á samsýningu Norræna listbandalagsins í apríl- og maímánuði 1955 í Palazzo delle Esposizioni í Rómarborg. Var það stærsta norræna listsýningin sem haldin hafði verið fram að þeim tíma.
Umdeild Hluti íslenskra verka á á samsýningu Norræna listbandalagsins í apríl- og maímánuði 1955 í Palazzo delle Esposizioni í Rómarborg. Var það stærsta norræna listsýningin sem haldin hafði verið fram að þeim tíma. — Ljósmynd/Úr einkasafni
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli Í bókinni Að finna listinni samastað er rakin saga Félags Íslenskra myndlistarmanna, en bókin er gefin út í tilefni af 80 ára afmæli félagsins. Kristín G.
Bókarkafli Í bókinni Að finna listinni samastað er rakin saga Félags Íslenskra myndlistarmanna, en bókin er gefin út í tilefni af 80 ára afmæli félagsins. Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur ritar söguna og varpar ljósi á aðdraganda, stofnun og sögu FÍM frá árinu 1941 og veitir innsýn í innviði og starfsumhverfi myndlistar á Íslandi þá. Saga félagsins er einnig rakin með ítarlegu myndefni af starfinu, meðal annars frá haustsýningum.

Rómarsýningin 1955

Eftir að haldnar höfðu verið stórar norrænar samsýningar í öllum höfuðborgum Norðurlanda á árunum 1945–1950, en síðasta höfuðborgarsýningin var haldin í Helsingfors 1950, var orðið ljóst að framkvæmdin var of dýr og viðamikil til að hægt væri að halda áfram á sama hátt. Sú ákvörðun var því tekin í bandalagsráðinu að halda stóra samsýningu annað hvert ár. Það þótti heldur ekki rétt að einskorða sýningarnar við höfuðborgir Norðurlandanna svo fyrsta sýningin í annarri umferð var haldin í Bergen 1953, en sú sýning var síðan send til Oslóar. Þá var röðin komin að Svíþjóð, en með forgöngu norska málarans Axel Revold og í boði ítalska ríkisins ákvað bandalagsráðið að koma þess í stað á fót norrænni listsýningu í Palazzo delle Esposizioni við Via Nazionale í Róm vorið 1955, en þetta var stærsta norræna listsýningin sem haldin hafði verið til þessa.

Stjórn FÍM skipuðu frá febrúar 1954 þeir Svavar Guðnason, formaður félagsins og jafnframt formaður Íslandsdeildar Norræna myndlistarbandalagsins, Valtýr Pétursson gjaldkeri og Hjörleifur Sigurðsson ritari. Með þeirri skipan stjórnar voru abstraktlistamenn búnir að ná yfirhöndinni í FÍM. Eins og áður hefur verið greint frá klofnaði félagið 1949, og í febrúar 1954 kvarnaðist enn úr félagsskapnum þegar þeir Finnur Jónsson, Gunnlaugur Blöndal og Guðmundur Einarsson sögðu sig einnig úr FÍM og stofnuðu félagið Óháðir listamenn. Þessir listamenn voru ekki par sáttir við að einungis abstraktlistamenn skipuðu hina nýkjörnu stjórn FÍM, en meginástæða úrsagnar þeirra var þó óánægja með skipun sýningarnefndar á opinbera listsýningu sem halda skyldi í Danmörku á vegum opinberra stjórnvalda vegna heimsóknar forseta Íslands til Danmerkur 1954. Félagar úr FÍM og Nýja myndlistarfélaginu sátu í sýningarnefndinni í umboði menntamálaráðuneytisins, en við stofnun hins nýja þriggja manna félags var Finni Jónssyni bætt í nefndina.

Með stofnun félagsins Óháðir listamenn voru þrjú stéttarfélög myndlistarmanna starfandi á Íslandi; um 40 listamenn voru í FÍM, sjö í Nýja myndlistarfélaginu og þrír í félaginu Óháðir listamenn en einhverjir voru auk þess utan félaga, svo sem Kristín Jónsdóttir og Gunnlaugur Scheving. Þessi klofningur í röðum listamannanna átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í tengslum við undirbúning sýningarinnar Arte Nordica Contemporanea eða Rómarsýningarinnar svokölluðu.

