Haukur Jóhannsson
Haukur Jóhannsson
Eftir Hauk Jóhannsson: "Þúsundaskili skal vera stutt bil en hvorki punktur né komma ..."

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 2022-05-17 var sagt frá því að 14 000 manns hefðu verið drepin í Donbass árin 2014/21. Starfsmaður breytti 14 000 í 14.000.

Í lögum um staðla og Staðlaráð Íslands, nr. 36/2003, hljómar 3. grein svo: „Staðall er til frjálsra afnota. Stjórnvöld geta þó gert notkun tilgreinds staðals skyldubundna með vísun til hans og hlutaðeigandi laga. Skal hann þá staðfestur með reglugerð af hlutaðeigandi ráðuneyti og skal í reglugerð vísa til staðalsins.“

Reglugerð 1160/2011 fjallar um mælieiningar á Íslandi. Viðauki við reglugerðina er greinilega örútdráttur úr alþjóðastaðli ISO 80000-1. Sá staðall tók formlega gildi á Íslandi 2013-10-15 sem ÍST EN ISO 80000-1:2013 og er notkun hans þar með skyldubundin.

Í grein staðalsins nr. 7.3.1 eru ákvæði um ritun talna með mörgum tölustöfum til að auðvelda lestur. Þeim megi skipta með þúsundaskila milli hverra þriggja tölustafa talið frá tugabrotsskila. Þúsundaskili skal vera stutt bil en hvorki punktur né komma né neitt annað merki.

Í grein 7.1.4 eru ákvæði um rithátt magns og eininga. Magn er ritað með tölustöfum og mælieining þar á eftir, bil á milli: 2,0 m, 437 kg, 15 °C. Sama regla á við prósentur, 47 %. Eina undantekningin eru hornatáknin °, ' og “: 89° 59' 59“.

Sá bandaríski ósiður að klína einingu beint aftan í magntölu hefur uppá síðkastið breiðst út svo undrum sætir. Fjarlægðarmörk vegna COVID-19 voru hér 2 m, en iðulega tilgreind sem 2m eða jafnvel 2M.

Í íslenskum staðli ÍST EN ISO 80000-1:2013 eru fjölmörg önnur atriði til eftirbreytni. Notkun hans er skyldubundin að lögum og hann ætti að vera ein af grunnstoðum menntakerfisins.

Höfundur er lífeyrisþegi haujo@simnet.is