Framsóknarflokkurinn vann glæstan kosningarsigur í Borgarbyggð um helgina, felldi meirihlutann og myndar nú hreinan meirihluta með fimm sveitarstjórnarfulltrúa. Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti flokksins í Borgarbyggð, segist vera himinlifandi yfir stuðningnum sem flokkurinn hlaut, ekki sé sjálfgefið að vera með hreinan meirihluta og mikilvægt að gleyma ekki þeim kjósendum sem kusu flokkinn ekki.
Meiri ábyrgð
„Okkar ábyrgð er að hlusta á raddir allra. Það er öðruvísi nálgun að vera með hreinan meirihluta en að vera í samstarfi við annan flokk. Mér finnst fylgja því aukin ábyrgð.“Aðspurð segir Guðveig gott gengi Framsóknarflokksins megi rekja til samstöðunnar og kraftsins innan flokksins. Flokksmenn hafi rödd og geti haft áhrif innan flokksins. Hún væntir þess að þrátt fyrir hreinan meirihluta Framsóknar muni kjörtímabilið einkennast af góðri samvinnu. „Við munum að sjálfsögðu eiga gott samtal við fulltrúa minnihlutans um þau verkefni sem eru fram undan. Við viljum að sjálfsögðu leyfa þeim að taka þátt í þeirri málefnavinnu sem við erum að fara í núna, við viljum heyra þeirra áherslur líka og ég vænti þess að við munum taka tillit til þess,“ segir Guðveig.
Hún segir flokkinn ætla að leggja mikla áherslu á uppbyggingu í öllu sveitarfélaginu þar sem Borgarbyggð hafi dregist aftur úr hvað varðar vöxt samfélagsins. Nægar íbúða- og atvinnulóðir megi finna í bænum og skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu geti skapað tækifæri fyrir Borgarbyggð.
„Þetta er bara spurning um að klára ákveðin skipulagsmál og fara í gatnagerð og annað til þess að koma hjólunum að stað.“
Aðspurð segir Guðveig að hún muni ekki taka við sveitarstjórasætinu og að líklega verði auglýst eftir sveitarstjóra.