Guðmundur Sigvaldason segir að verkefnastaðan sé góð og töfluverkstæði Orkuvirkis sé t.d. fullbókað út árið.
Guðmundur Sigvaldason segir að verkefnastaðan sé góð og töfluverkstæði Orkuvirkis sé t.d. fullbókað út árið. — Morgunblaðið/Eggert
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Mikil samkeppni ríkir í raftæknigeiranum á Íslandi en mörg verkefni eru fram undan vegna orkuskipta, öldrunar stóriðjunnar og innviðauppbyggingar.

Guðmundur G. Sigvaldason, framkvæmdastjóri tækni- og verktakafyrirtækisins Orkuvirkis, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að verkkaupar taki ekki nógu mikið tillit til þess þegar á reyni hve mikið fyrirtæki eins og Orkuvirki hafa lagt upp úr því að byggja upp starfsmannahópinn og auka sérþekkingu hans. Guðmundur segir að of oft sé samið við erlend fyrirtæki þegar íslenskir aðilar eins og þeir sjálfir bjóði samkeppnishæfa vöru og þjónustu. „Við erum búin að fjárfesta gríðarlega mikið í starfsfólki og þekkingu en á endanum ráðast viðskiptin af hagstæðasta tilboðinu sem berst. Það kemur kannski lægra tilboð erlendis frá eða tilboð með tengingu til erlendra samstarfsaðila. Þá er því bara tekið án þess að tillit sé tekið til þess að það skipti máli að byggja upp íslenskan iðnað og þekkingu og halda henni í landinu,“ segir Guðmundur.

Eina með háspennuskápa

Til dæmis er Orkuvirki eina fyrirtækið á landinu sem framleiðir háspennuskápa og á þar í samkeppni við erlend stórfyrirtæki. „Menn eru gjarnir á að taka bara það sem er hagstæðast hverju sinni. Svo þegar til kemur er leitað til okkar um þjónustu því þessi erlendu fyrirtæki eru ekki hér á landi. Við gerum það auðvitað fúslega en reynum þá að efna til samstarfs eins og kostur er.“

75-80% af verkefnum Orkuvirkis koma í gegnum útboð og tilboðsferli. Annað er þjónusta. „Veltan hefur farið vaxandi. Hún var 1,2 milljarðar 2020 og 1,5 milljarðar á síðasta ári. Það er stígandi í þessu.“

Starfsmannafjöldinn eykst einnig. Guðmundur segir að 50 muni vinna hjá félaginu í sumar. „Við höfum reynt að efla hlut kvenna. Meðalaldur starfsmanna er 45 ár og hefur farið lækkandi. Starfsmannavelta er lítil og starfsmenn stoppa hér lengi.“

Mörg verkefni í gangi

Spurður nánar um tekjuvöxtinn segir Guðmundur að hann komi til af því að mörg verkefni hafi verið og séu í gangi og mikið sé fram undan hjá veitufyrirtækjum eins og t.d. Landsneti hvað innviðauppbyggingu varðar. „Þeir eru án efa einn okkar stærsti viðskiptavinur síðastliðin ár. Við höfum sérhæft okkur mikið í verkefnum eins og þar eru boðin út og höfum sótt mikið í þau. Landsnet er til dæmis að styrkja byggðalínuna og flutningskerfið af miklum krafti. Það sama gildir um stóriðjuna. Þar er heilmikið í gangi og margt sem þarf að endurnýja. Stóriðjan er að eldast og líftími búnaðar eins og stjórnkerfa í verksmiðjunum, háspennubúnaðar o.fl. er að breytast. Við ætlum okkur að taka þátt í endurnýjuninni.“

Eins og fyrr sagði hefur Orkuvirki fjárfest mikið í ferlum og þekkingu starfsmanna. Hann segir að fyrirtækið sé sennilega hið eina á sínu sviði hér á landi sem farið hefur alla leið hvað gæðavottanir varðar. „Við erum með ISO 9001, 14001 og 45001 vottanir. Í gegnum árin hefur þetta verið rík krafa frá verkkaupum. Við erum því núna vottað og ferladrifið fyrirtæki. Við vinnum samkvæmt ákveðnu mynstri sem skilar sér í betri vinnubrögðum og ánægðari viðskiptamönnum.“

Eins og Guðmundur útskýrir er 10-15 manna verkfræðideild hjá Orkuvirki ásamt rafmagns- og járnaverkstæði. Þjónustan er mjög sérhæfð og fyrirtækið öflugt að hans sögn. „Það var lengi í eigu þriggja starfsmanna en nú erum við fimm eigendur sem allir komum að rekstri þess.“

Helstu viðskiptavinir eru veitufyrirtæki, orkufyrirtæki og orkusækinn iðnaður ýmiskonar, stóriðjufyrirtæki og stærri stofnanir.

Setja upp hleðslustöðvar

Fyrirtækið hefur að markmiði að taka virkan þátt í orkuskiptum landsmanna og vinnur m.a. með bílaumboðinu Öskju við uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla. Einnig tekur það virkan þátt í landtengingum skipa en hafnir landsins vinna um þessar að því að efla raftengingar sínar. Þá eru gagnaver, stofnanir o.fl. fyrirtæki einnig þjónustuð. „Í gagnaverunum sjáum við um uppsetningu og annað er viðkemur raforkuhlutanum, alla afldreifinguna, allt frá heimtauginni sem kemur inn á háspennu og út í sjálfa dreifinguna.“

Fyrirtækið sérhæfir sig í öllu er snýr að háspennu, allt frá hönnun, búnaði, uppsetningu og prófunum stjórnkerfa og búnaðar.

Guðmundur röltir með blaðamanni um húsnæði Orkuvirkis og á töfluverkstæðinu þar sem há- og lágspennuskápar eru smíðaðir er mikið annríki. „Töfluverkstæðið er fullbókað út árið. Orkuvirki hefur sl. áratugi framleitt og afgreitt um eitt þúsund háspennuskápa sem eru í rekstri um allt land,“ segir Guðmundur að lokum.