Sesselja Eiríksdóttir fæddist í Reykjavík 2. júní árið 1949. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 3. maí 2022. Hún var dóttir hjónanna Áslaugar Eyþórsdóttur húsmóður, f. 20. nóvember 1922, d. 12. október 2011 og Eiríks Ágústssonar skipasmiðs, f. 29. nóvember 1919, d. 8. mars 2019. Bræður Sesselju eru: Hafsteinn, f. 27. nóvember 1950, Ágúst Þór, f. 27. nóvember 1957 og fósturbróðir hennar Haraldur Ragnar Ólafsson, f. 4. júlí 1962. Sesselja giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Alfreð Dan Þórarinssyni tæknifræðingi, 5. desember 1970. Þau eignuðust þrjár dætur: 1) Áslaugu Ósk, f. 6. júlí 1971; eiginmaður hennar er Ragnar Z. Guðjónsson, börn þeirra eru Guðjón, Steinar Örn, Alfreð Dan og Ragnar Zophonías, 2) Björgu, f. 22. júní 1976; eiginsmaður hennar er Loftur Kristinn Vilhjálmsson, börn þeirra eru Vilhjálmur Dan og Baldur Dan. Sonur Lofts er Along Alexander, 3) Sólveigu Dögg, f. 21. nóvember 1978; eiginmaður hennar er Ingólfur Hafsteinsson, börn þeirra eru Pálmi Gunnar og Stefanía.

Sesselja ólst upp í Hafnarfirði og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskólanum árið 1966. Veturinn 1967 til 1968 stundaði hún nám við lýðháskóla í Kalmar í Svíþjóð. Sesselja og Alfreð bjuggu í Hafnarfirði allan sinn búskap ásamt dætrum sínum. Ung greindist Sesselja með sjúkdóm sem setti varanlegt mark sitt á líf hennar og varð þess valdandi að hún dvaldist síðustu árin á Dvalarheimilinu Ási í Hveragerði þar sem hún lést.

Sesselja verður jarðsungin frá Víðistaðakirkju í dag, 16. maí 2022, kl. 13.

Elsku mamma kvaddi þennan heim aðfaranótt 3. maí eftir erfið veikindi. Við minnumst hennar með miklum hlýhug og þakklæti. Mamma var hjartahlý, skörp og góð kona sem vildi öllum vel. Hún var ræktarsöm við fjölskyldu sína og hallaði aldrei orði á neinn. Hún var þakklát fyrir það sem lífið færði henni og um leið var hún lítillát og hógvær um allt er hana sjálfa varðaði. Hún elskaði að fylgjast með barnabörnunum sínum sem veittu henni mikla gleði. Mamma sýndi mikið æðruleysi í veikindum sínum og tókst á við þau með jákvæðni og trúna á Guð að vopni. Hún bar sig ætíð vel og með bros á vör og hlýlega framkomu tók hún öllum alltaf fagnandi. Hún sá jafnan góðu hliðarnar á öllu og reyndi ávallt að sjá það góða í fólki.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Starfsfólki Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði þökkum við fyrir hlýju og góðvild í hennar garð.

Þínar dætur,

Áslaug Ósk, Björg og Sólveig Dögg.

Í dag kveðjum við mágkonu okkar, Sesselju Eiríksdóttur, sem lést 3. maí síðastliðinn.

Hún kom inn í fjölskylduna þegar hún giftist Alfreð Dan bróður okkar. Þau kynntust þegar Stella á sínum yngri árum kom austur á land til að vinna sumarlangt í skógræktinni á Hallormsstað. Þá voru bjartir og góðir tímar í lífi þeirra en þegar árin liðu fór að bera á veikindum Stellu sem fylgdu henni æ síðan. Að upplagi var Stella skapgóð og sagði aldrei styggðaryrði um nokkurn mann. Það var jafnan stutt í brosið og var hún bæði jákvæð og hlý.

Á síðasta ári gerði vart við sig það mein sem ekki varð sigrað og Stella lést í faðmi dætra sinna á Hjúkrunarheimilinu Ási.

Sem þá á vori sunna hlý

sólgeislum lauka nærir

og fífilkolli innan í

óvöknuð blöðin hrærir,

svo vermir fögur minning manns

margt eitt smáblóm um sveitir lands,

frjóvgar og blessun færir.

(Jónas Hallgrímsson)

Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til bróður okkar, dætra og fjölskyldna þeirra.

Guðrún, Anna og Ólöf Þórarinsdætur.