Sigurmark Stjörnumennirnir Oliver Haurits og Daníel Laxdal fagna sigurmarki þess fyrrnefnda gegn Valsmönnum á Samsung-vellinum í gær.
Sigurmark Stjörnumennirnir Oliver Haurits og Daníel Laxdal fagna sigurmarki þess fyrrnefnda gegn Valsmönnum á Samsung-vellinum í gær. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besta deildin Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Stjarnan varð fyrsta liðið til þess að leggja Íslandsmeistaraefnin í Val að velli í efstu deild karla í knattspyrnu, Bestu deildinni, á Samsung-vellinum í Garðabæ í gær í 6. umferð deildarinnar.

Besta deildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Stjarnan varð fyrsta liðið til þess að leggja Íslandsmeistaraefnin í Val að velli í efstu deild karla í knattspyrnu, Bestu deildinni, á Samsung-vellinum í Garðabæ í gær í 6. umferð deildarinnar.

Mörkin létu svo sannarlega á sér standa þó bæði lið hafi fengið ágætismarktækifæri til þess að koma boltanum í netið.

Það virtist allt stefna í markalaust jafntefli þegar danski framherjinn Oliver Haurits skoraði sigurmark leiksins þegar tvær mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma, eftir frábæran undirbúning Óskars Arnar Haukssonar, og Garðbæingar fögnuðu afar dýrmætum 1:0-sigri.

*Daninn Haurits var búinn að vera inn á vellinum í rúmar sjö mínútur þegar hann skoraði sigurmarkið en þetta var hans fyrsta mark fyrir Stjörnuna í deildinni í sumar.

*Valsmenn, sem höfðu unnið fjóra leiki og gert eitt jafntefli í fyrstu fimm umferðunum, skoruðu ekki mark í gær en það gerðist síðast í september á síðasta ári þegar liðið heimsótti Breiðablik.

*Garðbæingar hafa verið með ágætis tak á Valsmönnum að undanförnu en þeir unnu báða leiki liðanna á síðustu leiktíð í efstu deild, 2:1.

Óstöðvandi Akureyringar

KA skellti sér á toppinn í deildinni þegar liðið heimsótti ÍA á Norðurálsvöllinn á Akranesi en Akureyringar eru án ósigurs í fyrstu sex leikjum tímabilsins.

Það tók KA-menn þrettán mínútur að brjóta varnarmúr Skagamanna á bak aftur en þar var á ferðinni Daníel Hafsteinsson sem þrumaði boltanum upp í vinstra markhornið, utarlega í teignum.

Akureyringar bættu svo við tveimur mörkum til viðbótar í síðari hálfleik og hafa unnið fimm leiki í deildinni til þessa og gert eitt jafntefli.

Skagamenn eru hins vegar án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum gegn Fram, Breiðabliki, Val og KA.

*Skagamenn fengu upplagt tækifæri til þess að komast inn í leikinn á 57. mínútu í stöðunni 0:2 þegar brotið var á Gísla Laxdal Unnarssyni innan teigs. Gísli steig sjálfur á punktinn en Steinþór Már Auðunsson varði frá honum.

*Akureyringurinn Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði annað mark KA í leiknum og sitt annað mark í deildinni í sumar.

Langþráður sigur Hafnfirðinga

FH vann sinn annan leik í deildinni í sumar þegar liðið tók á móti nýliðum ÍBV á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði.

Fyrir leik gærdagsins voru FH-ingar án sigurs í síðustu þremur leikjum sínum en liðið lagði Fram að velli í Kaplakrika, 4:2, í 2. umferð deildarinnar.

Sigurinn var nauðsynlegur fyrir Hafnarfjarðarliðið, ætli þeir sér að blanda sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar, en Eyjamenn eru enn án sigurs.

*Keflvíkingurinn Davíð Snær Jóhannsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH en hann gekk til liðs við Hafnfirðinga frá Lecce á Ítalíu á dögunum.

*Matthías Vilhjálmsson er markahæsti leikmaður FH á leiktíðinni með þrjú mörk en hann kom FH yfir í gær á 29. mínútu.