Þess ber að gæta að eftirstríðsárin voru tímar mikilla breytinga á mörgum sviðum samfélagsins, ekki síst menningar og lista, og áhrif kalda stríðsins skerptu alla umræðu og léðu henni pólitískan blæ. Abstraktkynslóðin vildi brjóta sér leið út úr þröngri þjóðernislegri skilgreiningu sem að þeirra áliti væri tekin að hefta framþróun íslenskrar myndlistar og færa listina nær evrópskum samtíma. Ríkjandi viðhorf í íslenskri myndlist grundvölluðust hins vegar á þeirri skoðun að myndlist skyldi spegla íslenska menningu og draga fram form og inntak sem hægt væri að samsama íslenskri þjóðarsál. Hið litla og lokaða menningarsamfélag nýja lýðveldisins var ekki mótþróalaust tilbúið til að samþykkja uppgang abstraktlistarinnar, sem gjarnan var skilgreind sem „erlend“ og „óþjóðleg“ myndlist. Djúpstæður og alvarlegur ágreiningur reis á milli kynslóða, hópa og einstaklinga sem höfðu ólíkar hugsjónir að leiðarljósi og oft kom til harðvítugra deilna á opinberum vettvangi um markmið og leiðir í íslenskri menningu, sem oftar en ekki tengdust pólitískum áherslum. Þessi átök speglast ljóslega í þeim stigmagnandi deilum sem áttu sér stað í upphafi árs 1955 í tengslum við undirbúning fyrir Rómarsýninguna. Deilurnar settu samfélagið á Íslandi á annan endann og afhjúpuðu hversu eldfimt menningarástandið var á Íslandi á tímum kalda stríðsins. Sem formaður FÍM var Svavar Guðnason í eldlínunni í þessari rimmu.

Forsaga deilunnar var sú að í maí 1954 dró til tíðinda í Reykjavík þegar boð barst frá Norræna myndlistarbandalaginu til stjórnar FÍM um þátttöku í Rómarsýningunni. Þar sem FÍM átti aðild að bandalaginu en ekki hin félög listamanna kom það í hlut stjórnar FÍM að sjá um framkvæmd málsins og skipa sýningarnefnd. Það kemur fram í boðsbréfi frá FÍM til íslenskra listamanna undirrituðu af Svavari Guðnasyni að þeim Ásgrími Jónssyni, Jóni Stefánssyni, Jóhannesi S. Kjarval og Ásmundi Sveinssyni var boðið að taka þátt í sýningunni með fimm verk að eigin vali. Val annarra þátttakenda á sýninguna færi þannig fram að öllum listamönnum, óháð því í hvaða félagi þeir væru, var boðið að senda inn verk til dómnefndar sem síðan veldi úr innsendum verkum. Dómnefndina skipuðu auk Svavars þeir Þorvaldur Skúlason, Gunnlaugur Scheving og Ásmundur Sveinsson, sem einungis skyldi velja höggmyndir á sýninguna. Valtýr Pétursson var síðar tilnefndur sýningarstjóri.

Deilan hófst þann 13. janúar 1955 þegar Morgunblaðið birti grein eftir Ásgrím Jónsson listmálara undir yfirskriftinni Svarað bréfi Félags ísl. myndlistarmanna. Þar lætur hann í ljós óánægju með það að Nýja myndlistarfélagið eigi ekki beina aðild að sýningarnefndinni og leggur til að dómnefndin verði skipuð tveimur fulltrúum þess félags, en í því voru aðallega eldri listmálarar, auk tveggja fulltrúa FÍM, þar sem hann gat ekki fallist á „að þegar velja eigi myndir á yfirlitssýningu síðustu fimmtíu ára séu það abstraktmálarar sem eigi að hafa val myndanna með höndum“.

Í yfirgripsmiklu svari stjórnar FÍM sem birt var í Morgunblaðinu þann 16. janúar 1955 kemur fram að þar sem félagið eigi eitt aðild að Norræna myndlistarbandalaginu sé útilokað að önnur félag sem slík eigi fulltrúa í sýningarnefnd. Nefndin sé skipuð tveimur abstraktmálurum og einum natúralista. Jóni Þorleifssyni hafi verið boðin seta í nefndinni sem fulltrúa Nýja myndlistarfélagsins en hann hafi afþakkað. Hefði hann þekkst boðið væri jafnræði milli abstraktmálara og natúralista. Einnig var bent á hversu óeðlilegt það væri að félag sem telur sjö félagsmenn fái að skipa tvo menn í sýningarnefnd og félag sem telji þrjá menn fái að skipa einn mann. Liðsmönnum Nýja myndlistarfélagsins var þó full alvara með tillögu sinni og í bréfi FÍM kemur fram ný staðreynd í málinu: Í byrjun desember 1954 hafði FÍM sótt um styrk til Alþingis til þess að kosta framkvæmd Rómarsýningarinnar. Í upphafi tók fjárveitinganefnd málinu vel og allir nefndarmenn vildu veita 100.000 krónur til sýningarinnar. Þegar til atkvæðagreiðslu kom við 2. umræðu fjárlaga var þessi tillaga dregin til baka. Styrkveitingin var síðan samþykkt rétt fyrir jólin með eftirfarandi skilyrðum „enda annist 2 fulltrúar Félags íslenzkra myndlistarmanna, 2 fulltrúar Nýja myndlistarfélagsins og 1 fulltrúi félagsins Óháðir listamenn myndaval og aðrar framkvæmdir“.

