Birna G. Konráðsdóttir
Borgarbyggð
Rótarýklúbbur Borgarness færði á dögunum Vesturlandsdeild Rauða krossins og björgunarsveitum í Borgarfirði stórar peningagjafir. Það var Magnús B. Jónsson rótarýfélagi sem hafði veg og vanda af söfnun, sem upphaflega var hleypt af stokkunum til stuðnings við slökkvilið Borgarbyggðar.
Söfnunin gekk fram úr björtustu vonum og tæpar tvær milljónir höfðu safnast sem ganga áttu til slökkviliðs Borgarbyggðar til kaupa á stafrænum æfingabúnaði fyrir slökkviliðsmenn. Er í ljós kom að ekki yrði af þeim kaupum var ákveðið að nýta peningana í annað, í fullu samráði við þá er lögðu hönd á plóg í upphafi, en það voru fyrirtæki og almenningur í Borgarbyggð og nágrenni. Að sögn Magnúsar var klúbburinn mjög umfram um að nýta þessa fjármuni til styrktar og eflingar hjálpar- og mannúðarstarfi á starfssvæði hans, sem er Borgarbyggð og nágrenni. Samþykkt var því að styrkja Vesturlandsdeild Rauða kross Íslands vegna móttöku flóttamanna frá Úkraínu í Bifröst í Borgarfirði. Einnig björgunarsveitir á starfssvæðinu, þ.e. Björgunarsveitina Brák, Björgunarsveitina Ok og Björgunarsveitina Heiðar.