Bragi Bjarnason
Bragi Bjarnason
Sjálfstæðisflokkurinn vann kosningasigur í Árborg um helgina, meirihlutinn felldur og hreinn meirihluti flokksins tekur við. Bragi Bjarnason, oddviti flokksins í Árborg, segir spennandi verkefni fram undan á kjörtímabilinu.

Sjálfstæðisflokkurinn vann kosningasigur í Árborg um helgina, meirihlutinn felldur og hreinn meirihluti flokksins tekur við. Bragi Bjarnason, oddviti flokksins í Árborg, segir spennandi verkefni fram undan á kjörtímabilinu. Flokkurinn leggi sérstaka áherslu á það að auka samvinnu innan bæjarstjórnar.

Góð samvinna lykillinn

„Við náum alltaf meiri árangri með góðri samvinnu, heldur en að vera í einhverri harðri meiri- og minnihlutaumræðu.“

Aðspurður segir Bragi að erfitt hafi verið að gera sér grein fyrir hvernig atkvæðin myndu falla á kjördag þar sem enginn skoðanakönnun hafi verið framin í sveitarfélaginu, en engu að síður hafi hann fundið fyrir miklum meðbyr í samfélaginu. Fyrsta verkefni nýs meirihluta að sögn hans sé að raða niður í sæti og gera sér grein fyrir stöðunni.

„Það má alveg segja að það eru gríðarlega mörg tækifæri hérna, þetta er spennandi og skemmtilegt samfélag. Þannig við horfum björtum augum á framtíðina,“ segir Bragi.

Spurður hvort hann muni setjast í bæjarstjórastólinn svarar Bragi því að það sé vinnan sem er verið að fara í, en þó sé möguleiki að hann taki við.

„Það er alveg möguleiki, en við erum ekki búinn að fastnegla það niður,“ segir hann og bætir því við að hann sé reynslunni ríkari eftir kosningarnar og öllu því sem þeim fylgdi.

logis@mbl.is