Svartsengi Þenslu hefur orðið vart á nýjan leik norðan Grindavíkur.
Svartsengi Þenslu hefur orðið vart á nýjan leik norðan Grindavíkur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Hrund Lúðvíksdóttir Þóra Birna Ingvarsdóttir Yfir helgina mældust að minnsta kosti tíu jarðskjálftar yfir 3 að stærð á Reykjanesskaga. Sá stærsti mældist 4,8 á laugardag rétt fyrir klukkan 17 við Þrengslin. Veðurstofa Íslands hefur varað við því að grjóthrun og skriður geti átt sér stað í hlíðum þegar skjálftar verða og er fólk beðið um að sýna aðgát á þeim svæðum.

Lilja Hrund Lúðvíksdóttir

Þóra Birna Ingvarsdóttir

Yfir helgina mældust að minnsta kosti tíu jarðskjálftar yfir 3 að stærð á Reykjanesskaga. Sá stærsti mældist 4,8 á laugardag rétt fyrir klukkan 17 við Þrengslin. Veðurstofa Íslands hefur varað við því að grjóthrun og skriður geti átt sér stað í hlíðum þegar skjálftar verða og er fólk beðið um að sýna aðgát á þeim svæðum.

Land risið um tvo sentimetra

Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur segir að land hafi risið í byrjun maí við Svartsengi, en skjálftavirkni sé umhverfis svæðið. „Það ber helst til tíðinda að það er landris þarna við Svartsengi eða Þorbjörn eins og það hefur verið kennt við. Það hefur verið síðan í byrjun maí og er núna búið að rísa um 2 sentimetra mest hingað til. Þetta er á hægri uppleið en veldur heilmikilli skjálftavirkni þarna í kring. Það er hugsanlega afleiðing af þessu öllu saman,“ segir Halldór.

Hann segir ólíklegt að stóri skjálftinn á laugardaginn tengist virkninni við Svartsengi. Halldór segir ýmsar mögulegar atburðarásir koma til greina varðandi framhaldið. „Það eru ýmsar mögulegar atburðarásir. Það hafa margir talað um að við séum mögulega að fara inn í goshrinu sem getur varað þess vegna næstu 200, 300 árin af og til. Það eru allar sviðsmyndir undir.“

Inntur eftir því hvort eldgosið við Fagradalsfjall hafi verið upphafið að goshrinunni segir Halldór að það sé óvíst.

„Við vitum ekki fyrr en upp er staðið hvort það hafi verið upphafið að einhverju eða ekki. En það er ýmislegt sem bendir til þess. Það hafa verið ákveðin umbrot í fleiri eldstöðvakerfum en bara Fagradalsfjalli; landrisið sem er núna við Svartsengi eða Þorbjörn er fjórða slíka landrisið síðan 2020. Svo var líka landris í Krýsuvík 2020 og svo hafa líka verið einhverjar óljósar hreyfingar lengra út á Reykjanesinu. Það eru mörg kerfi á Reykjanesskaganum sem eru að upplifa einhverjar færslur sem gætu tengst kvikuhreyfingum. En það er ómögulegt að segja hvenær og hvar eitthvað gæti komið upp,“ segir Halldór.

Geta valdið miklu tjóni

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að stóri skjálftinn á laugardag beri merki um að óróleikinn sé að teygja sig austar. Þá koma til sögu jarðskjálftasvæði sem geta búið til enn stærri skjálfta.

„Frá Þrengslunum og vestur að Kleifarvatni hafa orðið skjálftar sem fara vel yfir sex stig, síðast árið 1986 varð sex stiga skjálfti í Brennisteinsfjöllum.“

Páll útskýrir að sex stiga skjálftar, austan Þrengslanna, séu þeir skjálftar sem verða sterkastir í Reykjavík.

„Við erum ekki að tala um hamfarir en þeir geta valdið umfangsmiklum smærri tjónum. Þessi ókyrrð er búin að standa í hátt á þriðja ár og því má búast við að fólk finni talsvert af skjálftum næstu árin,“ segir hann.

Þá bendir hann á að óróleikatímum sem þessum fylgi oft stór skjálfti í Brennisteinsfjöllum, það hafi gerst árið 1968 og árið 1929.

„Það hefur legið fyrir frá því að þetta byrjaði í árslok 2019. Það voru dregnar upp sviðsmyndir sem hafa verið að raungerast hver af annarri, ein þeirra var til að mynda eldgosið á Reykjanesskaga.“