Eurovision Úkraínska hipphopp-hljómsveitin Kalush Orchestra sigraði með laginu Stefania á laugardagskvöld.
Eurovision Úkraínska hipphopp-hljómsveitin Kalush Orchestra sigraði með laginu Stefania á laugardagskvöld. — AFP
Úkraínumenn fóru með sigur af hólmi í Söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem haldin var á laugardagskvöld í Tórínó. Lagið Stefania með hipphopp-hljómsveitinni Kalush Orchestra hlaut alls 631 stig.

Úkraínumenn fóru með sigur af hólmi í Söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem haldin var á laugardagskvöld í Tórínó. Lagið Stefania með hipphopp-hljómsveitinni Kalush Orchestra hlaut alls 631 stig. Í öðru sæti varð Bretland með 466 stig og í þriðja sæti varð Spánn með 459 stig. Í síðasta sæti varð Þýskaland með sex stig.

Íslenska lagið, Með hækkandi sól , sem hljómsveitin Systur flutti, varð í 23. sæti af 25 atriðum og hlaut alls 20 stig.

Portúgalska dómnefndin gaf Systrum sex stig, sú litháenska tvö stig og þær írsku og dönsku gáfu þeim eitt stig hvor. Þá gáfu áhorfendur hljómsveitinni tíu stig til viðbótar, en þar af komu átta stig frá áhorfendum í Úkraínu.

Skutust upp

Eftir stigagjöf dómnefnda leit ekki út fyrir að úkraínska framlagið myndi berjast um sigurinn en Bretland og Svíþjóð höfðu þá lengi skipað efstu tvö sætin. Þegar stig áhorfenda komu í ljós, alls 439 talsins, skaust Úkraína þó langt fyrir ofan Bretland og Svíþjóð.

Þetta er í þriðja skipti sem Úkraína vinnur keppnina, fyrst árið 2004 þegar Ruslana vann með laginu Wild Dances, og svo árið 2016 þegar Jamala vann með laginu 1944.

„Einstakar áskoranir“

Vlodomír Selenskí forseti Úkraínu sagði í ávarpi í gær að ríkið myndi gera sitt besta til að halda keppnina á næsta ári. EBU, skipuleggjandi keppninnar, sagði aftur á móti að allir möguleikar fyrir keppnina á næsta ári yrðu kannaðir en játaði að ákvörðunin fæli í sér „einstakar áskoranir“.

Í færslu sagði Selenskí að einn daginn myndi Úkraína halda Eurovision í „frjálsri, friðsælli og endurbyggðri“ Maríupol. Borgin er nú að mestu undir stjórn Rússa.