Kristmundur Ásmundsson
Kristmundur Ásmundsson
Eftir Kristmund Ásmundsson: "Örar framfarir í tækni og umferðarþróun hafa gert borgarlínu úrelta nú þegar. Greiðum götu einkabílsins sem framtíðarlausn í almenningssamgöngum."

Tækniframfarir verða æ hraðari með hverju árinu og á það líka við um samgöngumál. Umhverfisvænir rafdrifnir einkabílar munu taka yfir innan nokkurra ára. Tilkoma AI (gervigreind) og 5G í netinu, ásamt sjálfkeyrandi bílum, gerir það líklegt að innan 15-20 ára verði bílaflotinn að mestu sjálfkeyrandi, ef ekki að öllu leyti. Ef svo verður er um algera byltingu að ræða. Bílaflotinn, a.m.k. í stærri bæjum, er síkeyrandi bílstjóralaus og hægt verður að panta sér bíl fyrir strætógjald hvenær sem það hentar. Einkabílum fækkar mjög mikið og bílastæði hverfa.

Ef þetta verður raunveruleikinn þá er núverandi hugmynd um borgarlínu þegar úrelt og mun standa sem risaeðla til minningar um þann gríðarlega skort á framsýni sem einkenndi alla þá sem komu að þessari úreltu ákvörðun.

Byggjum frekar upp góðar stofnbrautir með mislægum gatnamótum, göngum, o.s.frv. Byggjum gatnanet sem verður eins gagnlegt þessum bílaflota og hægt er. Skipuleggjum umferðina sem allra sveigjanlegasta og aðlögum hana þörfum fólksins. Gerum einkabílinn að almenningssamgöngum allra. Gerum umferðina dökkgræna.

Hendum ekki milljörðum í risaeðlur.

Höfundur er læknir og fyrrverandi bæjarfulltrúi. kristmund@centrum.is