FÍM hélt sínu striki og auglýsti eftir þátttakendum á Rómarsýninguna, listamenn komu með verk sín og lögðu fyrir dóm sýningarnefndar, en félagar Nýja myndlistarfélagsins og Óháðir listamenn voru ekki þar á meðal enda stóðu þeir fast á sínu, að leggja ekki verk sín í dóm abstraktlistamanna. Hin óhagganlega niðurstaða dómnefndar var að eftirfarandi 25 listamenn skyldu eiga verk á Rómarsýningunni: Af eldri listamönnum voru mætt til leiks þrír málarar og tveir myndhöggvarar, þau Jóhannes Kjarval (f. 1885) sem sérstaklega var boðinn og valdi verk sín sjálfur, Júlíana Sveinsdóttir (f. 1889), Kristín Jónsdóttir (f. 1888) og myndhöggvararnir Ásmundur Sveinsson (f. 1893) og Magnús Árnason (f. 1894).

Fulltrúar millikynslóðarinnar voru þau Barbara Árnason (f. 1911), Gunnlaugur Scheving (f.1904), Nína Tryggvadóttir (f. 1913), Snorri Arinbjarnar (f. 1901), Sigurður Sigurðsson (f. 1916), Svavar Guðnason (f. 1909), Þorvaldur Skúlason (f. 1906) og myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson (f. 1908). Yngsta kynslóð listamanna var fyrirferðarmikil eða 12 listamenn af 25: Benedikt Gunnarsson (f. 1929), Bragi Ásgeirsson (f. 1931), Eiríkur Smith (f. 1925), Guðmunda Andrésdóttir (f. 1923), Hjörleifur Sigurðsson (f. 1925), Hörður Ágústsson (f. 1922), Jóhannes Jóhannesson (f. 1921), Karl Kvaran (f. 1924), Kjartan Guðjónsson (f. 1921), Sverrir Haraldsson (f. 1930), Valtýr Pétursson (f. 1919) og myndhöggvarinn Gerður Helgadóttir (f. 1928).

Abstraktlistamenn voru í miklum meirihluta meðal listamannanna. Sjónarmið sem Svavar Guðnason hafði sett fram í tengslum við sýningu NKF í Kaupmannahöfn, þ.e. að mikilvægt væri að halda á lofti því yngsta og framsæknasta í listalífinu á sýningum myndlistarbandalagsins, var augljóslega þungamiðjan í hugmyndafræði sýningarnefndarinnar og sýnir glögglega áhrif Svavars í nefndinni. Málverk Jóhannesar S. Kjarvals voru þó miðpunktur sýningarinnar, en hann sýndi flest verk allra eða 17 verk, sem fengu allt það rými sem upphaflega var ætlað honum ásamt Jóni Stefánssyni og Ásgrími Jónssyni.

Í byrjun febrúar var haldin sýning í Listamannaskálanum á verkunum sem fyrirhugað var að senda til Rómar. Sýningin stóð einungis yfir í þrjá daga og var afar fjölsótt, en fyrstu tvo dagana skoðuðu um 2.000 manns sýninguna. Í kjölfar hennar fór deilan yfir í annan farveg. Nú var það val listamanna og verka á sýninguna sem setti samfélagið á annan endann, án þess að menn tækju tillit til forsögu málsins. Sýningin var metin út frá þeirri forsendu hvort hún gæfi yfirlit yfir þróun myndlistar á Íslandi undanfarin 50 ár eða ekki, sem var í raun ósanngjarnt í ljósi þess að stór hluti eldri listamanna hafði ákveðið að taka ekki þátt.

Magnús Á. Árnason lýsti þessu ástandi í Þjóðviljanum í febrúarbyrjun: „Rómarsýningin virðist hafa komið svo miklu róti á hugi manna, að furðu gegnir. Menn verða vart viðmælandi ef sýninguna ber á góma. Sum af dagblöðunum ólmast dag eftir dag eins og naut í flagi.“ Vísir leitaði t.d. álits ýmissa manna á sýningunni og voru viðbrögð á einn veg. Ragnar Jónsson, bókaútgefandi og smjörlíkisframleiðandi, taldi að sýningin gæti ekki farið með verkum þessara manna einna því að hún gæfi alranga og næsta ófullkomna mynd af íslenskri menningu. Bjarnveig Bjarnadóttir, síðar umsjónarmaður safns Ásgríms Jónssonar, taldi fráleitt að sægur abstraktverka, sum eftir kornungt, alóþekkt fólk, ætti að skipa mest rúm á sýningu þessari. Tíminn sparaði ekki gífuryrðin: „Mér var litið inn í Listamannaskálann í gær. Átti ég ekki von á góðu, en að mæta annarri eins skelfingu og þar er til sýnis, hefði ég aldrei getað rennt grun í. Örfáir áhorfendur voru í salnum og hristu flestir höfuðin og sumir bölvuðu hressilega. Flestir veggir skálans voru þaktir með hinum fáránlegustu klessuverkum. Nokkrar járnakræklur ýmist héngu í loftinu eða stóðu á súlum. Hefðu þessir gripir hæglega getað verið gerðir af lærlingum í járnsmiðjum bæjarins. Nokkrar góðar myndir eru þarna eftir Kjarval og Gunnlaug Scheving, en yfir 80% af því, sem þarna er til sýnis, er fyrir neðan allar hellur að sent verði úr landi. Alþingi ber hér mikla ábyrgð. Það veitti á síðustu fjárlögum kr. 100.000 til þátttöku í norrænu sýningunni í Róm og ber jafnframt ábyrgð á að það sem sent er úr landi sé okkur ekki til smánar. Vil ég hér með skora á háttvirta Alþingismenn að líta á þessa sýningu í dag. Sú stund verður þeim áreiðanlega þörf lexía, ef sómi þjóðarinnar er þeim nokkurs virði. Og jafnframt ætti hún að vera þeim íhugunarefni, hvort rétt sé að verja fé ríkisins til að styrkja þessa framleiðslu – eða veita fé til að halda á henni sýningu.“

Þessi pólitíski þrýstingur auk áróðurs frá Nýja myndlistarfélaginu dró dilk á eftir sér því að aðstandendur sýningarinnar, sýningarnefnd og stjórn FÍM, voru boðaðir á fund hjá Bjarna Benediktssyni menntamálaráðherra til að ræða þá stöðu sem upp var komin í málinu.

Hjörleifur Sigurðsson, einn stjórnarmanna FÍM, segir svo frá fundinum að hann hafi verið afar snubbóttur. Menntamálaráðherra hafi leitað eftir samkomulagi við listamennina og talið að verkin á sýningunni í Listamannaskálnum væri „fyrsta sortéring“ og vonaðist til að það yrði að samkomulagi að bæta mönnum í nýja sýningarnefnd svo fleiri kæmust að á Rómarsýninguna; fjárveiting ríkisvaldsins til sýningarinnar yrði þannig tryggð. Það kom til kasta Svavars að svara þessu tilboði. Hjörleifur segir svo frá: „En nú skipti engum togum. Svavar oddviti okkar og talsmaður rauk upp og hreytti út úr sér að ráðherrann skyldi ekki halda að við létum stjórnvöld segja okkur fyrir verkum. Það varð fátt um kveðjur.“

Styrkur til sýningarinnar var felldur niður og ríkisstjórn Íslands sendi í kjölfarið orðsendingu til ríkisstjórnar Ítalíu þess efnis „að ekki mætti líta á þátttöku íslenskra myndlistarmanna í samsýningu Norræna listbandalagsins í apríl- og maímánuðum í Palazzo delle Esposizioni í Rómarborg sem opinbera athöfn af hálfu íslenska lýðveldisins“.

Ekki urðu nein frekari afskipti íslenskra stjórnvalda af sýningunni. Stjórnvöld hinna Norðurlandanna skipuðu ráðherra, sendiherra og embættismenn menntamála í heiðursnefnd sýninga Norræna myndlistarbandalagsins, en svo gat ekki orðið af hálfu Íslands og því skar íslenska heiðursnefndin sig verulega úr, en hana skipuðu þeir Jón Leifs, formaður Tónskáldafélags Íslands, Hannes Kr. Davíðsson, formaður Arkitektafélags Íslands, Halldór Laxness rithöfundur ásamt listmálurunum Svavari Guðnasyni og Hjörleifi Sigurðssyni. FÍM kostaði flutning sýningarinnar og þeir Svavar og Valtýr Pétursson fóru utan sem fulltrúar Íslands og sáu um uppsetningu íslensku deildarinnar.

Af viðtali sem tekið var við Valtý Pétursson við heimkomuna frá Róm má ráða að um stóran menningarviðburð hafi verið að ræða og góður rómur verið gerður að íslensku deildinni. Einn álitsgjafi taldi t.d. að blærinn á íslensku sýningunni væri mjög frísklegur [...]